KK

KK í Óðinshúsi

Kristján Kristjánsson mun heiðra Eyrbekkinga og nærsveitunga með nærveru sinni og tónlist föstudaginn 21. ágúst næstkomandi.

KK hefur fyrir löngu spilað sig inní íslenska þjóðarsál og því er um einstakt tækifæri að ræða til að fá að upplifa manninn og listina í návígi.

Tónleikarnir hefjast kl 20:00. Frítt inn en frjáls framlög vel þegin.

Haldnir hafa verið nokkrir tónleikar í Óðinshúsi í sumar og hefur stemningin verið dásamleg. Þarna er hægt og koma og njóta tónlistar í sinni tærustu mynd án barglaums og dægurþrass.

Í Óðinshúsi er einnig myndlistarsýning helgina 21.-23. ágúst. Þar sýna myndlistarkonurnar Charlotta, Helga, Ásdís og Kolbrún.

Það má því búast við töfrandi stemningu við hafið á Eyrarbakka. KK mun leika af fingrum fram umvafinn list og fegurðarinnar sem Eyrarbakki hefur ávallt verið rómaður fyrir.

Óðinshús hlaut nýverið Menningarstyrk úr Uppbyggingarsjóði Suðurlands. Í Óðinshúsi verður boðið uppá ýmsa menningarviðburði í sumar. Hjónakornin UniJon eru forsvarsmenn menningarstarfs í Óðinshúsi, en þau bjuggu áður í Merkigili þar sem þau stóðu fyrir tónleikahaldi í nokkur ár.
Nánari upplýsingar um Óðinshús má nálgast á: https://www.facebook.com/odinshus

husDSC02614husDSC0263308.30  Flöggun.

11.00 Skrúðganga fyrir menn, dýr, fornbíla og tæki. Lagt af stað frá Barnaskólanum.

Eyrarbakka.Siggeir Ingólfsson skrúðgöngustjóri leiðir hópinn að kjötkötlunum þar sem íbúar og fyrirtæki á Eyrarbakka bjóða uppá ekta íslenska kjötsúpu fyrir alla. Bændur af Bakkanum koma dýrunum fyrir á Vesturbúðahólnum. Heyvagninn verður á ferðinni og býður salibunu í mjúkri töðunni.

11.00 -18.00  Húsið og Sjóminjasafnið. – frír aðgangur       .

Rauða húsið verður með aldamótatilboð á mat og drykk.

11.00-17.00 Laugabúð. –  KAUPMAÐURINN sjálfur  við afgreiðslustörf á aldamótahátíðinni.

12.10 Setning Sr. Sveinn Valgeirsson blessar lýðinn, og býður fólki að gjöra svo vel að ganga til Kjötsúpu.

13.00 Pútnahúsið opnar á Stað.
Félag áhugafólks um haughænur býður ykkur velkomin að sjá allt það fegursta í hænsfuglaheiminum. Afhentir verða kjörseðlar fyrir fegurðarsamkeppni hænsnfugla sem fram fer síðdegis. Markaður einig í gangi.

13.00 – 16.00  Sýning á Stað „FRÁ instamatic til instagram“  Þegar myndavélin varð almenningseign…..

13.00 Sögur af Vesturförum – Sögustund með Hildi Hákonardóttir á loftinu í Bygðasafninu.

13.30. Hænsnabingó á planinu við Stað. Veglegir vinningar.

14:00  Sjóminjasafnið. Ratleikur sem teygir sig um safnasvæðið.

13.00 – 18.00 Beitningaskúrinn opinn.

13.00 -17.00 Eyrarbakkakirkja verður opin. Leiðsögn. Eyrarbakkabrúin verður kynnt á heila tímanum .

15.00 Fiskverkun um aldamótin 1900 á planinu við Stað.
Sett verður á svið fiskverkun fyrri tíðar og öðru sjávarfangi bæði til átu ,sem söluvöru  og einig til upphitunar á þeim húsakinnum sem hér voru og tíðkuðust um aldamótin 1900.

16.30 .Heyannir með fyrritímaverkfærum og bundin verður sáta.
Getraun í gangi:  Hvað er ein VÆTT mörg kíló?? Vegleg verðlaun frá Vinum alþíðunnar.
Engjakaffi í boði Friðsældar og Kvenfélags Eyrarbakka.

