Category Archives: Viðburðir

Jónsmessuhátíðin 2018

20. Jónsmessuhátíðin á Eyrarbakka verður haldin
laugardaginn 23. júní 2018.
Dagskráin er fjölbreytt að vanda.


Kl. 08:30
Fánar dregnir að húni


Kl. 09:00–11:00
Morgunverður í Hallskoti

Skógræktarfélag Eyrarbakka býður til morgunverðar og samverustundar í skógræktinni, sem félagið annast um í Hallskoti. Ekið um Sólvangs- og Flóagaflsveg.


Kl. 09:00–22:00
Verslunin Bakkinn

Verslunin verður opin til kl. 22:00. Frír ís fyrir börnin um miðjan daginn.


Kl. 10:00–16:00
Drög að Fangelsisminjasafni Íslands á Stað

Á Eyrarbakka er elsta starfandi fangelsi landsins og undanfarin ár hefur ýmsum munum og skjölum sem tengjast sögu fangelsa á Íslandi verið safnað. Saga fangelsa er merk saga sem ekki má gleymast. Sýningin einnig opin á sama tíma sunnudaginn 24. júní.


Kl. 11:00–13:00
Eldsmíðafélag Suðurlands

Félagar í Eldsmíðafélaginu bjóða gestum að kíkja við í húsi félagsins við Túngötu og skoða afl og steðja. Valinkunnir eldsmiðir verða á staðnum og segja frá.


Kl. 11:00–17:00
Laugabúð

Búðin opin og þar verður ýmislegt rifjað upp frá 100 ára sögu hennar. Hinn sívinsæli bókamarkaður verður í kjallaranum. Óvænt tilboð í tilefni dagsins.


Kl. 11:00–18:00
Söfnin á Eyrarbakka

Opið í Byggðasafni Árnesinga í Húsinu, Sjóminjasafninu og Kirkjubæ. Í borðstofu Hússins og í Hjallinum er sýning Ástu Vilhelmínu Guðmundsdóttur Marþræðir. Ratleikur er í boði allan daginn. Í hjallinum norðan við Húsið er seinni hluti sýningarinnar Marþræðir og þar býður listamaðurinn Ásta uppá seyði og söl kl. 14.    Ókeypis aðgangur.


Kl. 11:00
Leikhópurinn Lotta við Sjóminjasafnið

Leikhópurinn Lotta skemmtir ungum sem öldnum með söngvasyrpu.


Kl. 11:30–13:00
Hestar og hressing á Garðstúninu

Teymt verður undir börnum og þau fá hressingu að venju.


Kl. 12:00–14:00
Bogfimi á Garðstúninu

Að hætti Hróa hattar fá þátttakendur boga og örvar og berjast við fógetann í Skírisskógi í stuttum leikjum í líkingu við skotbolta. Aldurstakmark 10 til 98 ára.


Kl. 12:00-21:00
Rauða húsið

Á veitingastaðnum Rauða húsinu er tveggja rétta Jónsmessutilboð með humarsúpu eða nautacarpaccio í forrétt og hægeldað lambaprime með gulrótum, sellerírót, kartöflum og rauðvínssósu á 6.150 kr. Tveir fyrir einn eftirréttir.

Kjallarinn er opinn frá kl. 12. Eldhúsið er opið til kl. 21. Pizza með þremur áleggstegundum á 2.000 kr.

Leikirnir á HM á breiðtjaldi og gleðistund kl. 16–18.


Kl. 13:30
Dansgjörningur á lóðinni við Húsið

Japanski hreyfilistamaðurinn og butoh-meistarinn Mushimaru Fujieda er þekktur víða um heim og í dansi sínum leggur hann áherslu á slökun huga og líkama.


Kl. 14:00–16:00
Heimboð á þrjá staði

Íris og Karl á Óseyri bjóða gestum að líta inn á heimili sitt við Flóagaflsveg.

Vigdís í Bræðraborg, Eyrargötu 40, býr í húsi frá 1939 og hlakkar til að fá gesti.

Sigurlaug í Norðurkoti heldur upp á 120 ára afmæli hússins á hátíðinni.


Kl. 14:00–16:00
Sólvangur – Miðstöð íslenska hestsins

Opið hús á Sólvangi. Þar verður boðið uppá kaffi, kleinur og djús og hesthúsið opið fyrir þá sem hafa áhuga á íslenska hestinum.


