Félög

Félögin á Eyrarbakka

Þegar hreyfing til félagamyndunar fór að láta að sér kveða á Íslandi upp úr 1880 voru Eyrbekkingar í forystu meðal Sunnlendinga í stofnun margvíslegra félaga. Nefna má Bræðrafélagið (bindindisfélag) 1885, Ábyrgðarsjóð opinna áraskipa 1884, Kvenfélagið á Eyrarbakka 1888 og Söngfélagið Hörpuna sem dæmi.

Þegar félagsdeildir landssamtaka voru stofnaðar víða um land stóðu Eyrbekkingar sína vakt með stofnun Verkalýðsfélagsins Bárunnar 1905, UMFE 1908, Slysavarnadeildarinnar Bjargar 1928 og leikfélag var stofnað 1943, en þá hafði leikstarfsemi staðið á Bakkanum síðan um 1880 án formlegs félagsskapar.

Það er eðli félaga að lifna og deyja og svo er einnig á Bakkanum. Skátafélag hefur átt nokkur æviskeið, svo dæmi sé tekið, og tekið góða spretti. Félög hafa sameinast og flust á stærri vettvang eins og Báran.

Nokkur félög halda þó uppi merkinu í félagsstarfi Eyrbekkinga eins og Kvenfélagið, Björgunarsveitin, Ungmennafélagið, Hagsmunafélag búfjáreigenda og Búnaðarfélag Eyrarbakkahrepps.