Category Archives: Uncategorized

Bjartmar í Óðinshúsi á Eyrarbakka

Laugardaginn 27. júní heldur Bjartmar Guðlaugsson tónleika í Óðinshúsi á Eyrarbakka. Bjartmar mun fara létt yfir tónlistarsögu sína, flytja helstu smelli og segja nokkrar skemmtisögur tengda þeim. Þarna munu mæta kunningjar eins og Fúll á móti, Sumarliði, Mamman með beyglaða munninn og þeirra nánasta fólk. Búast má við skemmtilegum tónleikum.

Aðgangseyrir er 2.500 kr. Tónleikarnir hefjast kl. 21:00 og standa í tvær klst. með 15 mínútna hléi.

UniJon eða Unnur Arndísardóttir og Jón Tryggvi Unnarsson héldu um 60 tónleika í þá heimili sínu Merkigili á Eyrarbakka á árunum 2010 til 2013. Náðu þau upp einstakri stemningu með það að leiðarljósi að búa til þægilegan vettvang fyrir tónlistarmenn að fremja seið sinn. Þau ætla nú að halda áfram þeirri stemningu í Óðinshúsi á Eyrarbakka í sumar.

Óðinshús var byggt 1913 af Kaupfélaginu Heklu á Eyrarbakka sem pakkhús og er eina pakkhúsið á Eyrarbakka frá þessum tíma og eitt elsta steinsteypta hús á landinu.
Húsið er í eigu Sverris Geirmundarsonar og hefur hann staðið fyrir myndlistarsýningum með hléum frá árinu 2002. Tilfinningin fyrir sögu hússins, tímans tönn, ásamt myndlistinni er áþreifanleg í salnum og því má búast við ótrúlegri upplifun fyrir öll skilningarvitin.

Laugardaginn 27.júní kl 21:00.

Bjartmar Guðlaugsson tónlistarmaður

Bjartmar Guðlaugsson tónlistarmaður

UniJon
www.unijon.com
unijon@unijon.com
s. 696-5867

Auglýst eftir presti

Auglýst eftir presti til að sinna afleysingaþjónustu í Eyrarbakkaprestakalli

hus_vefur070a

Reykjavík 3. júní 2015

Biskup Íslands auglýsir eftir presti til að sinna afleysingaþjónustu í Eyrarbakkaprestakalli, Suðurprófastsdæmi. Um tímabundna setningu í embættið er að ræða, frá og með 1. júlí 2015 til 30. júní 2016.

Eyrarbakkaprestakall er á samstarfssvæði með Hveragerðisprestakalli, Selfossprestakalli og Þorlákshafnarprestakalli. Íbúar prestakallsins eru rúmlega eitt þúsund.

Umsækjendur geri skriflega grein fyrir persónulegum upplýsingum, menntun, starfsferli, samskiptahæfileikum og öðru því sem þeir óska eftir að taka fram. Staðfest afrit af prófskírteini skal fylgja umsókn svo og upplýsingar um starfsþjálfun.

Umsækjendum ber að fylla út eyðublað þar sem biskupi er heimilaður aðgangur að sakaskrá viðkomandi umsækjanda. Skal undirrituð heimild þar um fylgja umsókninni. Eyðublaðið er að finna á vef kirkjunnar: https://innri.kirkjan.is/pdf/samthykki-fyrir-oflun-upplysinga-ur-sakaskra.pdf

Um laun og önnur kjör fer samkvæmt ákvörðun kjararáðs.

Nánari upplýsingar um prestakallið eru veittar hjá prófasti Suðurprófastsdæmis og á Biskupsstofu.

Umsóknarfrestur rennur út 19. júní 2015.

Umsóknir sendist biskupi Íslands, Biskupsstofu, Laugavegi 31, 101 Reykjavík.

Vísað er til laga um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla nr. 10/2008.

