Búðarhús

Byggingarár: 1900

Timburhús með inngöngubíslagi.

EIGENDUR
1900 Gunnar Einarsson
1910 Guðmundur Guðmundsson
1921 Þórarinn Jónsson
1926 Sparisjóður Árnessýslu

 

Húsið var byggt af Gunnari Einarssyni (1857–1935) árið 1900. Þegar það er metið til húsaskatts fylgir því þessi virðingargjörð:

Timburíbúðarhús Gunnars Einarssonar á Búðarhúsi er 6×8 alnir einlyft alt jarnvarið með lágu þaki. Inni er húsinu skift í 3 herbergi forstofu, Baðstofu og svefnherbergi öll herbergin ómáluð með engri hitavjel, skúr við innganginn 2 ½ al á hvorn veg. með jarnþaki og trjeveggjum. Kjallari 3×3 alnir. Húsið metið á kr. 1100.1

Gunnar og kona hans Guðrún Jónsdóttir (1868–1954) bjuggu í húsinu til 1909, en þá fluttu þau að Hópi. Í stað þeirra fluttu í Búðarhús hjón kennd við Iðu í Biskupstungum, Guðmundur Guðmundsson (1847–1930) og kona hans Jónína Jónsdóttir (1864–1941), og bjuggu þar til 1921 er þau fluttu að Gýgjarsteini í Hraunshverfi.

Þórarinn Jónsson (1894–1922) í Frambæ var eigandi hússins eftir það.

Samkvæmt brunavirðingu Eiríks Gíslasonar árið 1916 var búið að byggja við húsið skúra, annan við norðurhlið þess og hinn við austurgafl. Inngönguskúrinn sem nefndur er í virðingunni árið 1900 var þá væntanlega orðinn hluti af skúrnum við norðurhliðina.2

Tilgátuteikning af Búðarhúsi samkvæmt brunarvirðingu frá árinu 1916. Horft frá vestri. MKH

Búðarhús voru rifin vorið 1928.3

Engin mynd er þekkt af Búðarhúsi.

ILB


  1. ÞÍ Endurskoðunarskjöl. Manntalsreikningar. Árnessýsla. 1900.
  2. Eiríkur Gíslason: Virðingarbók fasteigna á Eyrarbakka. Ljósrit í fórum höfunda.
  3. ÞÍ Virðingarbók Brunabótarfélags Íslands, s. 144.