Author Archives: MKH

Jónsmessuhátíðin á Eyrarbakka 25. júní

mjp_1709:00    Fánar dregnir að húni við upphaf 18. Jónsmessuhátíðarinnar á Eyrarbakka

Eyrbekkingar flagga íslenska fánanum eða Bakkafánanum og ganga frá skreytingum í hverfalitunum.

Kjörfundur vegna forsetakosninga hefst á Stað og stendur til kl. 22. Nýtum kosningaréttinn snemma.

Björgunarsveitin Björg býður upp á ókeypis veiði í Ölfusá fyrir landi Eyrarbakka allan daginn.

09:00-21:00    Verslunin Bakki við Eyrargötu

Verslunin verður opin allan daginn og langt fram á kvöld. – Kíkið við í spjall og börnin fá skrímslaís um miðbik dagsins.

09:15-11:00    Morgunstund í skógarlundi

Skógræktarfélag Eyrarbakka tekur á móti gestum á svæði félagsins í Hallskoti og býður upp á hressingu í morgundögginni.

10:30-17:00    Laugabúð í Sjónarhóli

Bókamarkaður í kjallaranum – mikið úrval nýrra og gamalla bóka á frábæru verði.
Sögur og skemmtilegheit allan daginn og farandkaupmenn úr höfuðstaðnum á öllum hæðum.

11:00-22:00    Rauðahúsið á Eyrarbakka

Rauða Húsið verður með tvö tilboð allan daginn: Tveggja rétta máltíð með fiskiþrennu og Þjórsárhrauni í í eftirrétt á 5.800 kr. eða kaffi og heimatilbúin kökusneið á 1.250 kr.

11:00-18:00    Fortíðin í söfnunum á Eyrarbakka

Byggðasafn Árnesinga í Húsinu, Sjóminjasafnið á Eyrarbakka og Kirkjubær eru opin. Í borðstofu Hússins er sýningin Dulúð í Selvogi. Í Kirkjubæ er sýningin Draumur aldamótabarnsins. Boðið uppá ferskjur og rjóma að hætti Guðrúnar húsfreyju í Kirkjubæ milli kl. 13 og 14.
Komið og vitjið fortíðarinnar í söfnunum á Eyrarbakka. Ókeypis aðgangur á Jónsmessuhátíðinni.

11:00    Unga kynslóðin skemmtir sér

Hinn sívinsæli Brúðubíl kemur í heimsókn að Sjóminjasafninu með nýtt leikrit. Vatnaboltar og bubblu-boltar í boði Ungmennafélagsins og Björgunarsveitarinnar á eftir. Hestar verða teymdir undir börnum.

12:00-14:00    Heimboð í Garðshorn

Árleg Jónsmessusúpa og rabarbaragrautur upp á gamla mátann í Garðshorni í boði húsráðenda Elínbjargar og Vigfúsar. Allir velkomnir.

14:00-15:15    Saga music – í Gamla-Gónhóli í Frystihúsinu

Valgeir Guðjónsson flytur Saga Music dagskrána í tali og tónum þar sem persónulýsingar úr Íslendingasögunum eru efniviðurinn. Sjá nánar á www.bakkastofa.com        Aðgangseyrir kr. 1.000.

14:00-16:00    Gallerí 973 – Garðbær við Gónhól

Stúdíó listamannanna Kristínar og Max er opið að Eyrargötu 73 – Garðbæ. Sjá nánar www.gallery973.com .

14:00-16:00    Ljósmyndasýning á Háeyrarvöllum

Anný og Valgeir bjóða upp á spjall og ljósmyndasýningu á heimili sínu á Háeyrarvöllum 32.

15:00-17:00    Spjallað í Hausthúsum

Margrét Sverrisdóttir og Pétur Hilmarsson taka á móti fólki við hús sitt Hausthús að Eyrargötu 39.

16:00-18:00    Diskótek fyrir yngri kynslóðina

DJ Sveppz sér um diskóið við Sjóminjasafnið. Mikið fjör og mikið gaman. 😊

20:15-21:30    Sameinaði Bakkakórinn þenur raddböndin í Húsinu

Heimir Guðmundsson leikur undir almennan söng, þar sem hver syngur með sínu nefi.

