Dagsbrún

Byggingarár: 1943-44.

Hlaðið hús úr vikurholsteini með valmaþaki.

EIGENDUR
1943 Guðjón Guðjónsson
1954 Hannes Þorbergsson
1968 Kristján Pálsson
1970 Hraðfrystistöð Eyrarbakka

 

Árið 1939 flytja hjónin Guðjón Guðjónsson (1902–1985) og Helga Jóhanna Hallgrímsdóttir (1899–1975) til Eyrarbakka frá Vestmannaeyjum ásamt sonum sínum. Fyrst um sinn bjuggu þau í Kirkjuhúsi og um stuttan tíma í Steinsbæ. Árið 1941 flytja þau í Reginn (Háeyri) og búa þar til ársins 1943.1

Á fundi byggingarnefndar 7. ágúst 1942 leggur Guðjón fram uppdrátt að íbúðarhúsi sem hann hafði í hyggju að reisa á húslóð austan við Læknishús sunnan við götuna. Teikningin var samþykk án athugasemda að öðru leyti en því að grunnur hússins er hækkaður í 80 cm frá götu.2

Húsið Dagsbrún er virt til brunabóta 23. ágúst 1943 en þess getið að húsið sé „ekki fullgert ennþá, þó farið sé að búa í því fyrir nokkru. Vantar múrhúðina að mestu að utan og að nokkru að innan, dúka á gólf og málningu, ekki að fullu gengið frá raflögn. Miðstöð vantar einnig.“3 Í sóknarmannatali í desember 1943 eru Guðjón og fjölskylda hans skráð til heimilis í Dagsbrún.4

Húsinu er lýst þannig í brunavirðingargjörðinni:

Húsið er 1 hæð á háum grunni og með valmaþaki. Í húsinu eru 3 íbúðarstofur og eldhús, geymsla, þvottahús, baðherbergi og forstofa. Veggir eru múrhúðaðir, loft klædd með aspestplötum neðan á bita, gólf eru steinsteypt. 1 eldavél er í húsinu.
Stærð hússins er: L. 10,20 m. B. 8,30 m. H. 3,20 m. Þakhæð 1,45, grunnhæð 0,80. Útveggir: Úr vikurholsteini. Skilrúm úr vikurplötum.5

Fasteignamat hússins er ekki dagsett fyrr en 30. nóvember 1944, þegar þeir Bjarni Eggertsson og Magnús Oddsson meta húsið og segja það byggt 1943-44 og sé ekki fullgert. Þar er einnig getið um útihús:

Einstæður skúr, vikurholsteinn í veggjum, steypt gólf, hólfað í tvennt. Geymsla og þvottahús. Þakið úr timbri og pappa.6

Þvottahúsið stóð í suðvesturhorni lóðarinnar við lóðarmörk Læknishússins.

Dagsbrún fyrir miðri mynd. Þvottahúsið og geymslan vestur af húsinu. Myndhluti.
Ljósmynd: Guðni Þórðarson. Ljósmyndasafn Íslands.

Árið 1946 byggir Guðjón hjall til þurrkunar á vikursteinum meðfram sjógarðinum vestan við Brunaskúrinn. Hjallurinn er sagður 9 m á lengd og 3 m á breidd og vegghæð 2 m í fasteignamati frá því í desember 1947.7 Guðjón rak vikursteypu á Eyrarbakka í nokkur ár og auglýsti m.a. framleiðslu sína í leikskrá Leikfélags Eyrarbakka leikárið 1947–48.8
Getið er um þrjá aðila í Iðnaðarritinu sem framleiða vikurplötur á Eyrarbakka úr Eyrarbakkavikri árið 1947: Vikurplötuframleiðslu Jóhanns Bjarnasonar, Vikurvinnslu Magnúsar Magnússonar og Vikursteypu Guðjóns Guðjónssonar.9

Auglýsing í leikskrá Leikfélags Eyrarbakka veturinn 1947-1948.

Guðjón Guðjónsson, eða Guðjón í Dagsbrún eins og hann var kallaður á Eyrarbakka, var menningarlega sinnaður maður og tónlistarmaður af guðs náð. Guðjón og Helga Jóhanna lögðu sitt af mörkum til félags- og söngmála á Eyrarbakka meðan þau bjuggu þar. Guðjón kenndi ungmennum á Eyrarbakka að spila á orgel (harmoníum) í Dagsbrún og stjórnaði Kvennakór UMFE, sem m.a. söng í útvarpinu í desember 1947, og Helga Jóhanna söng í kirkjukór Eyrarbakkakirkju. Guðjón var einarður sósíalisti og var m.a. í framboði til hreppsnefndar Eyrarbakkahrepps 1946 fyrir Sósíalistaflokkinn.

Guðjón seldi Dagsbrún árið 1954 og flutti til Reykjavíkur þar sem hann rak m.a. fornbókaverslun við Hverfisgötu.

Við þvottahúsdyrnar. Sér í bílskúr sem Hannes Þorbergsson byggði sunnan við þvottahúsið rétt eftir 1960. Á myndinni eru Jón Karl Ragnarsson, Magnús Karel Hannesson og Páll Halldórsson.
Ljósmyndari óþekktur.

Eftir að Hraðfrystistöð Eyrarbakka h/f eignaðist húsið var það fyrst um sinn nýtt sem íbúðarhús fyrir verkstjóra frystihússins og síðar sem geymsla fyrir umbúðir og fleira.
Dagsbrún var rifin um 1995.

MKH


  1. ÞÍ. Stokkseyri í Flóa / Eyrarbakki – prestakall prestsþjónustubók 1933–1948 0000 BA/7-1-1 og sóknarmannatal 1938–1943 0000 BC/11-1-1.
  2. Fundargerðarbók byggingarnefndar Eyrarbakkahrepps 1938–1987. Ljósrit í fórum höfunda.
  3. ÞÍ Brunabótafélag Íslands 2012 Eyrarbakkaumboð, BA-0005, 1934-1964, s. 53. Afrit á vef Héraðsskjalasafns Árnesinga.
  4. ÞÍ. Stokkseyri í Flóa / Eyrarbakki – prestakall sóknarmannatal 1938–1943 0000 BC/11-1-1.
  5. ÞÍ Brunabótafélag Íslands 2012 Eyrarbakkaumboð, BA-0005, 1934-1964, s. 53. Afrit á vef Héraðsskjalasafns Árnesinga.
  6. ÞÍ Fasteignamat ríkisins 1992-065 – Matsgerðir og: Árnessýsla: Eyrarbakkahreppur, L/0050-2.
  7. Sama.
  8. Leikfélag Eyrarbakka. Leikskrá. Leikárið 1947–1948. I. viðfangsefni: Tímaleysinginn, s. 5.
  9. Iðnaðarritið. (1948, 1. desember). Niðurstöður iðnaðarrannsóknar 1947. Iðnaðarritið 21. árg., 5.–6. hefti, s. 60.