Einarshöfn X

Einarshöfn IX – Byggðarendi
Búðarstígur I – Ólafshús

Byggingarár: 1891

Einlyft bárujárnsklætt timburhús með risi á grjótkjallara og með skúrbyggingum.

EIGENDUR
1891 Guðmundur Felixson
1897 Ólafur Guðmundsson
1916 Guðríður Matthíasdóttir
1921 Guðjón Jónsson
1928 Sigurmundur Guðjónsson

 

Undir árslok 1891 er gerð úttekt á nýbyggðu íbúðarhúsi Guðmundar Felixsonar (1958–1934) verslunarmanns á Skúmstaðalóð. Húsinu er lýst þannig:

Hús þetta er á lengd: 10 ál, á breidd 8 álnir byggt af timbri með grjótveggjum, að hálfu leyti með járnþaki. Allt innrjettað undir lopti, og að hálfu leyti uppi á loptinu. Virt á 1.200 krónur.1

Guðmundur bjó ekki lengi í húsinu því fljótlega er Ólafur Guðmundsson (1866–1917) söðlasmiður orðinn eigandi þess ásamt konu sinni Guðríði Matthíasdóttur (1867–1919). Hann kom úr Rangárvallasýslu á Eyrarbakka en hún var úr Gaulverjabæjarhreppi.

Ekki er til önnur virðing af húsinu fyrr en Eiríkur Gíslason smiður gerir á því brunavirðingu árið 1916:

Timburhús einlyft með grjótkjallara 6,8×4,6 með skúr 2,5×5. Vegghæð 2,5 ris 2m. Allt járnklætt nema norðurhlið með Asfaltpappa. Niðri 2 herbergi og eldh. Uppi 1 herb. og geimsla við vesturg. geimsluskúr.2

Einarshöfn – Byggðarendi – til vinstri um 1925. Steinsbær fjær og Nýhöfn fyrir miðju og Höfn eldri til hægri. Myndhluti.
Ljósmyndari Sigurður Kristjánsson. Einkasafn Jóns Sigurðssonar.

Ljóst er að húsið hefur tekið miklum breytingum á þessum aldarfjórðungi frá því það var byggt. Samt helst virðing þess óbreytt í gögnum til fasteignaskatts allt frá 1891 til 1917. Velta má fyrir sér af hverju matinu var ekki breytt og engar lýsingar á endurbótum skráðar. Ólafur Guðmundsson veðsetur hús sitt árið 1907 og hugsanlega tengist það endurbótum á því.

Við fasteignamat árið 1918 hefur annar skúr bæst við húsið.3

Sigurmundur Guðjónsson frá Skúmsstöðum fékk leyfi til endurbyggingar á íbúðarhúsinu árið 1952. Þeim áformum er lýst þannig:

Húsið er upphaflega úr timbri, en hefur verið byggður skúrveggur að norðan og vestan. Við þessa veggi hyggst hann byggja að sunnan og austan úr holsteini og setja síðan eitt ris yfir allt með valmaþaki.4

Með þessum breytingum varð til nýtt hús.

ILB


  1. ÞÍ Endurskoðun REV. B. III. 23a.
  2. Eiríkur Gíslason. Virðingabók fasteigna. Ljósrit í eigu höfunda.
  3. ÞÍ Fasteignamat 1916-1918 – Undirmat; Árnessýsla III, s. 118.
  4. Fundargerðir byggingarnefndar Eyrarbakkahrepps 1938-1987. Ljósrit í fórum höfunda.