F.h. biskups Íslands

Sveinbjörg Pálsdóttir

Flogið á annarra vængjum

0gunnarmarel3

Gunnar Marel Hinriksson skrifar:

Þegar ég var barn á Selfossi var mér sagt að maður fengi svarta tungu af því að segja ósatt. Hvort það eigi við um tún ef á þeim eru byggð ósannindi skal ósagt látið, en það er óneitanlega leiðinleg tilhugsun að Sigtún verði að svartri tungu.

Selfoss sem svið fyrir minnisvarða um kaþólska helgistaði á miðöldum og borgaralega byggingarlist 19. aldar er í besta falli lélegur brandari en í versta falli skeytingarleysi um sögulegar staðreyndir og tilraun til að villa um fyrir gestum bæjarins. Ætli íbúum Egilsstaða þætti það góð hugmynd ef þar yrði settur upp minnisvarði um miðaldagerð Hafnarfjarðarhafnar og sýning um síldarævintýrið á Siglufirði?

Selfosskirkja var vígð árið 1956. Lengra aftur nær saga kirkjuhalds á þessum stað ekki, hvað þá að hann hafi verið valdamiðstöð. Árið 1703 bjuggu sex sálir á Selfossi, hjónin Jón Erlendsson og Guðrún Vigfúsdóttir ásamt þremur börnum þeirra og einum vinnumanni.

Frummælendur hugmynda um nýjan miðbæ á Selfossi hafa gefið út Teiknibók á heimasíðu þeirra, www.midbaerselfoss.is. Titillinn er í sjálfu sér afhjúpandi, því hann er tilvísun til miðaldahandritsins AM 673a III 4to sem er þekkt undir nafninu íslenska teiknibókin. Þannig reyna þeir að ljá hugmyndum sínum sögulegan blæ en eru í raun farnir að nálgast það sem hefur verið kallað menningarnám (e. cultural appropriation).

Í nefndri bók má meðal annars lesa eftirfarandi:

 „Það er hér sem bæjarlífið hversdagslíf, verslun og viðskipti prjónast saman við myndræna og raunverulega upplifun af horfnum sögulegum byggingum áþreifanlegum og raunverulegum, í fullri stærð og gerð eins og þær hafi alltaf verið þarna.“

Við þetta er nokkuð að athuga. Í fyrsta lagi, um hvaða „horfnu sögulegu byggingar“ er verið að ræða? Í kynningarefni er lögð áhersla á hinar og þessar byggingar héðan og þaðan af Suðurlandi, en einnig sögufræg hús á Stykkishólmi, Ísafirði og Akureyri, svo fáein dæmi séu nefnd. Hús sem mörg hver standa enn, vel að merkja. Það er fátækur bær sem þarf að skreyta sig með stolnum fjöðrum úr fjarlægum landshlutum.

Í öðru lagi er hér talað um að þessar byggingar verði „áþreifanlegar“ og „raunverulegar“. Vissulega áþreifanlegar, en raunverulegar? Hvaða skilning ber að leggja í það orð í þessu samhengi? Augljóslega ekki að þær verði á raunverulegum stað sínum, en verður í þeim verði rafmagn, brunavarnir eða aðgengi fyrir alla? Verður gildandi byggingareglugerð ekki fylgt? Ef hins vegar þessi atriði verða til staðar, þá er allt tal um sögulegan raunveruleika orðin tóm og húsin ekki annað en leikmyndir. Það leiðir okkur að þriðja atriðinu, hugmyndinni um „myndræna og raunverulega upplifun […] í fullri stærð“. Höfundar tillagnanna virðast gera sér grein fyrir því að hér geti aldrei verið um annað að ræða en leikmynd fyrst þeir taka svona til orða.

