Kvenfélag Eyrarbakka

Kvenfélag Eyrarbakka var stofnað 25. apríl 1888 af 16 konum og er eitt hinna sjö kvenfélaga sem stofnuð voru fyrir 1900. Þegar Kvenfélagasamband Íslands hélt upp á 70 ára afmæli sitt 1. febrúar 2005, var þessum sjö kvenfélögum veitt viðurkenning fyrir störf sín. Fyrir utan Kvenfélag Eyrarbakka fengu viðurkenningu Kvenfélag Rípuhrepps í Skagafirði 136 ára, Thorvaldsensfélagið í Reykjavík 130 ára, Kvenfélag Svínavatnshrepps Austur Húnavatnssýslu 131 árs, Hvítabandið í Reykjavík 110 ára, Kvenfélag Sauðárkróks 110 ára og Kvenfélag Húsavíkur 110 ára.

Við í Kvenfélagi Eyrarbakka erum ansi stoltar af þessari viðurkenningu og er hún nú í fínum ramma uppi á vegg í fundarherberginu okkar í samkomuhúsinu Stað.

 

Þegar ég sem aðkomukona á Eyrarbakka fór að vinna með kvenfélaginu komst ég að því að starfsemi þess er mikið skipulögð og unnin eftir föstum reglum af hressum og skemmtilegum konum. Við vinnum markvisst að því að safna fé til að geta styrkt og gefið gafir en líka til að hittast og gera eitthvað skemmtilegt og uppbyggjandi. Öll starfsemin er unnin af nefndum sem stjórnin sér um að skipa. Stærstu nefndirnar eru kaffinefndirnar, en þær eru fimm talsins, og basarnefndir, sem eru þrjár. Skipta nefndirnar verkum eftir röð. Síðan eru 17. júnínefnd, fermingakirtlanefnd, ferðanefnd, bingónefnd, jólakortanefnd og jólatrésnefnd.

Allar þessar nefndir vinna alveg sjálfstætt og er ein kona í forsvari fyrir hverri nefnd. Aðalfjáröflunarleiðir eru að halda basar í desember, en basar hefur verið haldinn meira og minna frá árinu 1934. Fram að basarnum vinna kvenfélagskonurnar allt haustið að munum sem hægt er að selja en einnig er haldin tombóla og selt kaffi. Kvenfélagsbingó er haldið að hausti. 1. mai er selt kaffi á Stað. Kaffisala er að vonum drjúg tekjuöflun fyrir félagið, og veitingarnar glæsilegar og girnilegar.

 

Fimm konur eru í stjórn félagsins og heldur stjórnin 4-5 fundi á ári en auk þess eru haldnir jólafundur aðalfundur og haustfundur.

Á síðastliðnum tíu árum hefur kvenfélagið gefið gjafir og veitt styrki fyrir rúmlega fimm milljónir. Mest hefur farið til Eyrarbakkakirkju en einnig hefur Björgunarsveitin Björg verið styrkt vel auk leikskólans Brimvers, dvalarheimila aldraða á Eyrarbakka og Selfossi og Barnaskólans á Eyrarbakka og Stokkseyri. Einstaklingar hafa einnig fengið styrki af ýmsum tilefnum.

Nú í dag eru 54 konur í félaginu og reglulega koma inn nýjar konur. Tvisvar til þrisvar á ári fara kvenfélagskonur í skemmtiferðir. Einnig hefur verið farið erlendis. Þessar skemmtiferðir hafa verið farnar meir og minna síðan 1930. Námskeið eru haldin reglulega. Fyrir konur sem eru að flytja á staðinn er upplagt að ganga í félagið til að kynnast íbúum bæjarins og kynnast ýmsum siðum sem hér eru haldnir í heiðri og hefur undirrituð meðal annarra notið góðs af þessum kynnum.

Hér hef ég rissað upp mynd af því sem mér býr í brjósti um Kvenfélag Eyrarbakka og þó svo að þessar línur séu orðnar nokkrar finnst mér ennþá margt ósagt og kannski er líka erfitt að koma orðum að tilfinningum þeim sem hjá mér bærast um félagið. Kannski eru þetta tilfinningar sem ég deili með konum um allt land gagnvart þessum mannúðarfélögum sem starfað hafa í áratugi án þess að vera áberandi í þjóðfélaginu. Oft dettur mér í hug í þessu sambandi ljóðið eftir Davíð Stefánsson og heitir: “Konan sem kyndir ofninn minn”, og vinnur sín verk í hljóði. Er það okkar hlutskipti kæru konur?

Með kærri kveðju
Rannveig Anna Jónsdóttir, Túni
Formaður Kvenfélags Eyrarbakka er Kristín Eiríksdóttir
Aðrar í stjórn kvenfélagsins eru:
Auður Hjálmarsdóttir ritari,
Sigríður Óskarsdóttir gjaldkeri,
Eygerður Þórisdóttir meðstjórnandi og
Erla Sigurjónsdóttir meðstjórnandi.