Barnaskólahús á Skúmsstöðum

Byggingarár: 1880

Timburhús með risi, bæði þak og veggir klæddir timbri, standandi klæðning á veggjum. Skrautlistar á þakbrún á göflum.

EIGANDI
1880 Barnaskólinn á Eyrarbakka

 

Þriðja skólahús barnaskólans á Eyrarbakka var reist á hólnum í Skúmstaðalóðinni árið 1880. Fyrri skólahús höfðu staðið á Háeyrarlóð og Skúmsstöðum en bæði metin ónýt til kennslu og verið rifin.
Yfirsmiður að húsinu á Skúmstöðum er talinn hafa verið Jón Þórhallason, sem þekktastur er sem kirkjusmiður Stokkseyrarkirkju og sagður hafa verið viðurkenndur kirkjusmiður um allt Suðurland.
Engar virðingar eru til af húsinu þar sem skólabyggingar voru undanþegnar húsaskatti. Húsið var 16 álnir á lengd og 10 ½ alin á breidd. Tvær skólastofur voru í húsinu og forstofa auk íbúðar í risi. Hugmyndir voru um að húsið myndi líka geta þjónað sem gagnfræðaskóli Suðurlands og því var sérlega til þess vandað.

Skólahúsið á Skúmsstöðum
Skólahúsið nýbyggt. Myndhluti.
Ljósmyndari Sigfús Eymundsson. Ljósmyndasafn Íslands í Þjóðminjasafni.

Húsið var í notkun í 33 ár en eftir að skólaskylda 10 ára barna var innleidd gátu kennslustofurnar ekki þjónað svo stórum hópum.1 Haustið sem skólabyggingin var tekin í notkun var 21 barn í skólanum.2 Veggurinn á milli kennslustofanna var tvöfaldur og var bókasafn Lestrarfélags Eyrarbakka hýst þar.3
Frá upphafi var búseta á skólaloftinu ekki bundin við skólastjóra eða kennara skólans. Meðal þeirra sem bjuggu í íbúðinni á lofti skólans voru Stefán Bjarnarson sýslumaður og kona hans Karen, Þórdís Símonardóttir ljósmóðir og maður hennar Bergsteinn Jónsson söðlasmiður. Stundum var þar tvíbýli eins og þegar Pétur Guðmundsson kennari og Sigurður Eiríksson regluboði bjuggu þar. Eftir að Pétur kvæntist árið 1898 bjó hann þar með Elísabetu Jónsdóttur konu sinni og börnum um nokkurra ára skeið.4
Eftir að lekavandamál fór að gera vart við sig var risið tekið af húsinu og það lækkað árið 1902. Eftir það voru bæði veggir og þak klæddir bárujárni. Húsið missti mikið af svipmóti sínu við þessa breytingu.

Skólahúsið eftir að risið var lækkað.
Ljósmyndari óþekktur. Sjóminjasafnið á Eyrarbakka.

Eftir að nýtt hús var byggt á Flötunum árið 1913 var skólahald aflagt í húsinu. Gunnar Jónsson snikkari keypti húsið og flutti það á grunn neðan við hólinn og byggði síðan hæð ofan á það.

ILB


  1. Árelíus Níelsson. Saga Barnaskólans á Eyrarbakka, Reykjavík 1952, s. 110–111.
  2. Árni Daníel Júlíusson. Skólinn við ströndina, Árborg 2003, s. 72.
  3. Maríus Ólafsson. Í minningabjarmanum. Árelíus Níelsson. Saga Barnaskólans á Eyrarbakka, Reykjavík 1952, s. 127.
  4. Elísabet Jónsdóttir. Í ljósi og skuggum. Vilhjálmur S. Vilhjálmsson. Fimm konur. Reykjavík 1962, s. 29, 34, 42.