Fjórða og síðasta atriðið sem ég vil nefna úr þessu stutta textabroti úr kynningarefninu er svo fullyrðingin um að byggingarnar muni verða gerðar „eins og þær hafi alltaf verið þarna.“ Það er vitanlega óframkvæmanlegt og gaman væri að heyra hvað íbúar Stykkishólms, Ísafjarðar eða Akureyrar segja um það ef skopstælingar af táknrænum byggingum þeirra birtast á Selfossi. Þessi orð afhjúpa afstöðu formælenda tillögunnar til sögunnar. Hún virðist ekki vera annað í þeirra huga en óskilgreind þoka sem má móta og breyta eftir hagsmunum hverju sinni. Og það er ekki bara rangt, heldur hættulegt. Þessi húsalíkön geta ekki lýst neinum öðrum sögulegum raunveruleika en þessum: Vorið 2015 var kynnt hugmynd um að endurskrifa fæðingarvottorð Selfossbæjar í tilraun til að afla tekna af straumi ferðamanna. Allt tal um sögulegan raunveruleika í þessu samhengi stenst ekki skoðun.

Í byggingarlist er til hugtakið folly, sem mætti þýða sem flónska. Það lýsir m.a. hönnunartísku lystigarða í Evrópu á 18. öld, þegar í þeim voru reistar byggingar í anda grískra og rómverskra rústa. Þetta þykir nú á tímum skondin flónska, að hafa ætlað sér að byggja fornleifar. Selfoss og ekki síst Árborg öll hefur alla burði til að skrifa sína eigin sögu og sveitarfélaginu er óhætt að ætla sér stærra hlutverk en að verða vaxmyndasafn utan um afrek annarra.

Fimmtudaginn 7. maí sl. birtist í Dagskránni grein frá bæjarráði Árborgar. Það er jákvætt að sjá að bæjarráð hefur lagt eyrun við þeirri góðu gagnrýni sem fram hefur komið í mörgum greinum vegna þessara hugmynda. Þó olli grein bæjarráðs vonbrigðum, því þar var ekki svarað því sem fram hefur komið um virðingaleysi þessara hugmynda við hvað er raunverulega sögulegt og þar er skautað á ódýran hátt fram hjá fílnum í herberginu: Af hverju er stefnt að því að byggja á einum stað í sveitarfélaginu eftirlíkingu af því sem er til annarsstaðar í sama sveitarfélagi? Bæjarráð hefur ekki neitt betra fram að færa en almenn merkingarlítil orð um að „tengja þorpin við ströndina […] inn í verkefnið“ og heimasmíðaða gerð brauðmolakenningarinnar á þá leið að „uppbygging á einum stað í sveitarfélaginu styrki allt sveitarfélagið sem eina heild.“

Þá virðist bæjarráð hafa gert sér grein fyrir því hve óraunhæfar þessar hugmyndir eru, því það reynir að leiða athyglina frá þeim eins og þær hafa verið kynntar með því að vísa á óræðan hátt í að á næstunni muni „íbúar standa frammi fyrir töluvert breyttum og þróaðri hugmyndum en kynntar voru“ og að ástæða sé til þess „að taka fram að ekki er tímabært að leggja fullnaðarmat á áform þróunarfélagsins fyrr en þau liggja fyrir í endanlegu formi.“ Fyrr í sömu málsgrein bendir bæjarráð á lögbundið athugasemdaferli þar sem íbúum muni gefast kostur á að segja sína skoðun. En til hvers voru þær þá kynntar á þann hátt sem raunin var? Af þessu má ráða að sú gagnrýni sem þegar hefur komið fram hefur greinilega borið árangur. Ef hugmyndirnar munu taka verulegum breytingum þegar deiliskipulagið verður kynnt verða þær skoðaðar upp á nýtt á forsendum þeirrar kynningar. Þangað til beinum við sem þykja hugmyndirnar í núverandi mynd vondar spjótum okkar að þeim eins og þær liggja fyrir, enda hefur gagnrýnin beinst að grunnforsendum verkefnisins, ekki tilteknum útfærsluatriðum þess.

