Eyrarbakkakirkjugarður

Eyrarbakkakirkjugarður var tekinn í notkun 27. nóvember 1894. Fram að því voru Eyrbekkingar jarðsettir í Stokkseyrarkirkjugarði. Þeir áttu kirkjusókn til Stokkseyrar þar til Eyrarbakkakirkja var reist árið 1890. Kirkjan fékk þó ekki fullgildingu sem sóknar- og graftrarkirkja fyrr en árið 1894.

Úr Eyrarbakkakirkjugarði

Fyrsti maðurinn, sem grafinn var í kirkjugarðinn, var Jón Jónsson húsmaður á Litlu-Háeyri. Hann var fæddur 21. júní 1828 og lést 17. nóvember 1894 og var jarðsettur tíu dögum síðar. Jón var kallaður hinn sterki og er leiði hans nr. 32 þar sem kona hans, Guðrún Símonardóttir, er einnig grafin.

Garðurinn var stækkaður árið 1930 í átt til sjávar og í ársbyrjun 1931 var grafinn þar fyrstur Jóhannes Jónsson í Merkisteini. Garðurinn var síðan tvöfaldaður til vesturs á sjötta áratugnum.

Um 900 manns eru grafin í Eyrarbakkakirkjugarði og þar af eru um 200 manns óstaðsettir í garðinum.