Daglegt líf

Hið daglega líf

„Hvað gerir fólk á svona stað?“, spurði virtur íslenskur rithöfundur um leið og hún geystist í bíl fram hjá meðalstórum norðlenskum bæ og síðan varpaði hún spurningunni fram í dagblaðspistli í leit að svari.

Það kann að koma sumum á óvart, en hvar sem fólk býr, lifir það sínu daglega lífi við leik og störf. Það skiptir ekki máli hvort það er sá stóri mikli staður Selfoss eða sjálf Reykjavíkin. Daglegt líf fólks er í stórum dráttum svipað á Bakkanum og á öðrum stöðum.

Á Eyrarbakka keyrir um helmingur þorpsbúa burt að morgni til vinnu, sumir í Þorlákshöfn eða á Stokkseyri, aðrir í Hveragerði eða á Selfoss og enn aðrir til Reykjavíkur. Hinn helmingurinn skundar á Litla-Hraun, elliheimilið, leikskólann eða barnaskólann, verslunina Vesturbúð eða fást við smíðar, matreiðslu, safnstörf eða hvaðeina annað. Fjölbreytnin er meiri en mann kynni að gruna.

Síðan sinnir fólk félagsstörfum hvort sem það syngur í kirkjukór, brunar á Zodiac-báti með björgunarsveitinni eða föndrar í Kvenfélaginu, heldur hesta og sauðfé eða ræktar kartöflur.

Gæði mannlífs eru ekki fólgin í fjölda þeirra sem búa á sama stað heldur í því samfélagi sem fólki tekst að byggja upp í kringum sig.

Á Eyrarbakka er gamalt og gróið þorpssamfélag. Það samfélag sköpum við sjálf, við sem þar kjósum að búa, frá degi til dags.