Kl. 17:00–18:00
Eyrarbakki fullveldisárið 1918

Stutt söguganga um hluta Eyrarbakka, þar sem horft verður aftur í tímann um 100 ár. Magnús Karel Hannesson leiðir gönguna sem hefst við samkomuhúsið Stað.


Kl. 20:00–21:21
Samsöngur í Húsinu

Heimir Guðmundsson leikur undir söng á elsta píanó á Suðurlandi. Sungið verður úr skólaljóðunum og hver syngur með sínu nefi.


Kl. 22:00
Jónsmessubrenna

Að venju verður Jónsmessubrenna í fjörunni vestan við Eyrarbakka. Að þessu sinni ávarpar Guðmundur Brynjólfsson rithöfundur samkomugesti. Bakkabandið heldur svo uppi fjörinu meðan menn endast.


Kl. 22:00–04:00
Kjallarinn á Rauða

Grétar á Sólvangi spilar fyrir okkur fram á kvöldið. Aldurstakmark 18 ára.


Björgunarsveitin Björg býður ungum og öldnum að veiða frítt í Ölfusárósi fyrir landi Eyrarbakka dagana 22. til 24. júní 2018.


Jónsmessuhátíðin er styrkt af Sveitarfélaginu Árborg, Björgunarsveitinni Björg, Ungmennafélagi Eyrarbakka, Slysavarnadeildinni Björg á Eyrarbakka, Rauða húsinu og Versluninni Bakkanum.

Ljósmyndasýning: Miðbærinn – söguleg byggð

Eyrarbakki

Eyrarbakki

Magnús Karel Hannesson sýnir ljósmyndir
í Listagjánni í Bókasafni Árborgar á Selfossi
19. apríl til 27. maí 2018

 

Á Eyrarbakka er best varðveitta eldri götumynd á öllu Suðurlandi og þó víðar væri leitað. Þar er ekta, söguleg, heildstæð byggð með húsum, sem flest eru byggð á árabilinu frá 1890 til 1915, þó þar séu hús sem eru bæði eldri og yngri en frá þeim tíma. Þetta eru að langmestu leyti alþýðuhús þar sem bjuggu verkamenn og sjómenn, ásamt fjölskyldum sínum.

Gamla götumyndin á Eyrarbakka er helsta sérkenni þorpsins, ásamt víðfeðmri náttúru, sem myndar góða umgjörð um hina sögulegu byggð. Minna má á fjöruna vestan við þorpið og fuglafriðlandið í Flóa norður af þéttbýlinu – hvort tveggja vinsæl útivistarsvæði – og svo skemmir fjallahringurinn ekki fyrir.

Ljósmyndasýningin Miðbærinn – söguleg byggð er sett saman til þess að vekja fólk til umhugsunar um verðmætin, sem eru fólgin í hinni sögulegu byggð á Eyrarbakka fyrir Sveitarfélagið Árborg í heild sinni. Í aðalskipulagi Árborgar segir m.a. um þessi sérkenni: „Mikilvægt er, ekki aðeins fyrir sveitarfélagið heldur einnig landið allt, að glata ekki þessum einkennum heldur styrkja þau og vernda […].“ Frá því að sveitarfélögin fjögur í vestanverðum Flóa voru sameinuð fyrir 20 árum hefur það verið meginmarkmið sveitarfélagsins að draga fram sérkenni hvers hluta þess, heildinni til hagsbóta en jafnframt hverju svæði fyrir sig.

Fyrir nokkru sagði ágæt kona, íbúi í Hrísey, í blaðaviðtali, að sér fyndist miðbærinn í Akureyrarkaupstað vera í Hrísey. Með sama hætti má halda því fram að miðbærinn í Sveitarfélaginu Árborg sé á Eyrarbakka.

Magnús Karel Hannesson er fæddur 1952 á Eyrarbakka og hefur alið þar nánast allan sinn aldur. Snemma fór hann að hafa áhuga á ljósmyndun og hefur tekið mikið magn ljósmynda á Eyrarbakka, bæði af fólki og umhverfi. Á síðasta ári gaf Laugabúð ehf. út ljósmyndabókina FRYSTIHÚSIÐ með ljósmyndum úr frystihúsinu á Eyrarbakka, sem flestar voru teknar á árunum 1976 til 1978. Þá voru margar myndir Magnúsar birtar í bókinni VÖRUBÍLSTJÓRAR Á VEGUM ÚTI, sem Vörubílstjórafélagið Mjölnir gaf út árið 2015, en hann starfaði hjá Vegagerð ríkisins á árunum 1976 til 1983.