22:00    Jónsmessubrenna

Jónsmessubrenna í fjörunni vestan við Eyrarbakkaþorp. Eyrbekkingurinn Sandra Dís Hafþórsdóttir ávarpar gesti. Hið frábæra Bakkaband heldur svo uppi fjörinu meðan menn endast.

23:00    Rauða húsið

Kjallarinn opinn og Grétar í Sólvangi ætlar að spila. 😊

Tjaldsvæðið vestan þorpsins, sem Björgunarsveitin Björg rekur, hefur verið stækkað – ÖLL ÞÆGINDI OG NÓG PLÁSS.

Jónsmessuhátíðin er styrkt af Sveitarfélaginu Árborg

Eyrarbakki í stóru aukahlutverki

Bræðurnir Unnsteinn Manuel og Logi Pedro í hljómsveitinni Retro Stefson hafa nýlega gefið út nýtt myndband við lag sitt SKIN.

Myndbandið er að mestu leyti tekið upp á Eyrarbakka og leikur þorpið stórt aukahlutverk í myndbandinu. Kíki á:

Alþýðutónlistarhátíðin Bakkinn

bakkinn

Alþýðutónlistarhátíðin Bakkinn
Eyrarbakka og Stokkseyri
21.-24. apríl 2016

Alþýðutónlistarhátíðin Bakkinn verður haldin í þriðja sinn 21.-24. apríl nk.
Tónlistarhátíðin verður að mestum hluta á Eyrarbakka en í ár bætist við tónleikastaðurinn Orgelsmiðjan á Stokkseyri.
Tónlistarfólkið sem kemur fram er ekki af verri endanum – en þau eru: Ellen Kristjánsdóttir og Eyþór Gunnarsson, Lay Low, Valgeir Guðjónsson, Magnús Þór Sigmundsson, Skúli mennski, Íkorni, Þjóðlagasveitin Kólga, UniJon, Amber, Myrra Rós og Vargur.
Tónleikarnir í ár verða í Óðinshúsi, Eyrarbakkakirkju, Rauða húsinu, Húsinu á Eyrarbakka og svo í Orgelsmiðjunni á Stokkseyri.
Það má búast við tónlistarveislu og notalegri stemningu við ströndina næstu helgi!

Frítt verður inn á alla viðburði – en frjáls framlög eru vel þegin!
Allar nánari upplýsingar má nálgast á www.bakkinn.org

 

Bakkinn dagskrá 2016

Fimmtudagurinn 21.apríl – Sumardagurinn fyrsti
Kl 14:00 Samsöngur í Húsinu
– Bakkinn settur

Kl 17:00 Rauða húsið – Norðursalur 2 hæð
Valgeir Guðjónsson – Saga Music ný sagnatónlist frumflutt

Föstudagurinn 22.apríl
Kl 20:00 Eyrarbakkakirkja
Ellen Kristjáns og Eyþór Gunnarsson

Laugardagurinn 23.apríl
Kl 14:00 Húsið
Amber

Kl 16:00 Óðinshús
UniJon
Lay Low

Kl 20:00 Óðinshús
Íkorni
Þjóðlagasveitin Kólga
Skúli Mennski
Magnús Þór

Sunnudagurinn 24.apríl
Kl 16:00 Orgelsmiðjan Stokkseyri
Myrra Rós
Vargur frá Stokkseyri

Frítt er inná alla viðburði – en frjáls framlög vel þegin.

Nánari upplýsingar má nálgast á www.bakkinn.org

Eyrarbakkakirkja 125 ára

kirkjan

EYRARBAKKAKIRKJA 125 ÁRA

Aðdragandi og vígsla kirkjunnar

Góðir kirkjugestir – gleðilega hátíð!

Árið 1889 voru íbúar á Eyrarbakka 583 talsins og hafði þeim fjölgað ört frá 1850, þó mest á níunda áratug 19. aldar. T.d. var fjölgunin um 100 manns á aðeins fjórum árum frá 1885. Eyrarbakki var þá fimmti fjölmennasti þéttbýlisstaður landsins – á eftir Akureyri, Hafnarfirði, Ísafirði og svo Reykjavík með sína 3.750 íbúa.

