Austurbúðin

Háeyrarbúðin – Vörubúð Guðmundar Ísleifssonar – Verslunarhús Jóhanns V. Daníelssonar

Byggingarár: 1884

Verslunarhús, stór vöruskemma með verslunarinnréttingu, skífuklætt á veggjum og gafli en bárujárnsklætt á þaki.

EIGENDUR
1884 Guðmundur Ísleifsson
1894 Ólafur Árnason
1905 Gunnlaugur Þorsteinsson
1906 Þorleifur Guðmundsson
1907 Kaupfélagið Ingólfur
1917 Jóhann V. Daníelsson

 

Í virðingargerð á nýbyggðum húsum í Árnessýslu vegna húsaskatts árið 1884 er eitt húsanna vörubúð kaupmanns Guðmundar Ísleifssonar (1850–1937) á Stóru-Háeyri á Eyrarbakka og er henni lýst svo:

12 álna löng, 12 álna breið með kjallara, húsið er að hálfu leiti innrjettaðundir lopti, virt á 2.500 krónur.1

Virðingin er undirrituð 7. febrúar 1884 af Guðmundi Ísleifssyni hreppstjóra, Jóhanni Fr. Jónssyni trésmið og Einari Gíslasyni trésmið. Engu er líkara en misritun hafi orðið á stærðum því húsinu er lýst eins og það sé ferkantað. Þegar ljósmyndir af húsinu, sem Sigfús Eymundsson tekur árið 1886, eru skoðaðar er augljóst að það hefur verið byggt í tveimur áföngum því litamunur er sýnilegur á húshlutunum. Byggt hefur verið við húsið annað hvort strax árið 1884 eða 1885. Húsið hefur verið skífuklætt á veggjum og gafli en þak virðist vera bárujárnsklætt. 

Stóra-Háeyri. Austurbúðin til hægri á myndinni sem tekin er árið 1886. Vel sést að húsið er byggt í tveimur hlutum.
Ljósmynd: Sigfús Eymundsson. Ljósmyndasafn Íslands.

Guðmundur var duglegur sjósóknari og formaður á skipum. Guðmundur stundaði verslunarrekstur í húsinu og tók þar við af tengdaföður sínum Þorleifi Kolbeinssyni, sem lengi hafði stundað verslunarrekstur í húsi sínu á Háeyri og mun Guðmundur hafa hafið verslunarrekstur sinn þar. Verslunarrekstur Guðmundar gekk illa og varð hann gjaldþrota árið 1893.

Gafl Austurbúðarinnar. Myndin er tekin frá sjóvarnargarðinum framan við Stóru-Háeyri, sennilega árið 1905 þegar uppboð á strand-góssi fór fram.
Ljósmynd: Magnús Gíslason. Ljósmyndasafn Íslands.

Í kjölfarið mun Ólafur Árnason (1863–1915) kaupmaður á Stokkseyri hafa eignast verslunarhúsið. Árið 1902 opnaði Ólafur útibú þar frá verslun sinni á Stokkseyri og réði Jóhann V. Daníelsson (1866–1946) til að annast reksturinn. Á myndum frá árinu 1905 má sjá að skúr hefur verið byggður meðfram austurhliðinni og inngöngubíslag að vestanverðu. Árið 1914 eignaðist Jóhann húsið og nýtti það til verslunarreksturs ásamt húsinu Ingólfi.

Við stofnun Brunabótafélagsins segir Eiríkur Gíslason í virðingargerð:

Verslunarbúð 7,6×15,3 veggh. 3 ris 4. Allt járnklætt utan og borðaklætt undir nema þak að hálfu með rimlum. Þiljað hálft niðri fyrir verslunarbúð. Loptið geimsla skipt í 2 herb. 1 ofn. Símtæki. Skúr við austurhlið 15,3×4,5 hæða 2,1 járn á rimlum.2

Þegar húsaskattur var aflagður og fasteignamat tekið upp árið 1918 var enn gerð virðing á húsinu. Virðingin hljómar svo:

a. sölubúð og vörugeymsluhús úr timbri, járnvarið, 15×7,6 m, vegghæð 3 m, 1 hæð og kjallari steinlímdur, ris, 5 herbergi, byggt 1887. Skúr við hlið hússins úr bárujárni á böndum, 15,×4,5×2,5 m b. kolaskúr úr bárujárni á böndum 6×9,3×3,2 m c. Húsgrunnur steinlímdur, Bryggja úr steinsteypu og timbri.3

Nú hefur bæst við í matinu bryggja, svokölluð Austurbryggja.

Þriðji áratugurinn var erfiður á Eyrarbakka. Verslanir fóru á hausinn og almennur fólksflótti var frá staðnum. Árið 1926 lét Jóhann rífa verslunarhúsið, vörugeymsluhúsið gamla frá verslunarárum Guðmundar Ísleifssonar, flutti viði þess suður í Skerjafjörð og byggði þar úr þeim íbúðarhús, en seldi strax.4 Húsið stendur enn við Einarsnes og er númer 78.

ILB

Austurbúðin um 1920. Reginn í baksýn.
Ljósmynd: Haraldur Blöndal. Ljósmyndasafn Íslands.

 


  1. Skrár um húsaskatt í Árnessýslu 1884. Skjalasafn endurskoðunarinnar. Manntalsbókargreikningar í Þjóðskjalasafni Íslands.
  2. Eiríkur Gíslason: Virðingarbók fasteigna á Eyrarbakka frá 1916 og áfram. Handrit í Byggðasafni Árnesinga.
  3. Fasteignamat Árnessýslu 1918. Eyrarbakki.
  4. Guðmundur Daníelsson: Krappur dans. Jarðvistarsaga Jóa Vaff. Reykjavík. 1984