Myndirnar á sýningunni Miðbærinn – söguleg byggð eru teknar á síðustu árum á Eyrarbakka á mismunandi árstímum.

MKH

Öld frá opnun Laugabúðar

Þann 4. desember nk. verða 100 ár liðin frá því, að Guðlaugur Pálsson kaupmaður hóf verslunarrekstur á Eyrarbakka.

Guðlaugur rak verslun sína í 76 ár – frá desember 1917 og fram í desember 1993, þegar hann lést tæplega 98 ára að aldri. Fyrstu tvö árin var verslunin staðsett í Kirkjuhúsi, en árið 1919 keypti Guðlaugur íbúðarhúsið Sjónarhól og breytti því í verslun og þar stóð hann síðan vaktina á sama gólfinu til dauðadags eða í 74 ár.

Verslunarrekstur Guðlaugs var nær einstakur á landsvísu og jafnvel þó víðar væri leitað. Í fyrsta lagi vegna þess hve langt tímabil hann spannaði og í öðru lagi vegna þess háa aldurs sem Guðlaugur náði.

Fyrsti viðskiptavinur Guðlaugs 4. desember 1917 var sr. Gísli Skúlason á Stóra-Hrauni, sóknarprestur Eyrbekkinga og Stokkseyringa. Sr. Gísli keypti eina litla vasabók á 22 aura. Heildarsalan þennan fyrsta verslunardag Guðlaugs Pálssonar var 28 kr.

Húsið Sjónarhóll hefur verið gert upp í þeirri mynd sem það var árið 1919 og í dag er þar rekin lítil ferðamannaverslun yfir sumarmánuðina undir heitinu Laugabúð, en undir því heiti gekk verslun Guðlaugs dags daglega.

Í tilefni þessara tímamóta verður Laugabúð á Eyrarbakka opin mánudaginn 4. desember 2017 frá kl. 15 til 21. Klukkan 16, 18 og 20 verður saga Verslunar Guðlaugs Pálssonar rakin í máli og myndum í búðinni.

Myndin af Guðlaugi er tekin í febrúar árið 1986, en þá átti Guðlaugur 90 ára afmæli. Ljósm.: MKH

 

Jónsmessuhátíðin á Eyrarbakka 2017

Jónsmessuhátíð á Eyrarbakka 24. júní 2017

Dagskráin á pdf-formi

09:00               Fánar dregnir að húni við upphaf 19. Jónsmessuhátíðarinnar

Eyrbekkingar flagga íslenska fánanum eða Bakkafánanum og ganga frá skreytingum í hverfalitum og bjóða gesti velkomna. Björgunarsv. Björg býður upp á ókeypis veiði í Ölfusá fyrir landi Eyrarbakka.

09:00-21:00   Verslunin Bakki við Eyrargötu

Verslunin opin allan daginn og fram á kvöld. Börnin fá ís um miðbik dagsins. Óvænt uppákoma um miðjan dag.

09:30-11:00    Morgunstund í Hallskoti

Skógræktarfélag Eyrarbakka tekur á móti gestum og býður upp á hressingu í skóginum.

10:00-11:30    Kjólakaffi með Aubý í Húsinu

Gestir mæta í kjólum eða kjólfötum og þiggja frúarkaffi í stássstofu með fyrrum húsfreyju Hússins, Auðbjörgu Guðmundsdóttur.

10:30-17:00   Laugabúð við Eyrargötu

Einstakur bókamarkaður í kjallaranum – mikið úrval nýrra og gamalla bóka á frábæru tilboðsverði. Spjall í búðinni allan daginn.

11:00-22:00   Rauða húsið á Eyrarbakka

Rauða húsið er opið allan daginn og þar er boðið upp á ókeypis eftirrétt með öllum aðalréttum á matseðli.

11:00-18:00   Söfnin á Eyrarbakka

Opið í Byggðasafni Árnesinga í Húsinu, Sjóminjasafninu og Kirkjubæ. Í borðstofu Hússins er sýningin KjólarÓkeypis aðgangur.