Eyrarbakki var á þessu tíma höfuðstaður Suðurlands. Hér hafði verið aðalhöfn Sunnlendinga um aldir og verslunin hafði blómstrað. Þéttbýli, eins og við þekkjum það, var að byrja að myndast, en enn bjuggu flestir íbúar á Eyrarbakka í torfbæjum, sem sumir voru reisulegir með timburþilum, en aðrir lágreistari og fátæklegri. Bæirnir mynduðu þyrpingar eða raðir, með heitum sem haldist hafa fram á þennan dag.

Götumyndin, eins og við þekkjum hana í dag, var að taka á sig mynd – flest timburhúsin húsin voru byggð frá 1880 til 1915. Elst voru verslunarhús danska kaupmannsins, sem reist voru á löngum tíma, elsti hlutinn frá 1755 – Vesturbúðin svokallaða. Glæsilegast var þó íbúðarhús faktorsins – Húsið, sem reist var árið 1765.

Eyrbekkingar höfðu átt kirkjusókn að Stokkseyri, en þar hafði verið kirkustaður frá 11. öld. Ný kirkja var byggð þar árið 1886.

Vegna þeirrar miklu og öru fjölgunar íbúa á Eyrarbakka var farið að ræða það fljótlega upp úr 1880, að skipta Stokkseyrarsókn í tvennt og var einn helsti stuðningsmaður þess séra Jón Björnsson sóknarprestur í Stokkseyrasókn. Hann bjó hér á Eyrarbakka – í Presthúsinu í Einarshafnarhverfi.

Árið 1885 var samþykkt á héraðsfundi Árnesprófastsdæmis „að byggja megi nýja kirkju á Eyrarbakka“. Er þessi samþykkt það fyrsta, sem vitað er um kirkjubygginguna hér á Bakkanum.

Og þá taka menn til við fjársöfnun til kirkjubyggingarinnar og í apríl 1887 er auglýst í landsmálablöðunum „að landshöfðinginn leyfi sóknarnefnd Stokkseyrarsóknar að halda Lukkuspil (Lotteri), til ágóða hinni fyrirhuguðu Eyrarbakkakirkju, á rauðum reiðhesti 6 vetra, viljugum og vökrum, sem herra hreppstjóri og kaupmaður Guðmundur Ísleifsson á Stóru-Háeyri hefur gefið í því skyni“. Gert er ráð fyrir því að dráttur í lotteríinu fari fram seinni part septembermánaðar. Númerin fást keypt fyrir eina krónu hjá kaupmönnum í Reykjavík, Hafnarfirði, á Eyrarbakka og Akureyri, á Útskálum og í Stafholti og austur í Rangárvallasýslu. Ekki voru menn á eitt sáttir hve seint átti að draga hestinn og því auglýsir Stefán Bjarnarson sýslumaður í Gerðiskoti í maí 1887 að drætti verði flýtt og fari hann fram „að Eyrarbakka laugardaginn hinn 9. júlí næstkomandi um hádegisbil“. Ekki fer frekari sögum af því, hverjum rauði hesturinn vakri var dreginn.

Í maí er einnig auglýst í Ísafold: „Stór Concert (50-60 manns, karlar og konur) í Good-templarahúsinu [í Reykjavík] laugardag 4. maí kl. 8½ e.m. undir forustu Stgr. Johnsens, til ágóða fyrir kirkjubyggingu á Eyrarbakka. …“ Og bílætin kosta eina krónu.

Víða eru menn að leggja kirkjubyggingunni lið. Meira að segja var prentað keðjubréf á erlendum tungumálum undir fyrirsögninni „Látum snjóboltann rúlla fyrir Eyrarbakkakirkju“ og var þessu bréfi dreift erlendis. Áheit og gjafir komu m.a. frá Eyrbekkingum í Íslendinganýlendunni á Washington-eyju vestur í Michigan-vatni í Norður-Ameríku.

Þann 22. nóvember 1889 birtist frétt frá Eyrarbakka í Þjóðólfi þar sem segir: „Hið mikla áhugamál vort Eyrbekkinga, kirkjumálið, er nú komið það áleiðis, að fyrir skömmu er byrjað að hlaða grunninn undir kirkjuna, mest fyrir ötula framgöngu merkisprestsins Jóns Björnssonar á Eyrarbakka, sem með því, að lofa sjálfur mest allra og með því að gangast fyrir samskotum í söfnuðinum, mun á vikutíma hafa fengið loforð fyrir 1.600 kr., mest á sjálfum Eyrarbakka og hjer í grennd; …“.