17.00 Pútnahúsið blæs til brúðkaups á Stað.Gefin verða saman í hjónaband sigurvegarar í fegurðarsamkeppni hænsfugla sem fram fer á Stað.
Þeir félagar Siggeir Ingólfsson og Valgeir Guðjónsson eða GEIRARNIR Á BAKKANUM  gefa þau saman í borgaralegt hænsnaband með spili og söng.

18.00 Brúðkaupsveislan herleg hefst á Stað. Opið grill fyrir alla þar sem grillaður verður svín,kindur, kanínur og fleira góðgæti.

22.00 – 02.00 Aldamótadansleikur í Rauða Húsinu. Hljómsveit húsins leikur ljúfar ballöður fram eftir nóttu.

Sjá nánari dagskrá og viðburðatilkynningar á: www.menningarstadur.123.is

www.husid.com, www.raudahusid.is, www.eyrarbakki.is og á www.arborg.is.

 

 

Húsið á EyrarbakkaÍ sumar eru 250 ár liðin síðan Húsið á Eyrarbakka var byggt. Af því tilefni boðar Byggðasafn Árnesinga til hátíðarsamkomu í Húsinu þann 9. ágúst næstkomandi og hefst kl. 14. Húsið var byggt af Jens Lassen kaupmanni á Eyrarbakka sem íbúðarhús fyrir sig og starfsmenn sína og var kaupmannssetur til 1927. Byggðasafn Árnesinga hefur haft það til sýnis undanfarin 20 ár. Nánar verður sagt frá hátíðinni þegar nær dregur.

 

2906_tonleikar1

Vinirnir og söngvaskáldin Svavar Knútur og Kristjana Stefáns koma saman á miðsumarstónleikum í Eyrarbakkakirkju, miðvikudaginn 1. júlí nk. og eiga saman dásamlega dúettastund. Sérstakir gestir þeirra verða söngvaskáldin og hjónin UniJon.

Kristjana og Svavar Knútur hafa undanfarin ár vakið verðskuldaða athygli fyrir stórskemmtileg dúettakvöld. Þar ríkir bæði gleði og angurværð ásamt örlitlum fíflagangi og bera þau vinirnir á borð fjölbreytta dagskrá dúetta, sem rúmar allt frá Abba til Dolly Parton með viðkomu hjá Nick Cave og Páli Ísólfssyni, auk frumsaminna laga og hinna ýmsu gleði- og tregabomba.

Tónleikarnir hefjast klukkan 20.00 og er aðgangseyrir 2.500 kr. Frítt er fyrir börn.

Laugardaginn 27. júní heldur Bjartmar Guðlaugsson tónleika í Óðinshúsi á Eyrarbakka. Bjartmar mun fara létt yfir tónlistarsögu sína, flytja helstu smelli og segja nokkrar skemmtisögur tengda þeim. Þarna munu mæta kunningjar eins og Fúll á móti, Sumarliði, Mamman með beyglaða munninn og þeirra nánasta fólk. Búast má við skemmtilegum tónleikum.

Aðgangseyrir er 2.500 kr. Tónleikarnir hefjast kl. 21:00 og standa í tvær klst. með 15 mínútna hléi.

UniJon eða Unnur Arndísardóttir og Jón Tryggvi Unnarsson héldu um 60 tónleika í þá heimili sínu Merkigili á Eyrarbakka á árunum 2010 til 2013. Náðu þau upp einstakri stemningu með það að leiðarljósi að búa til þægilegan vettvang fyrir tónlistarmenn að fremja seið sinn. Þau ætla nú að halda áfram þeirri stemningu í Óðinshúsi á Eyrarbakka í sumar.

Óðinshús var byggt 1913 af Kaupfélaginu Heklu á Eyrarbakka sem pakkhús og er eina pakkhúsið á Eyrarbakka frá þessum tíma og eitt elsta steinsteypta hús á landinu.
Húsið er í eigu Sverris Geirmundarsonar og hefur hann staðið fyrir myndlistarsýningum með hléum frá árinu 2002. Tilfinningin fyrir sögu hússins, tímans tönn, ásamt myndlistinni er áþreifanleg í salnum og því má búast við ótrúlegri upplifun fyrir öll skilningarvitin.

Laugardaginn 27.júní kl 21:00.

