Eyrarbakkakirkja 125 ára

kirkjan

EYRARBAKKAKIRKJA 125 ÁRA

Aðdragandi og vígsla kirkjunnar

Góðir kirkjugestir – gleðilega hátíð!

Árið 1889 voru íbúar á Eyrarbakka 583 talsins og hafði þeim fjölgað ört frá 1850, þó mest á níunda áratug 19. aldar. T.d. var fjölgunin um 100 manns á aðeins fjórum árum frá 1885. Eyrarbakki var þá fimmti fjölmennasti þéttbýlisstaður landsins – á eftir Akureyri, Hafnarfirði, Ísafirði og svo Reykjavík með sína 3.750 íbúa.

Eyrarbakki var á þessu tíma höfuðstaður Suðurlands. Hér hafði verið aðalhöfn Sunnlendinga um aldir og verslunin hafði blómstrað. Þéttbýli, eins og við þekkjum það, var að byrja að myndast, en enn bjuggu flestir íbúar á Eyrarbakka í torfbæjum, sem sumir voru reisulegir með timburþilum, en aðrir lágreistari og fátæklegri. Bæirnir mynduðu þyrpingar eða raðir, með heitum sem haldist hafa fram á þennan dag.

Götumyndin, eins og við þekkjum hana í dag, var að taka á sig mynd – flest timburhúsin húsin voru byggð frá 1880 til 1915. Elst voru verslunarhús danska kaupmannsins, sem reist voru á löngum tíma, elsti hlutinn frá 1755 – Vesturbúðin svokallaða. Glæsilegast var þó íbúðarhús faktorsins – Húsið, sem reist var árið 1765.

Eyrbekkingar höfðu átt kirkjusókn að Stokkseyri, en þar hafði verið kirkustaður frá 11. öld. Ný kirkja var byggð þar árið 1886.

Vegna þeirrar miklu og öru fjölgunar íbúa á Eyrarbakka var farið að ræða það fljótlega upp úr 1880, að skipta Stokkseyrarsókn í tvennt og var einn helsti stuðningsmaður þess séra Jón Björnsson sóknarprestur í Stokkseyrasókn. Hann bjó hér á Eyrarbakka – í Presthúsinu í Einarshafnarhverfi.

Árið 1885 var samþykkt á héraðsfundi Árnesprófastsdæmis „að byggja megi nýja kirkju á Eyrarbakka“. Er þessi samþykkt það fyrsta, sem vitað er um kirkjubygginguna hér á Bakkanum.

Og þá taka menn til við fjársöfnun til kirkjubyggingarinnar og í apríl 1887 er auglýst í landsmálablöðunum „að landshöfðinginn leyfi sóknarnefnd Stokkseyrarsóknar að halda Lukkuspil (Lotteri), til ágóða hinni fyrirhuguðu Eyrarbakkakirkju, á rauðum reiðhesti 6 vetra, viljugum og vökrum, sem herra hreppstjóri og kaupmaður Guðmundur Ísleifsson á Stóru-Háeyri hefur gefið í því skyni“. Gert er ráð fyrir því að dráttur í lotteríinu fari fram seinni part septembermánaðar. Númerin fást keypt fyrir eina krónu hjá kaupmönnum í Reykjavík, Hafnarfirði, á Eyrarbakka og Akureyri, á Útskálum og í Stafholti og austur í Rangárvallasýslu. Ekki voru menn á eitt sáttir hve seint átti að draga hestinn og því auglýsir Stefán Bjarnarson sýslumaður í Gerðiskoti í maí 1887 að drætti verði flýtt og fari hann fram „að Eyrarbakka laugardaginn hinn 9. júlí næstkomandi um hádegisbil“. Ekki fer frekari sögum af því, hverjum rauði hesturinn vakri var dreginn.

Í maí er einnig auglýst í Ísafold: „Stór Concert (50-60 manns, karlar og konur) í Good-templarahúsinu [í Reykjavík] laugardag 4. maí kl. 8½ e.m. undir forustu Stgr. Johnsens, til ágóða fyrir kirkjubyggingu á Eyrarbakka. …“ Og bílætin kosta eina krónu.

Víða eru menn að leggja kirkjubyggingunni lið. Meira að segja var prentað keðjubréf á erlendum tungumálum undir fyrirsögninni „Látum snjóboltann rúlla fyrir Eyrarbakkakirkju“ og var þessu bréfi dreift erlendis. Áheit og gjafir komu m.a. frá Eyrbekkingum í Íslendinganýlendunni á Washington-eyju vestur í Michigan-vatni í Norður-Ameríku.