Af þessu má ljóst vera að bygging Eyrarbakkakirkju hefst haustið 1889 og stendur svo allt næsta ár 1890.

Jóhann Fr. Jónsson húsasmiður á Eyrarbakka teiknar kirkjuna, en honum entist ekki aldur til þess að stýra kirkjubyggingunni, hann deyr í mars 1890 tæplega fertugur að aldri. En talið er að yfirsmiðir kirkjunnar hafi að langmestu leyti farið eftir teikningum Jóhanns Fr. Jónssonar.

Og í ágústlok birtist í Þjóðólfi stuttur pistill: „Kirkja er reist á Eyrarbakka … og vonast eptir, að hún verði jafnvel messufær í vetur; hún er byggð fyrir tóm samskot og gjafir og hefur það ekki gengið stríðlaust af fyrir helsta forgöngumanninum, sjera Jóni Björnssyni, er þó hefur verið veill á heilsu; mikið mun þó enn vanta til að kirkjan verði byggð skuldlaust.“

Og víkur nú sögunni til Reykjavíkur fimmtudaginn 11. desember 1890. Þá heldur af stað ríðandi úr borginni einn af heldri mönnum bæjarins, ásamt fylgdarmönnum. Þeir ná fyrir kvöld austur að Kolviðarhóli og gista þar um nóttina. Næsta dag ríða þeir áfram um Lágaskarðsveg og niður í Ölfus, fara um hlaðið á Hrauni og ríða austur Óseyrartanga. Þeir eru ferjaðir yfir Ölfusá við Óseyrarnes og ná til Eyrarbakka síðdegis föstudaginn 12. desember. Sama dag birtist frétt í Þjóðólfi: „Eyrarbakkakirkja er nú fullgjörð. Biskup Hallgrímur Sveinsson fór austur þangað í gær, til að vígja hana næsta sunnudag.“

Biskupinn yfir Íslandi var sjálfur kominn hingað austur á Eyrarbakka til þess að vígja nýju kirkjuna. Í 400 ár hafði það ekki tíðkast að biskupinn vígði nýjar kirkjur, utan einu sinni þegar dómkirkjan í Reykjavík var vígð árið 1848. Þetta segir okkur töluvert um stöðu Eyrarbakka á þessum tíma á landsvísu. Nokkuð víst er, að biskupinn hefur notið gestrisni húsráðenda í Húsinu – þeirra Peters Nielsens faktors og konu hans, Eugeníu Nielsen Thorgrímsen, en fólkið í Húsinu var, ásamt svo mörgum öðrum, miklir stuðningsmenn kirkju-byggingarinnar.

Daginn fyrir vígsluna, laugardaginn 13. desember, var klukkum kirkjunnar hringt í klukkustund.

Þriðji sunnudagur í aðventu árið 1890 rann upp fagur og bjartur, sólskin var með hægu frosti. Á hádegi var kirkjuklukkunum samhringt og á meðan gekk biskup, ásamt fimm prestvígðum mönnum, sóknarnefndarmönnum, faktor Nielsen, settum sýslumanni og einum til, „alls 12 manns, hátíðargöngu, tveir og tveir saman úr Húsinu. Þegar flokkurinn kom að kirkjudyrum hætti hringingin, en á meðan gengið var inn eftir kirkjugólfi og inn í kórinn var leikið á harmoníum án orða og söngs – præludium. Biskupinn gekk þegar fyrir altarið og tók við Biblíunni, kaleik og patínu og handbókinni, sem prófastur og prestarnir báru, og setti þessa hluti á altarið, og gjörði því næst bæn sína fyrir altarinu, en hátíðargönguflokkurinn skipaði sér til sæta í kórnum báðum megin“.

Þessi frásögn af upphafi kirkjuvígslunnar er samkvæmt skrifum sjónarvotts, sem birtust í blaðinu Ísafold 20. desember. Þar er einnig mjög nákvæm lýsing á allri athöfninni, hvaða ritningarlestrar voru lesnir og hverjir lásu, hvaða sálmar voru sungnir og síðan nákvæm lýsing á kirkjunni sjálfri.