Bjartmar Guðlaugsson tónlistarmaður

Bjartmar Guðlaugsson tónlistarmaður

UniJon
www.unijon.com
unijon@unijon.com
s. 696-5867

JÓNSMESSUHÁTÍÐIN Á EYRARBAKKA 20. JÚNÍ 2015

09:00 Fánar dregnir að húni við upphaf 16. Jónsmessuhátíðarinnar á Bakkanum
Eyrbekkingar flagga íslenska fánanum eða Bakkafánanum og ganga frá skreytingum í hverfalitunum.
09:00-22:00 Bakkinn
Verslunin verður opin allan daginn og langt fram á kvöld – kíkið við í spjall og börnin fá skrímslaís um miðbik dagsins.
10:30-17:00 Laugabúð í Sjónarhóli
Sagan er allt umlykjandi í þessu sögufræga húsi, þar sem Guðlaugur Pálsson rak verslun í 74 ár frá 1919 til 1993, þegar hann féll frá tæplega 98 ára gamall. Nýjar vörur og gestakaupmenn frá höfuðborginni í aðalhlutverki.
11:00-18:00 Byggðasafn Árnesinga í Húsinu og Sjóminjasafnið á Eyrarbakka
Ókeypis aðgangur á hátíðinni.
Fjölbreyttar sýningar og sagan við hvert fótmál. Ávallt heitt á könnunni. Í borðstofu Hússins er sýningin Konur, skúr og karl sem fjallar um 19. aldar ljósmyndara á Stokkseyri og í Assistentahúsinu er sýningin Vesturfarar. Þar segir frá upphafi þeirra merku fólksflutninga Íslendingasögunnar sem hófust á Eyrarbakka. Sjóminjasafnið er opið uppá gátt.
11:00 Unga kynslóðin skemmtir sér
Hinn sívinsæli Brúðubíll kemur í heimsókn að Sjóminjasafninu. Og nú er aldeilis ys og þys í Brúðubílnum. Söngur, sögur og leikrit. Björgunarsveitin verður svo með eitthvað frábært til afþreyingar og kannski verður eitthvað gott í gogginn.
11:00 Bakkastofa og Húsið
Sýnishorn af Eyrarbakkabrúnni sem er samstarfsverkefni Hússins á Eyrarbakka og Bakkastofu við Eyrargötu.
11:30-22:00 Rauða húsið á Eyrarbakka
Þriggja rétta Jónsmessutilboð allan daginn – sumarsalat, lambafillet og súkkulaðikaka.
Tilboð á pizzu og bjór eða kaffi og kökum niðri á Rauða kaffihúsinu í kjallaranum.
12:00-14:00 Heimboð í Garðshorn
Elínbjörg Ingólfsdóttir og Vigfús Markússon bjóða í Jónsmessusúpu. Kl. 12:30 má búast við óvæntri uppákomu.
Ása Magnea, nýútskrifaður ljósmyndari, verður með ljósmyndasýninguna Sjómenn frá Eyrarbakka og önnur verk tengd Eyrarbakka á pallinum. Það gerist alltaf eitthvað spennandi í Garðshorni.
13:00-17:00 Sjávarfang á Sölvabakka
Í vesturenda Frystihússins er húsnæði sem nefnist Sölvabakki og þar er margt braukað, sem forvitnilegt er að heyra og sjá. Boðið verður upp á sjávarfang og sagðar sannar veiðisögur af Geira og áhöfninni á Sölva ÁR150.
13:30-15:00 Bakki Hostel
Nýlega var opnað glæsilegt farfuglaheimili í Frystihúsinu. Öllum boðið að skoða.
14:00-16:00 Heimboð að Hvoli við Eyrargötu og í Konubókastofu í Blátúni við Túngötu
Hulda Ólafsdóttir á Hvoli býður gestum í heimsókn til sín í gamla sýslumanns- og prestssetrið, sem byggt var 1914.
Í Konubókastofu í Blátúni verður opið og tekið á móti gestum, eins og sögupersónum í Dalalífi Guðrúnar frá Lundi.
15:30 Konur, skúr og karl – Ljósmyndarar á Stokkseyri 1896-1899
Leiðsögn um sumarsýningu byggðasafnsins í Húsinu, sem veitir innsýn í stöðu kvenna í heimi ljósmyndunar.
16:00 Heimsókn frá vinabænum Þorlákshöfn í Eyrarbakkakirkju
Aðgangur ókeypis, en frjáls framlög.
Tónar og Trix er tónlistarhópur eldri borgara í Ölfusinu, sem hefur mikla ánægju af því að syngja saman og spila á hljóðfæri. Þau hafa slegið í gegn að undanförnu með nýju plötunni sinni og ætla að leyfa okkur að heyra brot af því besta undir stjórn Ásu Berglindar Hjálmarsdóttur.
16:00 Sumartónleikar í Bakkastofu
Aðgangseyrir 1.500 kr. – miðasala við innganginn.
Valgeir Guðjónsson, sannkallaður stuðmaður, heldur sumartónleika í Bakkastofu við Eyrargötu.17:00 Íslandsmeistaramótið í koddaslag
Björgunarsveitin stendur fyrir þriðja Íslandsmeistaramótinu í koddaslag á bryggjunni á Eyrarbakka. Skráning hefst á staðnum kl. 16:45 – aldurstakmark, en allir velkomnir til þess að fylgjast með.
17:00 Bakkastofa og Húsið
Sýnishorn af Eyrarbakkabrúnni sem er samstarfsverkefni Hússins á Eyrarbakka og Bakkastofu við Eyragötu.
20:15 Raddbandakórinn ræskir sig í Húsinu
Heimir Guðmundsson, sem fæddur er í Húsinu árið 1944, leiðir fjöldasöng í stássstofunni og spilar á elsta píanó á Suðurlandi. Skólasöngvarnir og fleiri kvæðakver dregin fram og hver syngur með sínu nefi.
22:00 Jónsmessubrenna
Jónsmessubrenna í fjörunni vestan við Eyrarbakkaþorp. Ingibjörg Vigfúsdóttir, Flóamaður og fyrrum Eyrbekkingur, flytur stutt ávarp. Hið frábæra Bakkaband heldur svo uppi fjörinu meðan menn endast.
23:00 Jónsmessugaman á Hótel Bakka í Frystihúsinu
Aðgangseyrir 1.000 kr. – miðasala við innganginn
Þeir sem enn hafa kraftinn hittast og skemmta sér. Tilboð á barnum. Aldurstakmark er 18 ár.