11:00                Unga kynslóðin skemmtir sér

Brúðubíllinn kemur í heimsókn að Sjóminjasafninu og Lilli litli heilsar upp á alla gömlu góðu vinina sína á Eyrarbakka. Boðið upp á hressingu.

Hestar teymdir undir börnum á Garðstúninu í boði Bakkahesta.

12:00               BMX BRÓS

BMX BRÓS sýna listir sínar á BMX hjólum við Sjóminjasafnið.

12:00-14:00  Bubbluboltar

Björgunarsveitin Björg verður með bubblubolta á Garðstúninu.

12:00-14:00   Heimboð í Garðshorn

Árleg Jónsmessusúpa og rabarbaragrautur í Garðshorni í boði húsráðenda Elínbjargar og Vigfúsar. Allir velkomnir.

13:00-14:30   Diskótek fyrir yngri kynslóðina

DJ Sveppz sér um diskótek við Sjóminjasafnið og allir dansa með.

14:00-16:00  Tekið á móti gestum

Guðlaug Einarsdóttir og Jón Matthíasson á Túngötu 41 bjóða gestum heim til sín í spjall.

Esther Helga Guðmundsdóttir í Einarshöfn 4 – Jakobsbænum opnar hús sitt fyrir gestum og gangandi.

16:00-18:00  Marþari

Ásta Villa Guðmundsdóttir á Kaldbak fremur gjörning á Vesturbryggjunni.

16:00-17:00  Fuglasöngur og annað kvak

Valgeir Guðjónsson skemmtir ungum og öldnum með fuglasöng og öðru kvaki í Eyrarbakkakirkju.

20:15-21:30  Blandaði Bakkakórinn

Heimir Guðmundsson leikur undir almennan söng í stássstofu Hússins. Húsið opnað kl. 20 – þeir sem fyrstir koma fá sæti!

22:00             Jónsmessubrenna

Jónsmessubrenna í fjörunni vestan við Eyrarbakkaþorp. Eiríkur Már Rúnarsson ávarpar gesti og hið frábæra Bakkaband heldur svo uppi fjörinu fram eftir kvöldi.

23:00             Rauða húsið

Kjallarinn opinn og Grétar í Sólvangi ætlar að spila og syngja.

Tjaldsvæðið vestan þorpsins er opið – öll þægindi og nóg pláss.
Jónsmessuhátíðin er styrkt af Sveitarfélaginu Árborg, Versluninni Bakka, MS, Guðnabakaríi, Krás, Árhúsum Hellu, Bakkahestum, Ungmennafélagi Eyrarbakka og Björgunarsveitinni Björg.

BES sigraði Suðurlandsriðilinn

Miðvikudaginn 15. mars fór fram Suðurlandsriðill Skólahreystis í íþróttahöll Stjörnunar í Garðabæ. Skemmst er frá því að segja að Barnaskólinn (BES) sigraði riðilinn með fjórum stigum og er þar af leiðandi kominn í úrslitakeppnina sem fram fer í Laugardalshöll 26. apríl. Sannarlega stórglæsilegur árangur hjá liði BES en  skólinn náði 4. sæti í fyrra. Nemendur BES hafa æft linnulaust fyrir keppnina í vetur undir handleiðslu Vigfúsar Helgasonar íþróttakennara. Lið skólans skipa Halldór Ingvar Bjarnason, Símon Gestur Ragnarsson, Bríet Bragadóttir, Lilja Atladóttir, Sigurbjörg Guðmundsdóttir, Eyþór Ás Þórisson og Hrafn Arnarson.

Undirbúningur fyrir lokakeppnina hófst strax í dag en sú keppni verður sýnd í beinni útsendingu í Ríkissjónvarpinu 26. apríl næstkomandi.

 

Af www.barnaskolinn.is

Jónsmessuhátíðin á Eyrarbakka 25. júní

mjp_1709:00    Fánar dregnir að húni við upphaf 18. Jónsmessuhátíðarinnar á Eyrarbakka

Eyrbekkingar flagga íslenska fánanum eða Bakkafánanum og ganga frá skreytingum í hverfalitunum.

Kjörfundur vegna forsetakosninga hefst á Stað og stendur til kl. 22. Nýtum kosningaréttinn snemma.