„Söngurinn fór prýðilega fram undir stjórn organistans Jóns Pálssonar [sem bjó á Hofi eftir að hann flutti frá Stokkseyri] og sungu þar tveir allstórir (38 manna) og velæfðir blandaðir söngflokkar, annar frá Eyrarbakka og hinn Stokkseyri.“ Það er ánægjulegt að horfa upp á söngloftið og sjá að sagan endurtekur sig nú 125 árum seinna – hér stendur söngfólk bæði frá Eyrarbakka og Stokkseyri, eins og var 14. desember 1890, og leyfir okkur að njóta sameinaðra söngkrafta sinna.

„Kirkjan var svo full uppi og niðri sem frekast mátti verða, enda reyndist að hún hefði rúmað 600 manns, en nokkrir höfðu orðið frá að hverfa sakir rúmleysis og fáeinir stóðu úti fyrir. Auk fjölmenns safnaðar af Eyrarbakka og Stokkseyri voru margir aðkomnir úr Kaldaðarnes-, Gaulverjabæjar- og Arnarbælissóknum og enn nokkrir lengra að.“

Þessi lýsing sjónarvottsins í Ísafold er mjög nákvæm og einstök lýsing á kirkjuvígslu frá þessum tíma. Enda var það svo, að vígsla Eyrarbakkakirkju varð fyrirmynd að kirkjuvígsluathöfnum víða um land á næstu árum og áratugum, svo glæsileg og hátíðleg þótti hún.

Í ársritinu Fréttir frá Íslandi fyrir árið 1890 segir: „Ein kirkja var vígð af biskupi 14. desember, Eyrarbakkakirkja, er reist hafði verið af samskotum tómum og gjöfum, veglegt hús og vandað að öllu; var vígsluathöfnin öll með meiri dýrð en títt hefir verið hjer á landi um langan aldur.“

Það eina sem skyggði á hátíðina var ,að séra Jón Björnsson gat ekki verið sökum sjúkleika „við vígslu þessarar kirkju, sem hann með áhuga sínum og kappsamlegu fylgi hefir átt drjúgastan þátt í að reisa á þeim stað, þar sem ekkert guðshús áður var til, en þörfin á því mikil“.

Það er ekki fyllilega vitað hver byggingarkostnaður kirkjunnar var, en við vígsluna er talið að byggingarskuldin hafi verið um 2.000 gamlar krónur, eða um 1,9 milljónir nýkróna á verðlagi dagsins í dag, og sú skuld var ekki að fullu greidd fyrr en nær tuttugu árum seinna eða árið 1918.

Kirkjan var öll ómáluð, en hafði verið skreytt með laufsveigum og blómum á ýmsum stöðum og á annan hátt. Messuklæði, áhöld og hlutir innan kirkju voru ókomnir, en fengnir að láni við vígsluna. Og enga altaristöflu átti kirkjan, en úr því rættist árið eftir.

Í blaðinu Ísafold birtist 22. júlí 1891 eftirfarandi auglýsing:

„Hennar hátign drottning Danakonungs hefir nýlega sent ljómandi fallega altaristöflu er hún hefir sjálf málað og gefið hinni nýju kirkju á Eyrarbakka. Myndin sýnir frelsarann, þar sem hann talar við samversku konuna við Jakobsbrunninn í Samaríu.

Til þess að gefa mönnum færi á, að sjá þessa fögru og veglegu gjöf, verður myndin sýnd í barnaskólahúsinu [í Reykjavík] (3. bekk) fyrst um sinn vikutíma og byrjar sýningin á fimmtudaginn 23. þ.m. og stendur frá kl. 5 til 7, og kostar 25 aura fyrir hvern mann – ágóðinn rennur í sjóð Eyrarbakkakirkju.“

Undir þetta ritar Þorlákur O. Johnson kaupmaður í Reykjavík.

Altaristaflan hefur sem sagt komið með skipi til Reykjavíkur og er síðan send hingað austur og sett upp í kirkjunni síðla sumars 1891 og hér hefur þessi ómetanlegi kirkjugripur skrýtt kirkjuna síðan.

En hvernig á því stendur, að Louise drottning Kristjáns konungs níunda gefur kirkjunni altaristöfluna er enn óleyst gáta, sem gaman væri að leysa.

