Bræðrafélagshúsið

Byggingarár: 1887

Bárujárnsklætt timburhús á einni hæð.

EIGANDI
1887  Bræðrafjelagið

 

Bindindishreyfingin var ein þeirra félagshreyfinga sem settu mestan svip á íslenskt samfélag í lok 19. aldar. Víða um land lyftu þessi félög grettistaki í að koma upp samkomuhúsum til eigin þarfa og fyrir almennt félagsstarf. Tvö slík félög störfuðu á Eyrarbakka.

Bræðrafélagið var stofnað haustið 1885 að undirlagi Bjarna Pálssonar í Seli. Upphaflega mun stofnun þess hafa verið hugsuð sem undanfari að stofnun stúkufélags. Þegar stúkan var stofnuð ári síðar klofnaði félagshópurinn. Hluti félagsmanna gerðust stofnfélagar hennar en aðrir störfuðu áfram í Bræðrafélaginu. Bræðrafélagið var síðan lagt niður áratug síðar og félagar þess gengu í stúkuna Eyrarrós.1

Félagsmenn byggðu fundahús, sem nefnt var Bræðrafélagshúsið árið 1887. Það var 12 álnir á lengd, 8 álnir á breidd og 4 álnir undir loft og allt járnklætt að utan.2

Tilgátuteikning af Bræðrafélagshúsinu. MKH

Það stóð í landi Háeyrar, austan við verslunarhús Einars Jónssonar eða norðan við þar sem húsið Skjaldbreið reis síðar. Húsið var rifið og tekið af skrá yfir skattskyld hús árið 1896 eftir að félagið hafði verið lagt niður.3

Húsi Bræðrafélagsins var að sögn bætt við Góðtemplarahúsið veturinn 1896-97 og unnu flestir templarar að því verki ýmist fyrir lítið eða ekkert gjald.4 Ekki er vitað á hvern hátt það var gert.

ILB


  1. Ólafur Rósinkranz „Skýrsla um bindindisástandið hjer á landi á öndverðu ári 1895“. Heimilisblaðið, desember 1895, bls. 150.
  2. Sigurður Eiríksson „Skýrsla um hið íslenzka Bræðrafjelag „Eyrarrós“ á Eyrarbakka“. Íslenzki Good-templar, október-nóvember 1887, bls. 15.
  3. ÞÍ. Skjalasafn Endurskoðunarinnar. Manntalsgögn 1896.
  4. HérÁrn 2008/66-1 Guðmundur Guðmundsson. Bók merkt I.O.G.T.