 

Tjaldsvæðið vestan þorpsins, sem Björgunarsveitin Björg rekur, hefur verið stækkað
ÖLL ÞÆGINDI OG NÓG PLÁSS.

Upplýsingamiðstöð ferðamanna á Stað er opin frá kl. 7:30 til 18:00.

Jónsmessuhátíðin er styrkt af Sveitarfélaginu Árborg

Auglýst eftir presti til að sinna afleysingaþjónustu í Eyrarbakkaprestakalli

hus_vefur070a

Reykjavík 3. júní 2015

Biskup Íslands auglýsir eftir presti til að sinna afleysingaþjónustu í Eyrarbakkaprestakalli, Suðurprófastsdæmi. Um tímabundna setningu í embættið er að ræða, frá og með 1. júlí 2015 til 30. júní 2016.

Eyrarbakkaprestakall er á samstarfssvæði með Hveragerðisprestakalli, Selfossprestakalli og Þorlákshafnarprestakalli. Íbúar prestakallsins eru rúmlega eitt þúsund.

Umsækjendur geri skriflega grein fyrir persónulegum upplýsingum, menntun, starfsferli, samskiptahæfileikum og öðru því sem þeir óska eftir að taka fram. Staðfest afrit af prófskírteini skal fylgja umsókn svo og upplýsingar um starfsþjálfun.

Umsækjendum ber að fylla út eyðublað þar sem biskupi er heimilaður aðgangur að sakaskrá viðkomandi umsækjanda. Skal undirrituð heimild þar um fylgja umsókninni. Eyðublaðið er að finna á vef kirkjunnar: https://innri.kirkjan.is/pdf/samthykki-fyrir-oflun-upplysinga-ur-sakaskra.pdf

Um laun og önnur kjör fer samkvæmt ákvörðun kjararáðs.

Nánari upplýsingar um prestakallið eru veittar hjá prófasti Suðurprófastsdæmis og á Biskupsstofu.

Umsóknarfrestur rennur út 19. júní 2015.

Umsóknir sendist biskupi Íslands, Biskupsstofu, Laugavegi 31, 101 Reykjavík.

Vísað er til laga um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla nr. 10/2008.

F.h. biskups Íslands

Sveinbjörg Pálsdóttir

mkh_090805_2263

Aðalsafnaðarfundur Eyrarbakkasóknar verður haldinn miðvikudaginn 10. júní kl. 20:00 í Eyrarbakkakirkju.

Dagskrá:

Venjuleg aðalfundarstörf.

Að loknum aðalfundarstörfum verður umræða um tillögu biskupsstofu um sameiningu Eyrarbakkaprestakalls og Þorlákshafnarprestakalls.

Allir eru hjartanlega velkomnir og er safnaðarfólk hvatt til þess að mæta.

Sóknarnefnd Eyrarbakkakirkju.