Háeyri (1) liggur að Hraunslandi og er næst austasta jörð í Eyrarbakkahreppi. Háeyri er ekki landnámsjörð, en hefur þó byggst snemma, en lítið er vitað um jörðina fyrstu aldirnar, þó er getið um kirkju þar á 13. öld, sem varla mun þó hafa staðið þar lengi og tæplega verið meira en lítil hálfkirkja. Þá mun hafa verið nokkur togstreita milli Ögmundar Pálssonar, Skálholtsbiskup og konungs um yfirráð jarðarinnar fyrir 1540. (Saga Eyrarbakka Vigfús Guðmundsson 1. h. bls. 131).

Í Jarðabókinni 1708 er jörðin talin 15 hundruð, og getið er um bænahús, sem byggt hafi verið fyrir meira en 60 árum. Jörðinni fylgja 8 hjáleigur, Steinskot, Mundakot, Sölkutóft, Neistakot, Simbakot, Nýibær, Litla-Háeyri, Eyjólfskot og ennfremur er getið um tvö tómthús í eyði, Einkot og Hallsstruntu. Um jörðina er sagt að tún og engi hljóti stórskaða af sjávarflæðun. Vatnsból þrjóti í þurrkum og frosti, en stundum falli yfir þau sjór.

Sölvatekja mun hafa verið mestu hlunnindi jarðarinnar um margar aldir eða allt fram á 20. öld, munu þau oft hafa verið geysimikil t.d. eru þau árið 1830 talin 180 vættir eða 7200 kg og metin 15 hundruð eða eins og öll jörðin 1708. Enda voru nokkur bestu sölvaskerin, sem enginn mátti nytja nema Háeyrarbóndinn, svo sem Háeyrarþúfur. Nafn sitt mun jörðin hafa fengið af háu eyrinni er bærinn stóð á, enda mun hann aldrei hafa verið fluttur af henni, uns hún lagðist niður sem sérstök jörð. Háeyrarbærinn stóð þar sem nú er hús Jóhanns Loftssonar, sem Anton Halldórsson byggði. Á Háeyri var oft myndarbúskapur, nafnkenndastur allra búenda mun Þorleifur Kolbeinsson (1841-1875), eru sumar sagnir um hann æði þjóðsögukenndar. Síðasti ábúandi jarðarinnar var tengdasonur hans Guðmundur Ísleifsson er var til ársins 1931. Landið er mjög flatlent og má segja að það sé allt marflatt. Fremst er sandbakkinn, sem Sjóvarnargarðurinn stendur á með görðum fyrir ofan hann og framan þá taka við tún með nokkrum flóðum, að austanverðu er svo smá hraun, en síðan víðáttumiklar mýrar. Landamerki Háeyrar eru að austan sjónhending frá Markakletti í sjó framan í Smalaskála, er áður getur, að norðan er svo Markaskurður frá Smalaskála til Efri-Einbúa, en að vestan sjónhending úr Efri-Einbúa um húsin Mörk og Merkigarð á Eyrarbakka.

Upplýsingar um örnefni í Háeyrarlandi eru eftir þeim Sigurði og Jóni Guðjónssonum frá Litlu-Háeyri og Guðmundi Jónssyni frá Steinskoti.

Skammt fyrir vestan landamörk Háeyrar og Hrauns, rétt við Sjóvarnargarðinn eru grjóttættur eftir tómthús, sem hét Háeyrarvellir (2). Upp af Sjóvarnargarðinum eru slétt tún, sem ýmsir nytja, nefnast þau einu nafni Flatir (3), en norður af þeim er vatn, sem heitir Ytra-Litlahraunsvatn (4), það er að mestu í Háeyrarlandi, halda sumir að áður hafi Litla-Hraunsvötnin verið eitt vatn og einkennilegt er að þau skuli bæði vera kennd við Litla-Hraun.