Björgunarsveitin Björg býður upp á ókeypis veiði í Ölfusá fyrir landi Eyrarbakka allan daginn.

09:00-21:00    Verslunin Bakki við Eyrargötu

Verslunin verður opin allan daginn og langt fram á kvöld. – Kíkið við í spjall og börnin fá skrímslaís um miðbik dagsins.

09:15-11:00    Morgunstund í skógarlundi

Skógræktarfélag Eyrarbakka tekur á móti gestum á svæði félagsins í Hallskoti og býður upp á hressingu í morgundögginni.

10:30-17:00    Laugabúð í Sjónarhóli

Bókamarkaður í kjallaranum – mikið úrval nýrra og gamalla bóka á frábæru verði.
Sögur og skemmtilegheit allan daginn og farandkaupmenn úr höfuðstaðnum á öllum hæðum.

11:00-22:00    Rauðahúsið á Eyrarbakka

Rauða Húsið verður með tvö tilboð allan daginn: Tveggja rétta máltíð með fiskiþrennu og Þjórsárhrauni í í eftirrétt á 5.800 kr. eða kaffi og heimatilbúin kökusneið á 1.250 kr.

11:00-18:00    Fortíðin í söfnunum á Eyrarbakka

Byggðasafn Árnesinga í Húsinu, Sjóminjasafnið á Eyrarbakka og Kirkjubær eru opin. Í borðstofu Hússins er sýningin Dulúð í Selvogi. Í Kirkjubæ er sýningin Draumur aldamótabarnsins. Boðið uppá ferskjur og rjóma að hætti Guðrúnar húsfreyju í Kirkjubæ milli kl. 13 og 14.
Komið og vitjið fortíðarinnar í söfnunum á Eyrarbakka. Ókeypis aðgangur á Jónsmessuhátíðinni.

11:00    Unga kynslóðin skemmtir sér

Hinn sívinsæli Brúðubíl kemur í heimsókn að Sjóminjasafninu með nýtt leikrit. Vatnaboltar og bubblu-boltar í boði Ungmennafélagsins og Björgunarsveitarinnar á eftir. Hestar verða teymdir undir börnum.

12:00-14:00    Heimboð í Garðshorn

Árleg Jónsmessusúpa og rabarbaragrautur upp á gamla mátann í Garðshorni í boði húsráðenda Elínbjargar og Vigfúsar. Allir velkomnir.

14:00-15:15    Saga music – í Gamla-Gónhóli í Frystihúsinu

Valgeir Guðjónsson flytur Saga Music dagskrána í tali og tónum þar sem persónulýsingar úr Íslendingasögunum eru efniviðurinn. Sjá nánar á www.bakkastofa.com        Aðgangseyrir kr. 1.000.

14:00-16:00    Gallerí 973 – Garðbær við Gónhól

Stúdíó listamannanna Kristínar og Max er opið að Eyrargötu 73 – Garðbæ. Sjá nánar www.gallery973.com .

14:00-16:00    Ljósmyndasýning á Háeyrarvöllum

Anný og Valgeir bjóða upp á spjall og ljósmyndasýningu á heimili sínu á Háeyrarvöllum 32.

15:00-17:00    Spjallað í Hausthúsum

Margrét Sverrisdóttir og Pétur Hilmarsson taka á móti fólki við hús sitt Hausthús að Eyrargötu 39.

16:00-18:00    Diskótek fyrir yngri kynslóðina

DJ Sveppz sér um diskóið við Sjóminjasafnið. Mikið fjör og mikið gaman. 😊

20:15-21:30    Sameinaði Bakkakórinn þenur raddböndin í Húsinu

Heimir Guðmundsson leikur undir almennan söng, þar sem hver syngur með sínu nefi.

22:00    Jónsmessubrenna

Jónsmessubrenna í fjörunni vestan við Eyrarbakkaþorp. Eyrbekkingurinn Sandra Dís Hafþórsdóttir ávarpar gesti. Hið frábæra Bakkaband heldur svo uppi fjörinu meðan menn endast.

23:00    Rauða húsið

Kjallarinn opinn og Grétar í Sólvangi ætlar að spila. 😊

Tjaldsvæðið vestan þorpsins, sem Björgunarsveitin Björg rekur, hefur verið stækkað – ÖLL ÞÆGINDI OG NÓG PLÁSS.