Nema þá kannski að að væntanleg kynning á deiliskipulaginu muni ekki „prjónast saman við myndræna og raunverulega upplifun af horfnum sögulegum [tillögum] [ó]áþreifanlegum og [ó]raunverulegum, [ekki] í fullri stærð og gerð [heldur] eins og þær hafi [aldrei] verið þarna.“

0gunnarmarel1 0gunnarmarel2

Gunnar Marel Hinriksson

sagnfræðingur

„Ekta söguleg byggð“?

Í kynningu á nýju skipulagi fyrir miðbæ Selfoss í Dagskránni 26. mars sl. er vitnað í Sigmund Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra um ágæti tillögunnar. Þar segir að hann telji „að þetta verði alvöru söguleg byggð, á réttum stað, í réttu samhengi, og þar af leiðandi ekta.“

Árið 1930 voru hús á Selfossi, fyrir utan Selfossbæina átta talsins. Af þeim standa nú aðeins tvö á sínum stað; Tryggvaskáli og gamla Bankahúsið.

Leitað er fanga víða bæði í tíma og rúmi að fyrirmyndum þeirra húsa sem á að reisa samkvæmt tillögunni að þessu nýja skipulagi.  Elsta húsið sem byggja á eftir er sagt frá 12. öld, síðan er hálf kirkja frá miðöldum, eitt hús er sagt frá 16. öld, tvö hús eru frá 18. öld, flest eru húsin frá þeirri nítjándu en fjögur frá þeirri tuttugustu. Tuttugustu aldar húsin eru allt hús sem áður stóðu á Selfossi (Pósthús, Höfn, Sigtún og Ingólfur). Það eru einu húsin sem hafa tengingu við staðinn sem á að reisa þau á. Farið er víða um land í leit að gömlum horfnum húsum til að endurbyggja, til Stykkishólms, Eyjafjarðar, Akureyrar og Reykjavíkur, auk Skálholts, Þingvalla, Kaldaðarness, Stokkseyrar og Eyrarbakka. Hugmyndirnar byggja allar á ljósmyndum af viðkomandi húsum.

Í tillögunni er talað um Söguhús á Selfossi. Hvaða sögu er þeim ætlað að segja? Þetta er eins konar útisafn með nýbyggingum. Lengi hafa verið skiptar skoðanir um ágæti slíkra þyrpinga, eins og Árbæjarsafns og eru þó þar gömul uppgerð hús en ekki ný. Af upptalningunni er ljóst að hér ægir saman húsum frá ólíkum tímaskeiðum og héðan og þaðan af landinu. Ekki er hægt að sjá að þau eigi sér neinn samnefnara eða myndi skýrt hugsaða heild. Slík húsaþyrping getur aldrei orðið „alvöru söguleg byggð“.

Selfoss er stærsti þéttbýlisstaðurinn í áttunda stærsta sveitarfélagi landsins. Miðbæir eiga fyrst og fremst að þjóna íbúum í eigin bæ og í þessu tilviki einnig íbúum sveitarfélagsins sem eru búsettir utan Selfoss. Þeir eiga að vera samnefnari þeirra og sameiginlegur vettvangur til að byggja upp samfélag og samkennd. Í þessari tillögu er lagt upp með að miðbærinn þjóni hins vegar aðallega ferðamönnum. Þessi „sögulega byggð“ er því ekki „á réttum stað“.

Stundum var sagt að Kaupfélag Árnesinga tæki á samkeppni annarra aðila með því að taka upp þann söluvarning sem aðrir væru með í boði til að knésetja þá. Með þeim tillögum sem hér eru settar fram er sótt að ýmsum aðilum sem hafa verið að byggja upp ferðaþjónustu og viðhalda menningararfi í Árnessýslu. Hér er sótt að Sögualdarbænum í Þjórsárdal með byggingu annars tilgátuskála, íslenska torfbænum í Eystri-Meðalholtum með sínum gamla torfbæ og fræðslusetri með byggingu splunkunýs torfbæjar og sótt er að ekta gamalli sögulegri byggð á Eyrarbakka og Stokkseyri. Menn geta byggt Disneyþorp á Selfossi og talið sér trú um að það sé ósvikið eða „ekta“. Það verður samt aldrei nema tilbúningur eða leiktjöld.