Þann 22. nóvember 1889 birtist frétt frá Eyrarbakka í Þjóðólfi þar sem segir: „Hið mikla áhugamál vort Eyrbekkinga, kirkjumálið, er nú komið það áleiðis, að fyrir skömmu er byrjað að hlaða grunninn undir kirkjuna, mest fyrir ötula framgöngu merkisprestsins Jóns Björnssonar á Eyrarbakka, sem með því, að lofa sjálfur mest allra og með því að gangast fyrir samskotum í söfnuðinum, mun á vikutíma hafa fengið loforð fyrir 1.600 kr., mest á sjálfum Eyrarbakka og hjer í grennd; …“.

Af þessu má ljóst vera að bygging Eyrarbakkakirkju hefst haustið 1889 og stendur svo allt næsta ár 1890.

Jóhann Fr. Jónsson húsasmiður á Eyrarbakka teiknar kirkjuna, en honum entist ekki aldur til þess að stýra kirkjubyggingunni, hann deyr í mars 1890 tæplega fertugur að aldri. En talið er að yfirsmiðir kirkjunnar hafi að langmestu leyti farið eftir teikningum Jóhanns Fr. Jónssonar.

Og í ágústlok birtist í Þjóðólfi stuttur pistill: „Kirkja er reist á Eyrarbakka … og vonast eptir, að hún verði jafnvel messufær í vetur; hún er byggð fyrir tóm samskot og gjafir og hefur það ekki gengið stríðlaust af fyrir helsta forgöngumanninum, sjera Jóni Björnssyni, er þó hefur verið veill á heilsu; mikið mun þó enn vanta til að kirkjan verði byggð skuldlaust.“

Og víkur nú sögunni til Reykjavíkur fimmtudaginn 11. desember 1890. Þá heldur af stað ríðandi úr borginni einn af heldri mönnum bæjarins, ásamt fylgdarmönnum. Þeir ná fyrir kvöld austur að Kolviðarhóli og gista þar um nóttina. Næsta dag ríða þeir áfram um Lágaskarðsveg og niður í Ölfus, fara um hlaðið á Hrauni og ríða austur Óseyrartanga. Þeir eru ferjaðir yfir Ölfusá við Óseyrarnes og ná til Eyrarbakka síðdegis föstudaginn 12. desember. Sama dag birtist frétt í Þjóðólfi: „Eyrarbakkakirkja er nú fullgjörð. Biskup Hallgrímur Sveinsson fór austur þangað í gær, til að vígja hana næsta sunnudag.“

Biskupinn yfir Íslandi var sjálfur kominn hingað austur á Eyrarbakka til þess að vígja nýju kirkjuna. Í 400 ár hafði það ekki tíðkast að biskupinn vígði nýjar kirkjur, utan einu sinni þegar dómkirkjan í Reykjavík var vígð árið 1848. Þetta segir okkur töluvert um stöðu Eyrarbakka á þessum tíma á landsvísu. Nokkuð víst er, að biskupinn hefur notið gestrisni húsráðenda í Húsinu – þeirra Peters Nielsens faktors og konu hans, Eugeníu Nielsen Thorgrímsen, en fólkið í Húsinu var, ásamt svo mörgum öðrum, miklir stuðningsmenn kirkju-byggingarinnar.

Daginn fyrir vígsluna, laugardaginn 13. desember, var klukkum kirkjunnar hringt í klukkustund.

Þriðji sunnudagur í aðventu árið 1890 rann upp fagur og bjartur, sólskin var með hægu frosti. Á hádegi var kirkjuklukkunum samhringt og á meðan gekk biskup, ásamt fimm prestvígðum mönnum, sóknarnefndarmönnum, faktor Nielsen, settum sýslumanni og einum til, „alls 12 manns, hátíðargöngu, tveir og tveir saman úr Húsinu. Þegar flokkurinn kom að kirkjudyrum hætti hringingin, en á meðan gengið var inn eftir kirkjugólfi og inn í kórinn var leikið á harmoníum án orða og söngs – præludium. Biskupinn gekk þegar fyrir altarið og tók við Biblíunni, kaleik og patínu og handbókinni, sem prófastur og prestarnir báru, og setti þessa hluti á altarið, og gjörði því næst bæn sína fyrir altarinu, en hátíðargönguflokkurinn skipaði sér til sæta í kórnum báðum megin“.

Þessi frásögn af upphafi kirkjuvígslunnar er samkvæmt skrifum sjónarvotts, sem birtust í blaðinu Ísafold 20. desember. Þar er einnig mjög nákvæm lýsing á allri athöfninni, hvaða ritningarlestrar voru lesnir og hverjir lásu, hvaða sálmar voru sungnir og síðan nákvæm lýsing á kirkjunni sjálfri.

„Söngurinn fór prýðilega fram undir stjórn organistans Jóns Pálssonar [sem bjó á Hofi eftir að hann flutti frá Stokkseyri] og sungu þar tveir allstórir (38 manna) og velæfðir blandaðir söngflokkar, annar frá Eyrarbakka og hinn Stokkseyri.“ Það er ánægjulegt að horfa upp á söngloftið og sjá að sagan endurtekur sig nú 125 árum seinna – hér stendur söngfólk bæði frá Eyrarbakka og Stokkseyri, eins og var 14. desember 1890, og leyfir okkur að njóta sameinaðra söngkrafta sinna.