Jónsmessuhátíðin er styrkt af Sveitarfélaginu Árborg

Alþýðutónlistarhátíðin Bakkinn

bakkinn

Alþýðutónlistarhátíðin Bakkinn
Eyrarbakka og Stokkseyri
21.-24. apríl 2016

Alþýðutónlistarhátíðin Bakkinn verður haldin í þriðja sinn 21.-24. apríl nk.
Tónlistarhátíðin verður að mestum hluta á Eyrarbakka en í ár bætist við tónleikastaðurinn Orgelsmiðjan á Stokkseyri.
Tónlistarfólkið sem kemur fram er ekki af verri endanum – en þau eru: Ellen Kristjánsdóttir og Eyþór Gunnarsson, Lay Low, Valgeir Guðjónsson, Magnús Þór Sigmundsson, Skúli mennski, Íkorni, Þjóðlagasveitin Kólga, UniJon, Amber, Myrra Rós og Vargur.
Tónleikarnir í ár verða í Óðinshúsi, Eyrarbakkakirkju, Rauða húsinu, Húsinu á Eyrarbakka og svo í Orgelsmiðjunni á Stokkseyri.
Það má búast við tónlistarveislu og notalegri stemningu við ströndina næstu helgi!

Frítt verður inn á alla viðburði – en frjáls framlög eru vel þegin!
Allar nánari upplýsingar má nálgast á www.bakkinn.org

 

Bakkinn dagskrá 2016

Fimmtudagurinn 21.apríl – Sumardagurinn fyrsti
Kl 14:00 Samsöngur í Húsinu
– Bakkinn settur

Kl 17:00 Rauða húsið – Norðursalur 2 hæð
Valgeir Guðjónsson – Saga Music ný sagnatónlist frumflutt

Föstudagurinn 22.apríl
Kl 20:00 Eyrarbakkakirkja
Ellen Kristjáns og Eyþór Gunnarsson

Laugardagurinn 23.apríl
Kl 14:00 Húsið
Amber

Kl 16:00 Óðinshús
UniJon
Lay Low

Kl 20:00 Óðinshús
Íkorni
Þjóðlagasveitin Kólga
Skúli Mennski
Magnús Þór

Sunnudagurinn 24.apríl
Kl 16:00 Orgelsmiðjan Stokkseyri
Myrra Rós
Vargur frá Stokkseyri

Frítt er inná alla viðburði – en frjáls framlög vel þegin.

Nánari upplýsingar má nálgast á www.bakkinn.org

Húsið á Eyrarbakka 250 ára

mkh_150805-DSC07920

Húsið á Eyrarbakka 250 ára

Í sumar eru 250 ár liðin síðan Húsið á Eyrarbakka var byggt. Af því tilefni boðar Byggðasafn Árnesinga til hátíðarsamkomu í Húsinu á Eyrarbakka þann 9. ágúst næstkomandi og hefst kl. 14. Á samkomunni verða flutt erindi og ávörp auk þess sem tónlist tengd Húsinu verður flutt. Þau sem koma fram á samkomunni eru m.a. Ásta Kristrún Ragnarsdóttir, Valgeir Guðjónsson, Halldór Blöndal, Guðmundur Ármann Pétursson og Hlín Pétursdóttir. Léttar veitingar verða í boði. Allir velkomnir.

Húsið var byggt af Almenna verslunarfélaginu í Kaupmannahöfn árið 1765 sem árið áður hafði fengið einkarétt á verslun á landinu. Enn erum við á tímum einokunarverslunar. Á vegum Almenna verslunarfélagsins var danskur reynslumikill kaupmaður, Jens Lassen að nafni, ráðinn forstöðumaður verslunarinnar á Eyrarbakka. Jafnframt var gefin út heimild til að setja niður á verslunarstaðina íbúðarhús fyrir kaupmennina í þeirri viðleitni yfirvalda í Danmörku að efla verslunarlíf og bæta hag Íslendinga.

Ekki er vitað hverjir byggðu Húsið. Talið er víst að það hafi verið danskir smiðir, en Þorgrímur Þorláksson múrari á Bessastöðum hlóð upp reykháfinn, eldstæði og bakaraofn. Þorgrímur var kominn aftur til Bessastaða þann 23. ágúst og var þá verki hans á Eyrarbakka lokið. Munnmælasögur segja að ekkert timbur hafi verið selt úr Eyrarbakkaverslun þetta sumarið því það hafi allt farið í nýbygginguna.