Það er umhugsunarefni að bæjarstjórn Árborgar móti ekki eigin hugmyndir um nýjan miðbæ á Selfossi, heldur bíði eftir að verktakar leggi sínar tillögur á borðið. Hvort sem byggja á tvo turna eins og fyrri hugmyndir sýndu eða ímyndað gamalt þorp eins og nú. Bæjarstjórnin kokgleypir ávallt þær tillögur sem lagðar eru fram hverjar sem þær eru og gerir að sínum. Kaldar eru kveðjurnar sem bæjarstjórn Sveitarfélagsins Árborgar sendir íbúum á Eyrarbakka og Stokkseyri, sem hafa af hugsjón viðhaldið sögulegri byggð sem er ekki bara á réttum stað, heldur líka ekta. Enda eru skilaboðin skýr: Það er sjálfsagt að rífa hús því það má svo bara endurbyggja þau seinna einhvers staðar annars staðar. Hér er ekki horft á sérkenni hvers staðar í Sveitarfélaginu Árborg og reynt að ýta undir þau með einhverjum hætti, heldur aðeins hugað að einum stað og honum hyglað. Hvað hefur Sveitarfélagið Árborg gert til stuðnings gömlu byggðinni á Eyrarbakka eða Stokkseyri?

Takist að hrinda þessum hugmyndum í framkvæmd er eitt víst: Vilji menn heimsækja alvöru sögulega byggð, á réttum stað, í réttu samhengi, og þar af leiðandi ekta, er rétt að vísa þeim frá nýjum miðbæ á Selfossi og á þorpin Eyrarbakka og Stokkseyri. Því þar er hana að finna og hún verður ekki frá okkur tekin þó að menn reyni hvað þeir geta.

Inga Lára Baldvinsdóttir

Myndirnar eru teknar af Árna Geirssyni hjá þjónustufyrirtækinu Alta ehf. og eru sóttar á loftmyndavef fyrirtækisins http://loftmyndir.alta.is/

alta07

alta01 alta02 alta03 alta04 alta05 alta06

Jónsmessuhátíðin

15. Jónsmessuhátíðin var haldin á Eyrarbakka laugardaginn 21. júní 2014. Fjölmenni tók þátt í fjölbreyttum dagskrárliðum hátíðarinnar allan daginn.

Öllum sem tóku þátt í Jónsmessuhátíðinni að þessu sinni eru færðar bestu þakkir – hvort sem það var við undirbúning, framkvæmd, liðveislu eða með því að njóta.

Ungur, upprennandi ljósmyndari úr Reykjavík, Magnús Jochum Pálsson, tók meðfylgjandi myndir af nokkrum viðburðum dagsins. Eru honum færðar bestu þakkir fyrir aðstoðina. (Vinsamlega virðið höfundarrétt.)

Myndirnar skýra sig sjálfar:

mjp_01

mjp_02

mjp_03

mjp_04

mjp_05

mjp_06

mjp_07

mjp_08

mjp_09

mjp_10

mjp_11

mjp_12

mjp_13

mjp_14

mjp_15

mjp_16

mjp_17

mjp_18

mjp_19

mjp_20

mjp_21

mjp_22

mjp_23

mjp_24

mjp_25

mjp_26

mjp_27

mjp_28

Laugabúð – Leyndardómar Suðurlands

Framundan er umfangsmikið kynningarátak á Suðurlandi þar sem ferðaþjónustufyrirtæki, matvælaframleiðendur, félög, fyrirtæki, stofnanir, einstaklingar og margir aðrir taka þátt.  Átakið kallast „Leyndadómar Suðurlands“ og mun standa yfir frá föstudeginum 28. mars til sunnudagsins 6. apríl nk. Það eru Samtök sunnlenskra sveitarfélaga (SASS) og Markaðsstofa Suðurlands, sem standa fyrir verkefninu.