„Kirkjan var svo full uppi og niðri sem frekast mátti verða, enda reyndist að hún hefði rúmað 600 manns, en nokkrir höfðu orðið frá að hverfa sakir rúmleysis og fáeinir stóðu úti fyrir. Auk fjölmenns safnaðar af Eyrarbakka og Stokkseyri voru margir aðkomnir úr Kaldaðarnes-, Gaulverjabæjar- og Arnarbælissóknum og enn nokkrir lengra að.“

Þessi lýsing sjónarvottsins í Ísafold er mjög nákvæm og einstök lýsing á kirkjuvígslu frá þessum tíma. Enda var það svo, að vígsla Eyrarbakkakirkju varð fyrirmynd að kirkjuvígsluathöfnum víða um land á næstu árum og áratugum, svo glæsileg og hátíðleg þótti hún.

Í ársritinu Fréttir frá Íslandi fyrir árið 1890 segir: „Ein kirkja var vígð af biskupi 14. desember, Eyrarbakkakirkja, er reist hafði verið af samskotum tómum og gjöfum, veglegt hús og vandað að öllu; var vígsluathöfnin öll með meiri dýrð en títt hefir verið hjer á landi um langan aldur.“

Það eina sem skyggði á hátíðina var ,að séra Jón Björnsson gat ekki verið sökum sjúkleika „við vígslu þessarar kirkju, sem hann með áhuga sínum og kappsamlegu fylgi hefir átt drjúgastan þátt í að reisa á þeim stað, þar sem ekkert guðshús áður var til, en þörfin á því mikil“.

Það er ekki fyllilega vitað hver byggingarkostnaður kirkjunnar var, en við vígsluna er talið að byggingarskuldin hafi verið um 2.000 gamlar krónur, eða um 1,9 milljónir nýkróna á verðlagi dagsins í dag, og sú skuld var ekki að fullu greidd fyrr en nær tuttugu árum seinna eða árið 1918.

Kirkjan var öll ómáluð, en hafði verið skreytt með laufsveigum og blómum á ýmsum stöðum og á annan hátt. Messuklæði, áhöld og hlutir innan kirkju voru ókomnir, en fengnir að láni við vígsluna. Og enga altaristöflu átti kirkjan, en úr því rættist árið eftir.

Í blaðinu Ísafold birtist 22. júlí 1891 eftirfarandi auglýsing:

„Hennar hátign drottning Danakonungs hefir nýlega sent ljómandi fallega altaristöflu er hún hefir sjálf málað og gefið hinni nýju kirkju á Eyrarbakka. Myndin sýnir frelsarann, þar sem hann talar við samversku konuna við Jakobsbrunninn í Samaríu.

Til þess að gefa mönnum færi á, að sjá þessa fögru og veglegu gjöf, verður myndin sýnd í barnaskólahúsinu [í Reykjavík] (3. bekk) fyrst um sinn vikutíma og byrjar sýningin á fimmtudaginn 23. þ.m. og stendur frá kl. 5 til 7, og kostar 25 aura fyrir hvern mann – ágóðinn rennur í sjóð Eyrarbakkakirkju.“

Undir þetta ritar Þorlákur O. Johnson kaupmaður í Reykjavík.

Altaristaflan hefur sem sagt komið með skipi til Reykjavíkur og er síðan send hingað austur og sett upp í kirkjunni síðla sumars 1891 og hér hefur þessi ómetanlegi kirkjugripur skrýtt kirkjuna síðan.

En hvernig á því stendur, að Louise drottning Kristjáns konungs níunda gefur kirkjunni altaristöfluna er enn óleyst gáta, sem gaman væri að leysa.

Ágætu kirkjugestir!

Ég sé að presturinn og organistinn eru báðir farnir að líta á úrin sín. Þeir báðu mig að rekja 125 ára sögu Eyrarbakkakirkju í stuttu máli. Ég hef nú farið yfir um það bil eitt og hálft ár í sögu kirkjunnar – tími minn er þrotinn – það sem eftir er af sögu kirkjunnar verður að bíða betri tíma.

Megi Eyrarbakkakirkja þjóna þörfum Eybekkinga frá vöggu til grafar um ókomna tíð, eins og hún hefur gert síðastliðin 125 ár.

Ég óska ykkur öllum gleðilegrar jólahátíðar og farsældar á nýju ári.

 

Magnús Karel Hannesson                                            

Flutt á aðventuhátíð í Eyrarbakkakirkju 13. desember 2015.

 

Heimildir:

Guðmundur Gísli Hagalín: Á fallanda fæti. Saga byggðar á Eyrarbakka 1889-1939. Júní 2013.

Magnús Guðjónsson: Eyrarbakkakirkja 100 ára. Desember 1990.

Tímarit.is