Húsið er svonefnt bolhús,12,7×9 metrar að grunnfleti, með rennisúð á þaki. Stokkarnir voru fluttir tilsniðnir til landsins frá Noregi. Tjargaðir og þéttir bjálkarnir voru ysta klæðning fyrst um sinn og e.t.v. í heila öld.

Að skipulagi bar Húsið í upphafi mörg einkenni danskrar húsagerðar, inngangur að sunnanverðu og norðanverðu, stofur og herbergi til beggja enda, rishæð og hanabjálkaloft.

Byggt var við Húsið árið 1766 en sú viðbygging vék síðar fyrir nýrri viðbyggingu, Assistentahúsinu árið 1881.

Húsið var kaupmannssetur til 1927. Veldi þeirra sem þar bjuggu var ótvírætt, húsbændurnir þjónuðu stærstu verslun landsins en kaupsvæði Eyrarbakkaverslunar náði yfir þrjár sýslur á Suðurlandi. Var ekki laust við að bændur litu með lotningu á Húsið þegar riðið var framhjá því á leið til verslunarhúsanna sem illu heilli voru rifin árið 1950.

Blómatími Hússins á Eyrarbakka var þegar Lefolii stórkaupmaður í Kaupmannahöfn átti verslunina. Var verslunin kennd við kaupmanninn og nefndist Lefolii-verzlun á Eyrarbakka. Þetta er á tímabilinu 1847 til 1918. Lefolii kaupmaður kom gjarnan á vorin og fór að hausti. Allt árið var svo búsettur í Húsinu verslunarstjóri hans ásamt fjölskyldu. Þekktastir þeirra voru Guðmundur Thorgrímsen og síðar Peter Nielsen sem nutu mikilla vinsælda meðal almennings. Mikil umsvif voru við verslunina sem þjónaði þremur sýslum en innan dyra Hússins blómstraði menningin. Í hnotskurn má segja að í Húsinu hafi mæst dönsk borgarmenning og íslensk bændamenning. Fyrir það varð Húsið á Eyrarbakka landsfrægt.

Hjónin Halldór Kr. Þorsteinsson og Ragnhildur Pétursdóttir sem kennd hafa verið við býlið Háteig í Reykjavík, keyptu Húsið árið 1932 og létu gera það upp enda þá komið í niðurníðslu. Er talið að það sé í fyrsta sinn sem einstaklingar kaupa hús vegna sögu sinnar og því fyrsta merki um húsavernd á Íslandi. Þau Auðbjörg Guðmundsdóttir og þáverandi eiginmaður hennar Pétur Sveinbjarnarson keyptu Húsið árið 1979 og létu gera upp í upprunalega mynd. Bjó Auðbjörg í Húsinu til ársins 1994. Þá hafði hún selt ríkissjóði Húsið og var Þjóðminjasafni Íslands falin umsjón þess og viðgerðir. Er byggingin nú hluti af húsasafni þess. Frá árinu 1995 hefur Byggðasafn Árnesinga séð um daglegan rekstur Hússins á Eyrarbakka og er með grunnsýningu sína í því.

Húsið á Eyrarbakka er á meðal merkustu menningarverðmæta sem varðveitt er á landsvísu. Þess vegna er vel við hæfi að Húsið sé umgjörð um Byggðasafn Árnesinga. Það eru ekki allir sem geta boðið upp á sýningu í 18. aldar húsi og þar liggur styrkleiki safnsins. Umhverfis Húsið er svo þétt byggð timburhúsa sem byggð voru á tímabilinu 1880 til 1930 og markar þorpinu Eyrarbakka sunnlenska sérstöðu.

Nú sem fyrr er gestkvæmt í Húsinu á Eyrarbakka. Það stendur enn á sínum upprunalega stað og mynda húsin tvö, Húsið og Assistentahúsið, einstakt sjónarhorn þegar horft er til Hússins frá Eyrargötu. Það er margt forvitnilegt í kringum þetta gamla stílhreina hús og merka sögu þess. Það bíður þess að gestir líti það augum. Það er almenningseign og öllum velkomið að drepa þar inn fæti.

 

Samantekt:
Lýður Pálsson, safnstjóri Byggðasafns Árnesinga