Í suðvesturhorni Ytra-Litlahraunsvatns er grænt móabarð áfast við land, það var áður hólmi í vatninu, sem nefndist Kríuhólmi (5). Úr vatninu rann áður smálækur í Hópið rétt fyrir sunnan Vinnuhælið, nefndist hann Nesvað (6), en úr Hópinu rann áður smáá, sem hét Háeyrará (7), en sjórinn hefur fyrir löngu fyllt hana af möl og sandi. Steindór Finnsson sýslumaður skipar svo fyrir 24. júlí 1788, að allir búendur, sem óhindraðir eru í Hrauns- og Háeyrarlandi skuli moka fram Háeyrará. Það mun hafa dugað þá í nokkurn tíma, en nú er áin Iöngu þorrin og uppfyllt, en lónið í fjörunni, sem hún rann í heitir enn Háeyrará eftir ánni. Landið sunnan Nesvaðs og austan Háeyrar var nefnt Nes (8).

Fyrir norðvestan Ytra-Litlahraunsvatn, var einu sinni kot, sem nefndist Fæla (9), seinna var þar fjárrétt langan tíma. Síðar var byrjað að byggja þar sjúkrahús, en endaði svo með því að verða Vinnuhælið á Litla-Hrauni. Lengi lá illt orð á Fælu, því þar áttu magnaðar afturgöngur að halda sig og er sagt að ein slík hafi villt svo um og hrakið smala frá Mundakoti að hann varð úti í Fælu. Varð hann var við daginn eftir, sem var sunnudagur, er fólk af Eyrarbakka reið til kirkju á Stokkseyri, en svo var þá af honum dregið að hann gat á engan hátt gert vart við sig, en næstu nótt hrakti svo afturgangan hann niður í Mundskotslendingu, þar sem hann lét lífið. (Þjóðsögur Guðna Jónssonar 5. h. bls. 48).

Skammt norðaustur af Vinnuhælinu, rennur afrennsli af mýrunum undir steinbrú, sem er á þjóðveginum, heitir það Hraunamannalækur (10), hann greinist í tvær afrennsliskeldur neðar og nefnist það Krókar (11).

Norðan við þjóðveginn, rétt hjá Vinnuhælinu, er strýtumyndaður hóll, sem heitir Oddstekkur (12), norðaustur af honum er annar hóll nafnlaus, en norðvestur af þeim hól er lág hæð, sem heitir Adólfsstekkur (13), kenndur við Adólf Petersen bónda og hreppstjóra í Steinskoti 1833-59. Hann fluttist frá Steinskoti til Stokkseyrar og var fyrst hreppstjóri með Jóni ríka frá Móhúsum, en síðar með Þorleifi ríka á Háeyri. Nú sést aðeins móta fyrir fjárréttinni, sem Adólf hreppstjóri hafði þarna.

Norður af Adólfsstekk, skammt suðaustur frá Mjaltaseli, er opið flóð kennt við selin, nefnist það Seljaflóð (14), að þessu flóði liggja margar keldur, sú sem er syðst að vestan heitir Fremri-Kelda (15), en sú sem liggur frá Mjaltaseli úr norðvestri, heitir Seljakelda (16), en úr austri rennur í það mesta afrennslið, sem er misdjúpt og krókótt, nefnist það Jónslækur (17). Norðaustur af Jónslæk, þar sem hann er dýpstur, er nokkuð stórt svæði með mörgum smá hólum, heitir það Grafhólar (18). -Efst í Grafhólum er langt flóð og er mikið af mógröfum beggja vegna við það, nefnist það Langaflóð (19). Í norðvestur frá Langaflóði, skammt suður af Móskurði, er nokkuð hár hóll með flóði fyrir sunnan sig, heitir hann Steinskotsborg (20). Vestur af Langaflóði er nafnlaust flóð nokkuð djúpt og tveir hólar við það að norðvestan, vestur af því flóði er hóll nokkuð stór um sig með laut í miðju, hann heitir Grænhóll (21), rétt suðaustan við hann er lítið flóð kennt við hólinn, heitir það Grænhólsflóð (22).