Ágætu kirkjugestir!

Ég sé að presturinn og organistinn eru báðir farnir að líta á úrin sín. Þeir báðu mig að rekja 125 ára sögu Eyrarbakkakirkju í stuttu máli. Ég hef nú farið yfir um það bil eitt og hálft ár í sögu kirkjunnar – tími minn er þrotinn – það sem eftir er af sögu kirkjunnar verður að bíða betri tíma.

Megi Eyrarbakkakirkja þjóna þörfum Eybekkinga frá vöggu til grafar um ókomna tíð, eins og hún hefur gert síðastliðin 125 ár.

Ég óska ykkur öllum gleðilegrar jólahátíðar og farsældar á nýju ári.

 

Magnús Karel Hannesson                                            

Flutt á aðventuhátíð í Eyrarbakkakirkju 13. desember 2015.

 

Heimildir:

Guðmundur Gísli Hagalín: Á fallanda fæti. Saga byggðar á Eyrarbakka 1889-1939. Júní 2013.

Magnús Guðjónsson: Eyrarbakkakirkja 100 ára. Desember 1990.

Tímarit.is

 

 

 

Húsið á Eyrarbakka 250 ára

mkh_150805-DSC07920

Húsið á Eyrarbakka 250 ára

Í sumar eru 250 ár liðin síðan Húsið á Eyrarbakka var byggt. Af því tilefni boðar Byggðasafn Árnesinga til hátíðarsamkomu í Húsinu á Eyrarbakka þann 9. ágúst næstkomandi og hefst kl. 14. Á samkomunni verða flutt erindi og ávörp auk þess sem tónlist tengd Húsinu verður flutt. Þau sem koma fram á samkomunni eru m.a. Ásta Kristrún Ragnarsdóttir, Valgeir Guðjónsson, Halldór Blöndal, Guðmundur Ármann Pétursson og Hlín Pétursdóttir. Léttar veitingar verða í boði. Allir velkomnir.

Húsið var byggt af Almenna verslunarfélaginu í Kaupmannahöfn árið 1765 sem árið áður hafði fengið einkarétt á verslun á landinu. Enn erum við á tímum einokunarverslunar. Á vegum Almenna verslunarfélagsins var danskur reynslumikill kaupmaður, Jens Lassen að nafni, ráðinn forstöðumaður verslunarinnar á Eyrarbakka. Jafnframt var gefin út heimild til að setja niður á verslunarstaðina íbúðarhús fyrir kaupmennina í þeirri viðleitni yfirvalda í Danmörku að efla verslunarlíf og bæta hag Íslendinga.

Ekki er vitað hverjir byggðu Húsið. Talið er víst að það hafi verið danskir smiðir, en Þorgrímur Þorláksson múrari á Bessastöðum hlóð upp reykháfinn, eldstæði og bakaraofn. Þorgrímur var kominn aftur til Bessastaða þann 23. ágúst og var þá verki hans á Eyrarbakka lokið. Munnmælasögur segja að ekkert timbur hafi verið selt úr Eyrarbakkaverslun þetta sumarið því það hafi allt farið í nýbygginguna.

Húsið er svonefnt bolhús,12,7×9 metrar að grunnfleti, með rennisúð á þaki. Stokkarnir voru fluttir tilsniðnir til landsins frá Noregi. Tjargaðir og þéttir bjálkarnir voru ysta klæðning fyrst um sinn og e.t.v. í heila öld.

Að skipulagi bar Húsið í upphafi mörg einkenni danskrar húsagerðar, inngangur að sunnanverðu og norðanverðu, stofur og herbergi til beggja enda, rishæð og hanabjálkaloft.

Byggt var við Húsið árið 1766 en sú viðbygging vék síðar fyrir nýrri viðbyggingu, Assistentahúsinu árið 1881.

Húsið var kaupmannssetur til 1927. Veldi þeirra sem þar bjuggu var ótvírætt, húsbændurnir þjónuðu stærstu verslun landsins en kaupsvæði Eyrarbakkaverslunar náði yfir þrjár sýslur á Suðurlandi. Var ekki laust við að bændur litu með lotningu á Húsið þegar riðið var framhjá því á leið til verslunarhúsanna sem illu heilli voru rifin árið 1950.

