Sandvík II

Sandvík II

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Eigendur:

1900 Jón Guðbrandsson

1928 Guðrún Guðmundsdóttir

1964 Ólafur Gíslason

2009 Sigrún Guðmundsdóttir og  Gíslína Sólrún Jónatansdóttir

2011 Einar Ingi Jónsson og Marie Klith Harðardóttir

Sandvík er tvílyft timburhús með brotnu þaki sem stendur á hlöðnum steinkjallara. Inngöngubíslag er á austurhlið en með norðurhlið er steypt viðbygging með skúrþaki . Þaklag hússins er sérstakt því efra þakið er bogalagað og  óbrotið. Sandvík er breið í samanburði við önnur hús með mansardþaki á Eyrarbakka. Húsið var múrhúðað skömmu eftir 1964. Múrhúðunin var tekin af framhlið, vesturhlið og austurhlið hússins árið 2003  þegar framhlið var endurnýjuð og gluggar settir til upprunalegs horfs. Þrír sexrúðu gluggar eru á neðri hæð hússins en tveir í risi.

Húsið byggði Sveinn Einarsson frá Heiði á Síðu, bróðir Jóns Einarssonar í Mundakoti og mágur Jóns Guðbrandssonar, fyrsta eiganda Sandvíkur. Viðirnir voru úr frönsku skútunni Isabellu en hún strandaði á Stokkseyri árið 1898. Viðir hennar eru sagðir í þremur öðrum húsum á Eyrarbakka. Jón var skósmiður og mun hafa stundað iðn sína í húsinu. Húsinu er lýst svo nýbyggðu í virðingu til húsaskatts:

9 al lángt 8 al breitt, einlyft með brotnu þaki járnklæddu, járnklæddum suðurgafl báðum hliðarveggjum og hálfum norðurgafli, hálfur pappaklæddur. Inni undir lofti eru 4. herbergi, forstofa og eldhús með stórri eldavél og reykháf af tigulsteini. Baðstofa með hitavél og svefnherbergi, bæði herbergin máluð. Uppi á lofti eru 3 herbergi alinnrjettuð ómáluð, kjallari 5×6 al. með steinlímdum veggjum og gólfi.

Þegar Eiríkur Gíslason smiður skoðar húsið um áramótin 1916-17 er þegar kominn vísir að skúrbyggingu norðan við húsið og skúrinn sagður „óuppgerður með steinvegg“. Norðurveggur skúrsins hefur þá verið steinhlaðinn. Skúrinn var byggður upp á fjórða áratugnum.

Guðmundur og Gísli R. Kristjánssynir önnuðust viðgerð hússins 2003.