Fjölnir

Byggingarár: 1899

Tveggja hæða timburhús bárujárnsklætt með viðbyggingu á einni hæð til austurs með sviði.

EIGENDUR
1899 Goodtemplarafélagið
1908 Hannes Þórðarson
1913 Fjölnir hf.
1917 Eyrarbakkahreppur

 

Tvær stúkur, Eyrarrósin og Nýársdagurinn, voru starfandi á Eyrarbakka um aldamótin 1900 og stóðu þær saman að byggingu nýs fundarhúss á Skúmstaðalóð árið 1899. Því var valinn staður skammt frá Húsinu og kirkjunni sjávar megin götunnar á milli Káragerðis og Garðbæjar. Það þótti þrekvirki að eldra stúkuhús væri rifið í október og að nýtt hús væri risið fyrir jól. Ætla má að reynt hafi verið að nýta allt sem nýtanlegt var úr eldra húsinu til að byggja hið nýja. Kristinn Jónsson (1870–1957) trésmiður sem starfaði á Eyrarbakka á þessum tíma mun hafa leitt smíði hússins en vinna hans og annarra smiða við verkið var að mestu eða öllu leyti án endurgjalds.1 Seinna varð Kristinn landskunnur undir starfsheitinu vagnasmiður.

Í virðingu til húsaskatts í árslok 1899 er þessi virðing:

Fundahús Goodtemplara er 21 al á lengd 10 al. á breidd tvílyft byggt af tré alt járnvarið, við norður hliðvegg eru veggsvalir 6 × 2 al. Húsið er tvídyrað, með 2 forstofum og 1. biðstofu og fundasal 16 og ½ 9 og ½ 5 alnir undirloft allt málað niðri, í fundasalnum er „magasínofn“ og reykháfur úr tígulsteini. Uppi á lofti er 4. herbergi og gangur með öðrum hliðvegg 1. eldavél og ofn helmingur herbergja málaður. gangur útá veggsvalirnar af loftinu. metið á kr. 4.200.2

Herbergin uppi á loftinu voru hugsuð fyrir dyravörð en þau voru leigð út og bjuggu þar ýmsir lengst af þann tíma sem húsið var í notkun.

Húsið var vígt með viðhöfn og að viðstöddu fjölmenni, enda var sagt að annað hvert mannsbarn á Eyrarbakka væri í stúkunni eða um 250 manns auk ungtemplara. Ekki var unnt að bjóða templurum frá Stokkseyri til vígslunnar vegna þrengsla.3 Indriði Einarsson stórtemplar segir frá vígslunni í ævisögu sinni og er honum eftirminnilegast að vígsludagskvöldið „var mannmargur dansleikur, og Eyrbekkingar áttu þá lúðrasveit, sem hélt uppi danslögum allan tímann.“ Indriði komst heim af ballinu klukkan 4 um nóttina!4

Nemendur og kennarar barnaskólanna á Eyrarbakka og Stokkseyri fyrir framan Fjölni um 1920. Hér sést viðbyggingin við austurgaflinn með sviðinu. Svalirnar voru nýttar til dæmis á aldamótahátíð. Skilti er framan á þeim með áletruninni Gistihús.
Ljósmyndari Haraldur Blöndal. Ljósmyndasafn Íslands í Þjóðminjasafni.

Á lista yfir húsaskatt ári síðar í árslok 1900 kemur fram að byggt er við húsið árið eftir að það er tekið í notkun. Þar segir:

Skúr við fundahús Goodtemplara 6 al á lengd 10 al á breidd áfastur húsinu einlyftur allur járnvarinn með útidyrum og gangi í aðalhúsið notaður fyrir leikhús metin á kr. 550.5

Það vantaði svið í húsið og hér var ráðin bót á því.

Ungmennafélag Eyrarbakka beitti sér fyrir því árið 1939 að gufubaðsstofa var byggð við húsið að sunnanverðu . Hún var hlaðin úr holsteini og var 2,8 × 6,7 m. Innangengt var úr húsinu í gufubaðið og var notast við búningsklefa í samkomuhúsinu fyrir gufubaðið.6

Húsið gegndi mjög fjölbreyttu hlutverki alla tíð. Þar voru sýnd leikrit, kennd leikfimi, haldnar skákæfingar, kaffisölur, Báruböll, jólaböll og basar hjá kvenfélaginu og bíósýningar á vegum Nýja ferðabíósins og Bakkabíós auk margs konar fundahalda. Allt félagsstarf Eyrbekkinga hverfðist um Fjölni. Um hríð var þar gistiþjónusta og smíðaverkstæði hafði Sigurður Ísleifsson um skeið í kjallaranum.

Sumardagsskemmtun í Fjölni um 1965.
Ljósmyndari óþekktur. Einkasafn Kristínar Friðriksdóttur.

Þegar í harðbakkann sló gegndi Fjölnir mikilvægu hlutverki eins og til dæmis þegar spænska veikin gekk yfir í árslok 1918 þegar þar var opnað sjúkrahús tímabundið til að annast þá sem veikst höfðu af henni, en Eyrbekkingar fóru mjög illa út úr farsóttinni.

Húsið var farið að láta á sjá þegar það var rifið árið 1973.

ILB


  1. Vigfús Guðmundsson. (1949). Saga Eyrarbakka. II : I. Reykjavík: Víkingsútgáfan, s. 265.
  2. ÞÍ. Skjalasafn Endurskoðunarinnar. II Endurskoðun Rev. B. II. 32 a 1900.
  3. Bálkur Stór-Templars. Good-Templar 4. árg.1 tbl. 1900 s. 7.
  4. Indriði Einarsson. (1972). Séð og lifað : endurminningar. Reykjavík: Almenna bókafélagið, s. 267.
  5. ÞÍ. Skjalasafn Endurskoðunarinnar. II Endurskoðun Rev B. II. 32 a 1901.
  6. D.[aníel] Á.[gústínusson]. Gufubaðstofa ungmennfélagsins á Eyrarbakka. Tíminn 12. mars 1940, s.114.