Blómatími Hússins á Eyrarbakka var þegar Lefolii stórkaupmaður í Kaupmannahöfn átti verslunina. Var verslunin kennd við kaupmanninn og nefndist Lefolii-verzlun á Eyrarbakka. Þetta er á tímabilinu 1847 til 1918. Lefolii kaupmaður kom gjarnan á vorin og fór að hausti. Allt árið var svo búsettur í Húsinu verslunarstjóri hans ásamt fjölskyldu. Þekktastir þeirra voru Guðmundur Thorgrímsen og síðar Peter Nielsen sem nutu mikilla vinsælda meðal almennings. Mikil umsvif voru við verslunina sem þjónaði þremur sýslum en innan dyra Hússins blómstraði menningin. Í hnotskurn má segja að í Húsinu hafi mæst dönsk borgarmenning og íslensk bændamenning. Fyrir það varð Húsið á Eyrarbakka landsfrægt.

Hjónin Halldór Kr. Þorsteinsson og Ragnhildur Pétursdóttir sem kennd hafa verið við býlið Háteig í Reykjavík, keyptu Húsið árið 1932 og létu gera það upp enda þá komið í niðurníðslu. Er talið að það sé í fyrsta sinn sem einstaklingar kaupa hús vegna sögu sinnar og því fyrsta merki um húsavernd á Íslandi. Þau Auðbjörg Guðmundsdóttir og þáverandi eiginmaður hennar Pétur Sveinbjarnarson keyptu Húsið árið 1979 og létu gera upp í upprunalega mynd. Bjó Auðbjörg í Húsinu til ársins 1994. Þá hafði hún selt ríkissjóði Húsið og var Þjóðminjasafni Íslands falin umsjón þess og viðgerðir. Er byggingin nú hluti af húsasafni þess. Frá árinu 1995 hefur Byggðasafn Árnesinga séð um daglegan rekstur Hússins á Eyrarbakka og er með grunnsýningu sína í því.

Húsið á Eyrarbakka er á meðal merkustu menningarverðmæta sem varðveitt er á landsvísu. Þess vegna er vel við hæfi að Húsið sé umgjörð um Byggðasafn Árnesinga. Það eru ekki allir sem geta boðið upp á sýningu í 18. aldar húsi og þar liggur styrkleiki safnsins. Umhverfis Húsið er svo þétt byggð timburhúsa sem byggð voru á tímabilinu 1880 til 1930 og markar þorpinu Eyrarbakka sunnlenska sérstöðu.

Nú sem fyrr er gestkvæmt í Húsinu á Eyrarbakka. Það stendur enn á sínum upprunalega stað og mynda húsin tvö, Húsið og Assistentahúsið, einstakt sjónarhorn þegar horft er til Hússins frá Eyrargötu. Það er margt forvitnilegt í kringum þetta gamla stílhreina hús og merka sögu þess. Það bíður þess að gestir líti það augum. Það er almenningseign og öllum velkomið að drepa þar inn fæti.

 

Samantekt:
Lýður Pálsson, safnstjóri Byggðasafns Árnesinga

KK í Óðinshúsi 21. ágúst

KK

KK í Óðinshúsi

Kristján Kristjánsson mun heiðra Eyrbekkinga og nærsveitunga með nærveru sinni og tónlist föstudaginn 21. ágúst næstkomandi.

KK hefur fyrir löngu spilað sig inní íslenska þjóðarsál og því er um einstakt tækifæri að ræða til að fá að upplifa manninn og listina í návígi.

Tónleikarnir hefjast kl 20:00. Frítt inn en frjáls framlög vel þegin.

Haldnir hafa verið nokkrir tónleikar í Óðinshúsi í sumar og hefur stemningin verið dásamleg. Þarna er hægt og koma og njóta tónlistar í sinni tærustu mynd án barglaums og dægurþrass.

Í Óðinshúsi er einnig myndlistarsýning helgina 21.-23. ágúst. Þar sýna myndlistarkonurnar Charlotta, Helga, Ásdís og Kolbrún.

Það má því búast við töfrandi stemningu við hafið á Eyrarbakka. KK mun leika af fingrum fram umvafinn list og fegurðarinnar sem Eyrarbakki hefur ávallt verið rómaður fyrir.

