Brunaskúrinn

Byggingarár: 1933

Timburhús með háum turni.

 

Brunabótafélag Íslands, sem hafði séð um brunatryggingar fasteigna í Eyrarbakkahreppi frá árinu 1917, var með samning um endurtryggingar við tryggingafélagið Storebrand í Noregi. Storebrand sendi menn á sínum vegum til Íslands til að taka út stöðu brunavarna á ýmsum þéttbýlisstöðum, meta áhættu félagsins og leggja til úrbætur þar sem ástæða var til.

Árið 1928 kom fulltrúi Storebrand, Hjalmar Fugelli, til Eyrarbakka og skrifaði skýrslu um stöðu brunavarna. Þar segir meðal annars:

Um það bil í miðju þéttbýlinu er slökkvistöðin, lítill skúr, þar sem geymd er 8 manna handslökkvidæla ásamt sleða til flytja hana í vetrarfærð. Eitt tveggja tommu slönguúttak, u.þ.b. 6o m af slöngum og tvö deilirör ásamt smækkunartengjum til að leggja út tvær slöngur, u.þ.b. 10 m löng sogslanga, allt með skrúfuðum samsetningum. U.þ.b. 80 strigafötur, nokkrir hakar og axir, ásamt 6 m löngum stiga.1

Undirritun Fugelli í skýrslunni um brunavarnir á Eyrarbakka árið 1928.
Safn Brunabótafélags Íslands í Þjóðskjalasafni.

Fugelli leggur ekki til neinar breytingar í þessari skýrslu sinni, en árið eftir var hann enn á ferð og segir í skýrslu eftir þá heimsókn að handdælan sé engan veginn fullnægjandi til þess að brunavarnir á Eyrarbakka teljist góðar. Í skýrslunni leggur hann til að keypt verði véldæla á hjólastelli ásamt margvíslegum búnaði til að efla brunavarnir í þorpinu.2

Á almennum hreppsfundi sem haldinn var í Fjölni í febrúar 1931 las oddviti upp bréf frá vegamálastjóra, en embættið sá um eftirlit með brunavörnum kaupstaða og kauptúna. Þar var lagt til að hreppurinn kaupi ný slökkvitæki sem muni kosta um 7.500 kr., ásamt loforði að Brunabótfélagið muni lána fyrir kostnaðinum. Á fundinum var samþykkt að festa kaup á slökkvitækjum þeim sem vegamálastjóri nefndi í bréfi sínu.3

Slökkviáhaldskúrinn sem stóð við Háeyri var ekki nægjanlega stór til þess að rúma nýju tækin og var þeim því komið fyrir í timburskúr Sigurjóns P. Jónssonar við Stíghús til að byrja með.4

Í mars 1933 er haldinn fundur í hreppsnefnd Eyrarbakkahrepps og þar er bókað:

Tekið fyrir og rædd tilboð þau, sem komið höfðu í að rífa og flytja Óseyrarnesbæjinn og heyhlöðuna, sem hreppsn. hafði ákveðið að rífa og flytja austur í þorpið, með því að þau eru gjörsamlega arðlaus þar sem þau standa mannlaus og undirorpin eyðileggingu af vatni og vindi. En geta hins vegar orðið að allmiklu gangi við brunastöðvarhús það, sem hreppurinn kemst ekki hjá að byggja sem allra fyrst.5

Ljóst er að á þessum tíma hefur hreppsnefndin verið beitt miklum þrýstingi til þess að hefja byggingu slökkvistöðvar. Í júní 1933 er nýtt slökkvitækjahús, löngum kallað Brunaskúrinn, virt til brunabóta og lýst þannig:

Timburhús: Lengd 7,3 m, breidd 3,9 m, hæð 4,1 m. Turn upp af þaki: Lengd 2,7 m, breidd 2,7 m, hæð 4,2 m. Veggir þiljaðir innan, raflýst.6

Brunaskúrinn nýbyggður árið 1933.
Ljósmyndari óþekktur. Safn Brunabótafélags Íslands í Þjóðskjalasafni.

Húsið var reist vestan við sjógarðshliðið fram af Háeyri og sást langt að. Í ágúst ritar Hjalmar Fugelli hjá Storebrand enn eina skýrsluna og er þá harla ánægður:

Sveitarfélagið hefur reist eigin slökkvistöð, sjá mynd. Hún er með turni til þess að þurrka slöngur og á toppi hans er brunalúðrinum komið fyrir. Stöðin er einstaklega vel útlítandi og liggur vel í byggðinni […].7

Turninn setti svip sinn á húsið og gagnaðist ekki aðeins til að þurrka brunaslöngur. Á árum seinni heimsstyrjaldarinnar nýtti breski herinn Brunaskúrinn til að fylgjast með flugvélum og skipasiglingum og hafði þar menn á sólarhringsvakt.8 Sagnir eru um, að hinum ungu hermönnum sem þar stóðu vaktina hafi oft verið mjög kalt í óupphituðu húsinu. Því hafi góðhjartaðar konur á Bakkanum tekið sig til og prjónað á þá vettlinga og sokka og gefið þeim.

Turninn á Brunaskúrnum. Myndhluti
Ljósmyndari Hjálmar Bárðason. Ljósmyndsafn Íslands í Þjóðminjasafni.

Árið 1957 var fyrsti slökkvibílinn keyptur til Eyrarbakka. Þá var gamla rafstöðin einnig keypt og henni breytt í slökkvistöð. Brunaskúrinn stóð þó áfram um tíma. Á fundi hreppsnefndar síðari hluta árs 1962 er eftirfarandi bókað:

Oddviti ræddi um stofnun skátafélags og beiðni skátanna um land undir skála í Óseyrarnesi. Samþykkt að gefa skátunum gamla brunaskúrinn og leyfa þeim afnot landsins.9

Að öllum líkindum hefur brunaskúrinn verið rifinn í framhaldi af þessari samþykkt, þótt ekki liggi fyrir tímasetning á niðurrifinu eða vitneskja um hvort skátafélagið hefur byggt umræddan skála í Óseyrarnesi.

MKH

 


  1. ÞÍ. Brunabótafélag Íslands 2018 C/186-1.
  2. Sama.
  3. HérÁrn. 1987/0 Eyrarbakkahreppur. Fundargerðabók hreppsnefndar 1900-1947.
  4. Inga Lára Baldvinsdóttir. Margur í sandinn hér markaði slóð. (Eyrarbakki: Eyrarbakkahreppur, 1998), bls. 94.
  5. HérÁrn. 1986/3 Eyrarbakkahreppur. Sveitarbók 1861-1937, A/1-1, bls. 376.
  6. ÞÍ. Brunabótafélag Íslands 2012 Eyrarbakkaumboð, BA-0005, 1929-1933, bls. 376.
  7. ÞÍ. Brunabótafélag Íslands 2018 C/186-1.
  8. Inga Lára Baldvinsdóttir. Margur í sandinn hér markaði slóð. (Eyrarbakki: Eyrarbakkahreppur, 1998), bls. 94.
  9. HérÁrn. 1998/16 Eyrarbakkahreppur. Fundargerðabók hreppsnefndar 1954-1974, bls. 89.