Björgunarsveitin Björg

 Saga björgunarsveitarinnar
Björgunarsveitin Björg var stofnuð 21. desember 1928 aðeins tæpu ári eftir að Slysavarnafélag Íslands var stofnað og mun þessi sveit vera sú sjötta sem stofnuð var en fljótlega fór að bera á miklum áhuga á þessum málum. Stofnfélagar urðu 116 talsins og voru orðnir 130 í lok ársins 1928, og var þetta fjölmennasta sveitin fyrir utan Reykjavík. Degi seinna var stofnuð björgunarsveit á Stokkseyri. Starfssvæði sveitarinnar var Eyrarbakkahreppur og Þorlákshöfn. Fyrstu stjórn skipuðu Þorleifur Guðmundsson formaður, Jón Helgason ritari og Jón Stefánsson féhirðir. Fljótlega eignaðist sveitin fluglínutæki og fyrsta björgunarbátinn, sem var trébátur ásamt vestum. Þessi árabátur var lengi vel til hér en því miður vegna húsnæðisskorts og líklega áhugaleysis fyrir varðveislu hans eyðilagðist hann.

Árið 1962 var fyrsta skóflustungan tekin að húsi sveitarinnar. Þá voru stórhuga menn við stjórnvölinn og byggðu þeir þá um 80 m2sem var tekið í notkun 1963. Fyrstu bifreiðina eignaðist sveitin 1975 svo kallaðan rússa. Árið 1963 eignaðist sveitin sinn fyrsta vélgúmmbjörgunarbát og 1984 eru tuðrunar orðnar tvær og svo hefur það verið síðan. Báðir gúmmíbátarnir voru endurnýjaðir árið 2000. Árið 1987 var nýr bíll af gerðinni Surburban keyptur. Þá var húsnæði sveitarinnar orðið of lítið svo ráðist var í 100 m2 viðbyggingu. Um 1992 var svo keyptur annar Surburban og rússin gamli seldur. Árið 1997 var keypt nýtt tæki í sveitina, svifnökkvi sem hefur breytt miklu og sjá menn mikið eftir að hafa ekki fyrir löngu fjárfest í slíku þarfatæki. Einnig var eldri bifreiðinni skipt út og keyptur Muzzo og 1999 var síðan hinni skipt út fyrir nýjan Surburban. Með þessari tækjaaukning varð hús sveitarinnar of lítið enn á ný og nú árið 2005 er búið að byggja 100 m2 við.

Víglundur Guðmundsson tók saman.
Birt með fyrirvara um villur og er allar ábendingar vel þegnar.