Skammt suður af Grænhól er hæðarsvæði nokkuð stórt um sig og markar fyrir mörgum smá stekkjarhólfum í því, en suðvestast í hæðinni sést fyrir fjárrétt, hæð þessi heitir Mjaltasel (23), er nafnið komið af því, að þangað var farið til mjalta frá grasnytjabýlunum á austur Bakkanum fyrir aldamótin 1900. Norðvestur af Mjaltaseli er önnur hæð, nokkuð stór um sig og markar fyrir tveimur stekkjarhólfum í henni, heitir hún Snorrasel (24). Enginn veit nú við hvaða Snorra hún er kennd, en þar mun hafa verið sel frá Bakkanum fyrr á tímum. Suðvestur af Mjaltaseli, rétt austan við Álfstéttina eru tveir lágir hólar, sem heita Prestshólar (25). Nafn það er svo til komið, að einu sinni er Kaupmannsfólkið á Garði var að skemmta sér á gæðingum sínum með sóknarprestinum, sr. Ingvari Nikulássyni, þá áði það í þessum hólum, en er það fór skildi það eftir flösku í hólnum með miða í, en á hann var skrifað. „Hér eftir heita þessir hólar Prestshólar”, en sr. Ingvar hafði oft gengið á þessa hóla og er ekki óliklegt, að hann hafi getið þess við meðreiðarfólk sitt. Fyrir vestan og ofan Vinnuhælið norður af Steinskoti er Steinskotshraun (26), það er grasigróið og að mestu komið í jörð.

Norðaustur í túninu á Steinskoti er smá grjóthóll, sem kallast Hulduhóll (27). Í honum á að búa huldufólk, en vestast í túninu er smá hæð, en var áður grjóthóll, en hefur verið rifið úr honum og hann sléttaður út, en hóllinn hét Orrustuhóll (28). Munnmæli segja að þar hafi tvær kerlingar háð langa og harða rimmu, sem þær hafi gengið bláar og blóðugar frá, hafi sú orrusta lengi verið í minnum höfð og hóllinn borið nafn af henni. Í Jarðabókinni 1708 er Steinskot (29) talið fyrsta hjáleiga Háeyrar og er með tveimur ábúendum. Rétt sunnan við Steinskot er tjörn, sem heitir Steinskotshóp (30), en daglega nefnt Hóp, það var áður miklu stærra og hefur þorrið mjög ört á siðustu árum, svo að það er nú alveg að hverfa. Áður veiddist í því silungur. Austan við Hópið er Þykkvaflöt (31), en við suðvesturhornið er Stakkstæðisflöt (32), mun hún hafa fengið nafn af því, að þar var oft þurrkaður fiskur.

3-400 metra fyrir vestan Steinskot er næsta grasnytjabýli Háeyrar, heitir það Mundakot (33), voru þar einnig tveir ábúendur 1708. Í túninu á Mundakoti, þar sem það þrengist mest, er staður sem heitir Tívolí (34), mun nafnið svo tiI komið, að maður nefndur Guðmundur klárt, ætlaði að byggja sér þar bæ, en byggingin varð aldrei annað en tóftirnar einar en gárungarnir kölluðu þær Tívolí, eftir alþekktum skemmtistað í Danaveldi, seinna sléttaði svo Jón Einarsson hreppstjóri í Mundakoti þær út.

Fyrir norðan túnið í Mundakoti er nokkuð löng dæla eða flóð, sem liggur frá norðvestri til suðausturs, heitir það Álfsstéttarflóð (35), þegar mikið vatn er í því rennur afrennsli úr því í Hópið. Nafn sitt hefur það fengið af gömlum vegi sem liggur yfir það, sem heitir Álfsstétt (36). Álfsstéttin mun einn elsti vegur í Árnessýslu um eða yfir 100 ára.

Í gömlum hreppsreikningum Stokkseyrarhrepps, sem þá náði yfir bæði þorpin, er þess getið, að fé hafi verið lagt til vegabóta árið 1852, sem trúlega er til Álfstéttarinnar, sem af fróðum mönnum er talið elst vega í hreppnum. Álfsstéttin er kennd við Álf Jónsson, sem lengi bjó í Nýjabæ, föður Halldórs í Simbakoti, föður Þorleifs er nú býr í Einkofa á Eyrarbakka. Álfsstéttin er hlaðin grjótvegur yfir mýrina, keldur hennar og fen upp að Móskurði, hún var mikil samgöngubót mönnum og skepnun, um hana fór allur heyflutningur af Háeyrarmýrinni. Trúlega mun Háeyrarbóndinn, sem þá var Þorleifur ríki Kolbeinsson hreppstjóri Stokkseyrarhrepps, hafa verið aðal hvatamaður þessarar vegalagningar, þó ekki viti ég um sönnur á því. Álfsstéttin er orðin æði fornleg og grjótið stendur víða upp úr henni.