Óðinshús hlaut nýverið Menningarstyrk úr Uppbyggingarsjóði Suðurlands. Í Óðinshúsi verður boðið uppá ýmsa menningarviðburði í sumar. Hjónakornin UniJon eru forsvarsmenn menningarstarfs í Óðinshúsi, en þau bjuggu áður í Merkigili þar sem þau stóðu fyrir tónleikahaldi í nokkur ár.
Nánari upplýsingar um Óðinshús má nálgast á: https://www.facebook.com/odinshus

Aldamótahátíðin á Eyrarbakka 8. ágúst

husDSC02614husDSC0263308.30  Flöggun.

11.00 Skrúðganga fyrir menn, dýr, fornbíla og tæki. Lagt af stað frá Barnaskólanum.

Eyrarbakka.Siggeir Ingólfsson skrúðgöngustjóri leiðir hópinn að kjötkötlunum þar sem íbúar og fyrirtæki á Eyrarbakka bjóða uppá ekta íslenska kjötsúpu fyrir alla. Bændur af Bakkanum koma dýrunum fyrir á Vesturbúðahólnum. Heyvagninn verður á ferðinni og býður salibunu í mjúkri töðunni.

11.00 -18.00  Húsið og Sjóminjasafnið. – frír aðgangur       .

Rauða húsið verður með aldamótatilboð á mat og drykk.

11.00-17.00 Laugabúð. –  KAUPMAÐURINN sjálfur  við afgreiðslustörf á aldamótahátíðinni.

12.10 Setning Sr. Sveinn Valgeirsson blessar lýðinn, og býður fólki að gjöra svo vel að ganga til Kjötsúpu.

13.00 Pútnahúsið opnar á Stað.
Félag áhugafólks um haughænur býður ykkur velkomin að sjá allt það fegursta í hænsfuglaheiminum. Afhentir verða kjörseðlar fyrir fegurðarsamkeppni hænsnfugla sem fram fer síðdegis. Markaður einig í gangi.

13.00 – 16.00  Sýning á Stað „FRÁ instamatic til instagram“  Þegar myndavélin varð almenningseign…..

13.00 Sögur af Vesturförum – Sögustund með Hildi Hákonardóttir á loftinu í Bygðasafninu.

13.30. Hænsnabingó á planinu við Stað. Veglegir vinningar.

14:00  Sjóminjasafnið. Ratleikur sem teygir sig um safnasvæðið.

13.00 – 18.00 Beitningaskúrinn opinn.

13.00 -17.00 Eyrarbakkakirkja verður opin. Leiðsögn. Eyrarbakkabrúin verður kynnt á heila tímanum .

15.00 Fiskverkun um aldamótin 1900 á planinu við Stað.
Sett verður á svið fiskverkun fyrri tíðar og öðru sjávarfangi bæði til átu ,sem söluvöru  og einig til upphitunar á þeim húsakinnum sem hér voru og tíðkuðust um aldamótin 1900.

16.30 .Heyannir með fyrritímaverkfærum og bundin verður sáta.
Getraun í gangi:  Hvað er ein VÆTT mörg kíló?? Vegleg verðlaun frá Vinum alþíðunnar.
Engjakaffi í boði Friðsældar og Kvenfélags Eyrarbakka.

17.00 Pútnahúsið blæs til brúðkaups á Stað.Gefin verða saman í hjónaband sigurvegarar í fegurðarsamkeppni hænsfugla sem fram fer á Stað.
Þeir félagar Siggeir Ingólfsson og Valgeir Guðjónsson eða GEIRARNIR Á BAKKANUM  gefa þau saman í borgaralegt hænsnaband með spili og söng.

18.00 Brúðkaupsveislan herleg hefst á Stað. Opið grill fyrir alla þar sem grillaður verður svín,kindur, kanínur og fleira góðgæti.

22.00 – 02.00 Aldamótadansleikur í Rauða Húsinu. Hljómsveit húsins leikur ljúfar ballöður fram eftir nóttu.

Sjá nánari dagskrá og viðburðatilkynningar á: www.menningarstadur.123.is

www.husid.com, www.raudahusid.is, www.eyrarbakki.is og á www.arborg.is.