Laugabúð á Eyrarbakka tekur þátt í Leyndardómunum og verður safnverslunin opin laugardaginn 29. mars, sunnudaginn 30. mars, laugardaginn 5. apríl og sunnudaginn 6. apríl frá kl. 11:00 til 17:00 þessa daga.

Eins og öllum er kunnugt var Eyrarbakki um langan aldur höfuðstaður Suðurlands og þar var miðstöð verslunar og viðskipta frá miðöldum og fram á 20. öld.

Guðlaugur Pálsson rak verslun á Eyrarbakka í 76 ár frá 1917-1993. Verslunarhúsnæði Guðlaugs frá 1919 var gert upp fyrir nokkrum árum og þar hefur undanfarin sumur verið rekin safnbúð um helgar. Lögð er áhersla á að gefa gestum kost á að sjá litla þorpsverslun frá fyrri hluta síðustu aldar.

 

Guðlaugur Pálsson í dyrum verslunar sinnar (1984). Ljósm.: MKH

Guðlaugur Pálsson í dyrum verslunar sinnar (1984). Ljósm.: MKH

Laugabúð opin

Það er opið í Laugabúð í dag og gaman væri að sjá sem flesta. Það þarf ekki að nefna það – dásemdar blíða á Bakkanum – 8° hiti og hægur SV-andvari.

Það er hægt að gera sér ýmislegt til dundurs á Bakkanum í dag. M.a. er bílskúrssala að Hjallavegi 2 frá kl. 12 til 17 og listamaðurinn Hallur Karl er með opna vinnustofu á Litlu-Háeyri (Eyrargata 16) frá 13 til 18.

Og svo má ekki gleyma að koma við í Húsinu, Byggðasafni Árnesinga, til að sjá sýningu á handritinu Skáldskaparfræði. Sýningin er samstarfsverkefni Stofnunar Árna Magnússonar í íslenskum fræðum og Byggðasafns Árnesinga í tilefni af 350 ára afmæli Árna. Séra Halldór Torfason í Gaulverjabæ afhenti Árna Magnússyni handritið Skáldskaparfræði árið 1691. Það inniheldur meðal annars Snorra-Eddu. Sjá nánar á vef Hússins á Eyrarbakka.

Siggeir Ingólfsson verður með sögugöngu um Eyrarbakka kl. 16. Lagt upp frá sankomuhúsinu Stað og það kostar 500 kr. að taka þátt.

Og svo er sjálf krían komin á Bakkann! Þá er nú vorið aldeilis gengið í garð.

Krían er komin

Hnattlíkan frá Eyrarbakka á Þjóðminjasafni

Á vef Þjóðminjasafns Íslands er mánaðarlega fjallað um einhvern eintakan hlut eða grip úr fórum safnins.

Gripur janúarmánaðar er hnattlíkan frá því fyrir aldamótin 1900. Hnattlíkanið er lítið, einungis 6,2 sm í þvermál og má sjá á grunnsýningu Þjóðminjasafnsins. Það er fest á stöng sem stendur upp úr útskorinni mynd af Íslandi.

Brynjúlfur Jónsson (1838–1914) frá Minna-Núpi skar hnattlíkanið út úr hnotu og málaði. Hann var fræðimaður og heimspekingur, en líkanið notaði hann við barnakennslu á Eyrarbakka áður en hann gaf það til Þjóðminjasafnsins árið 1911.

Barnaskólinn á Eyrarbakka var settur á laggirnar árið 1852 og má fá innsýn í hvaða hlutverki líkanið gegndi í gegnum minningar Sylvíu N. Guðmundsdóttur.

Sjá nánar á vef Þjóðminjasafns Íslands:  http://www.thjodminjasafn.is/syningar/sersyningar/gripur-manadarins/nr/3665.

thjodminjasafn