Örskammt norður af Álfsstéttarflóði, fast við Álfsstéttina að austan, er grasmikil grjótþúfa, nokkru hærri en þýfið í kring, heitir hún Blesaþúfa (37), kennd við hryssu Guðjóns Jónssonar á Litlu-Háeyri, er stóð við hana langtímum saman og vildi hvergi annars staðar ganga en hjá þúfunni, þó reynt væri að teyma hana aðra leið. Spölkorn norður af Álfsstéttarflóði er lágur hóll, er heitir Mundakotsstekkur (38), vestan við stekkinn er afrennslisrás af mýrunum, sem strýður straumur rann oft um, heitir hún Stekkjarrás (39), yfir þessa rás var farið á grjótvaði, sem nefnist Stekkjarvað (40). Stekkjarrásin rennur fram úr langri og krókóttri dælu, sem liggur til norðurs og heitir Jörundarveita (41), en vestan við suðurenda hennar, örskammt norðvestur af Mundastekk er annar stekkur eða hóll, sem heitir Háeyrarstekkur (42), markar greinilega fyrir þremur stekkjarhólfum í stekknum svo og aðalréttinni.

Svo sem 100-200 metra norðvestur af Mundakoti er forna býlið Sölkutóft (43), en um 50 metra norður af henni er Einkofi (44), sem getið er sem þurrabúðar 1708, en hefur orðið grasnytjabýli stuttu seinna. Eru bæði býlin laus við aðalhúsaþyrpinguna í þorpinu. Um 200 metra suður af Sölkutóft er gamla grasnytjabýlið Nýibær (45) fast við götuna, en svo er Litla-Háeyri (46) næsta hús fyrir vestan Sölkutóft og stendur einna hæst. Á Litlu-Háeyri voru fjórir ábúendur 1708 og enn er vel búið. Í túninu á Litlu-Háeyri er hóll, sem heitir Lambhúshóll (47), en grjótgarðurinn, sem er á milli túnanna á Litlu-Háeyri og Háeyri, hét áður Háigarður (48), en nú er hann mjög lágur og hruninn.

Í norður frá Litlu-Háeyri, vestur af Sölkutóft eru tóftir af gamla grasnytjabýlinu Neistakoti (49), sem getið er sem hjáleigu frá Háeyri 1708. Það fór í eyði um 1940. Á milli Neistakots og Einkofa er Iágur hóll, sem heitir Þvottahóll (50), en í norður frá Neistakotstóftum er lágur grjóthóll, fast austan við garðinn, sem er á milli Simbakots og Neistakots, heitir hann Simbakotshóll (51). Um Simbakotshól er sú þjóðsaga, að strákur einn hafi tekið upp á þeim óvanda, að reka staf svo langt sem hann gat inn í hraunglufu, sem var á hólnum, en nóttina eftir vitjaði álfkona móður sveinsins í draumi og lagði fast að henni að vanda svo um við son sinn, að hann hætti þessum óvanda, gerði hún það eftir megni, en kom þó fyrir ekki, því strákur færist heldur í aukana, gengur svo þrisvar sinnum, en í hið síðasta sinn er álfkonan kom til móðurinnar er hún reiðilegust og segir, að nú hafi svo illa til tekist, að sonur hennar hafi meitt barn sitt með stafnum og skuli hann fyrir það aldrei ná þeim þroska, sem honum sé ætlaður og bera alla æfi sína merki heimsku sinnar og óhlýðni. Hermir þjóðsagan svo frá, að strákur hafi náð Iitlum þroska, orðið haltur og bægslaður og hinn mesti ólánsmaður. Milli Neistakots og Simbakots, vestan við garðinn, er Simbakotsdæl (52), steinsnar frá Simbakoti og sjást enn steinarnir, sem sokkaplöggin voru þvegin á. Vestan við dæluna er svo Simbakot (53), sem sagt er að einu sinni hafi verið 11 bæir, en 1708 eru þar tveir bændur, nú eru þar mjög miklar tættur og einn hrörlegur kofi, sem ný flutt er úr.

Austarlega í túninu á Háeyri er hæðarbali, sem heitir Harðhaus (54), mun hann löngum hafa þótt harður undir tönn, nyrst í sama túni er smá hóll, sem heitir Gunnhildarhóll (55), hann á að vera huldufólkshóll og er aldrei sleginn.

Norður af Simbakoti er flóð, sem heitir Folaldaflóð (56), hefur það þorrið mjög á seinni tímum. Milli Folaldaflóðs og Álfsstéttar er kelda, sem heitir Steinkelda (57), fékk hún nafn af steinbrú, sem lá yfir hana. Vestur og upp af Folaldaflóði eru Háeyrarkeldur (58), sem voru blautar forarkeldur með móarimum á milli, en mýrin sunnan Móskurðar er kölluð Mómýri (59), er hún öll sundurgrafin af mógröfum, því mótak var þar hjá Eyrbekkingum upp að Móskurði, en ekki fyrir ofan hann, dregur skurðurinn og mýrin nafn af þeim. Öll mýrin ofan túnanna hefur þornað mjög mikið, vegna ótal uppþurrkunarskurða, sem um hana hafa verið grafnir og nú komin tún, þar sem áður voru keldur.

Norður af Háeyrarstekk, beint vestur af Snorraseli, rétt fyrir vestan Álfsstéttina er strýtumyndaður hóll, sem heitir Mediuhóll (60), fyrir neðan hann er stararflóð, sem heitir Mediuflóð (61). Vestan við Mediuflóð er afrennsliskelda í flóðið, yfir hana er grjótvað, sem heitir Mediuvað (62). Þetta eru sérkennileg nöfn, sem gaman hefði verið að vita hvernig eru tilkomin, en því miður hefur mér ekki tekist að fá neina skýringu á þeim. Á hólnum og flóðinu var mikil huldufólkstrú, t.d. segir ein þjóðsagan, að nýgiftur bóndi frá Steinskoti, hafi spýtt frá sér í allar áttir yfir þeim bábiljum og kerlingaþvaðri er af því gengu, að ekki mætti slá flóðið og ýmsum öðrum álögum staðanna og vísað því öllu norður og niður, haldið svo einn góðan veðurdag til flóðsins með orf og ljá um öxl og slegið flóðið, en við sláttinn hafi hann skyndilega veikst og dregist heim með veikum burðum og síðan aldrei meir á fætur stigið. Norður af Mediuhól, rétt upp við Móskurð er nokkuð stór hóll, sem heitir Mundakotsborg (63). Eru þá talin örnefni upp að Móskurði, vestur að þeim vegi er Háeyrarvegur (64) nefnist, fremsti hluti þess vegar er byggður fyrir aldamót og stóð Guðmundur Ísleifsson fyrir því.

Í Jarðabókinni 1708 er nefnt grasnytjabýlið Eyjólfskot (65), sem áttunda og síðasta hjáleiga Háeyrar, en hjáleigurnar eru taldar frá austri til vesturs, Eyjólfskot mun því hafa verið vestast þeirra. Nafnið Eyjólfskot mun hafa breytst í Eyvakot, sem allir Eyrbekkingar kannast við, þó ekkert hús sé með því nafni nú. Eyvakot stóð á hæðarbala fyrir norðan, þar sem húsið Ásheimar er nú. Í norður frá Eyvakoti, rétt við Háeyrarmörk er dæla, sem heitir Hjalladæl (66), norðan og austanvert við dæluna er hraunsvæði lítið, sem heitir Hjallahraun [67), munu nöfnin komin af því, að fiskhjallar hafa verið í hrauninu áður fyrr. Í hrauni þessu er grjóthóll grasivaxinn, sem nú er alltaf nefndur Hjallhóll, en eldra heiti hans er Skollhóll (68). -Um skollhól er sú þjóðsaga, að strákur frá Eyvakoti, hafi haft þar í frammi ærsl mikil, þess vegna hafi álfkona komið til móður sveinsins í draumi og beðið móðurina, sem hét Guðrún, að sjá um að sonur hennar legði niður ferðir sínar á hólinn, því annars muni hann sjálfa sig fyrir hitta. Vandar nú Guðrún um við son sinn og leggur ríkt á við hann að koma aldrei framar á Skollhól. Ekki er þess getið að hann héti móður sinni neinu góðu um það, en skamma stund mundi hann skipan hennar, því fám dögum síðar fannst hann dauður norður á Skollhól og var nálega brotið í honum hvert bein. (Þjóðsögur Jóns Árnasonar 1. h. bls. 34).

Upp af Skollhól vestan vegarins var Háeyrarveita (69), þar eru nú tún. Við bugðu á Háeyrarveginum, fast við hann að vestan er lágur grasivaxinn hóll, sem heitir Þóroddarstekkur (70), mun þar hafa verið fjárstekkur, en enginn veit nú við hvaða Þórodd hann er kenndur.

Nú munu tekin örnefni ofan Móskurðar. Efst í mörkum Eyrarbakka- og Sandvíkurhrepps er skurður, sem heitir Markaskurður (71). Milli Markaskurðar og Móskurðar er Háeyrarmýri (72), henni var skipt í engjaskákir til grasnytjabýlanna og liggja frá suðri til norðurs. Austastar voru Steinskotsskákir (73), þær voru tvær, þá Nýjabæjarskák (74), fyrir vestan hana voru Mundakotsskákir (75) tvær, þá Litlu-Háeyrarskákir (76), sem líka voru tvær, þá Sölkutóftarskák (77), fyrir vestan hana Einkofaskák (78), þá Simbakotsskák (79) og vestust var Neistakotsskák (80).

Rétt fyrir ofan Móskurð, austast á Háeyrarmýrinni, rétt við Hraunsmörk er hóll, sem heitir Litla-Hraunsborg (81), gömul fjárborg frá Litla-Hrauni, hún sýnir glöggt, að gömlu mennirnir fóru ekki alltaf eftir beinni markalínu. Skammt norðvestur af Litla-Hraunsborg er gömul fjárrétt, sem heitir Fríðusel (82), enginn veit nú hvernig þetta örnefni er til komið. Nokkuð langt vestur af Fríðuseli, skammt upp af Móskurði er lágur hóll, sem heitir Forræðishóll (83), fyrir suðaustan hólinn er flóð, sem heitir Foræðisflóð (84), munu nöfnin af því dregin, að mjög er blautt þarna og illt umferðar. Suðvestur úr Forræðisflóði liggur einn elzti skurður á Eyrarbakka og sker flóðið í sundur, heitir hann Forræðisskurður (85), er hann nú víða fallin saman, en frá Forræðisflóði upp að Blakktjörnum heitir hann Gamliskurður (86).

Efst og austast í Háeyrarlandi er Vestri-Blakktjörn (87). Gömul munnmæli eru um að í henni sé nykur annað hvert ár, en hitt árið sé hann í Traðarholtsflóði. Suðvestur af Blakktjörnum, vestan þjóðvegar, en þó ofarlega og austarlega á Háeyrarmýrinni, er smá þúst, sem heitir Þorleifstóft (88), kennd við Þorleif ríka frá Háeyri, sem hafði þar fjárhús. Frá fjárhúsunum sem þarna stóðu átti smalinn að hafa farið sem úti varð við Fælu og fyrr getur. -Seinna voru þessi í fjárhús flutt mikið vestar eða næstum því að Skúmsstaðamörkum ofarlega á mýrinni, tætturnar eftir þau eru nefnd Háeyrarhús (89).

Í norðvesturhorni Háeyrar er strýtumyndaður grjóthóll, sem heitir Efri-Einbúi (90), hann er hornmark 4 jarða, Háeyrar, Skúmsstaða, Kaldaðarness og Sandvíkur og hreppamark Eyrarbakka- og Sandvíkurhreppa. Skammt suðaustur af honum er Kaldaðarnesskjólgarður (91), krossgarður hlaðinn úr grjóti til hlífðar fyrir skepnur í illviðrum og sögulegur að því leyti, að hann er hlaðinn frá Kaldaðarnesi og sýnt að Kaldaðarnesbóndinn hefur viljað fara út í það ýtrasta með land sitt. Urðu deilur um landið milli Efri-Einbúa og skjólgarðsins á milli Guðmundar Ísleifssonar eiganda Háeyrar og sýslumannsins í Kaldaðarnesi og sigraði Guðmundur. Efri-Einbúi er hornmark landanna, en landið sem um var deilt var nefnt Þrætuland (92).