Garðbær

Ingvarsbær – Kirkjustræti 4 – Garðbær III – Garðsauki

Byggingarár: 1889

Timburhús, ein burst með skúrbyggingu við langhlið.

EIGENDUR
1889 Eiríkur Arnbjarnarson
1890 Margrét Guðbrandsdóttir
1892 Ingvar Friðriksson

 

Húsið var byggt í Skúmstaðalandi árið 1889 fyrir Eirík Arnbjarnarson gullsmið (1857–1890) og konu hans Margréti Guðbrandsdóttur (1866–1939). Eiríkur, sem hafði lært gullsmíði hjá Ebeneser Guðmundssyni, drukknaði vorið 1890 þegar bátur sem hann var í áhöfn á hnekktist á í brimsundinu við Rifsós.1 Margrét er skráður eigandi hússins árið 1891 en selur það ári síðar Ingvari Friðrikssyni (1854–1941) beyki og konu hans Ágústu Guðrúnu Jónsdóttur (1863–1944). Engin virðing fylgir þegar húsið er metið nýbyggt til húsaskatts.2 Ingvar fluttist til Eyrarbakka úr Reykjavík en Ágústa var dóttir Jóns Þórhallasonar trésmiðs.

Ingvarsbær meðal húsa í Garðbæjarhverfi. Frá vinstri útihús og hlaða frá Húsinu, sér á þak á óþekktu húsi, hús Þórdísar Símonardóttur, Ingólfur, þak á óþekktu húsi, Ingvarsbær, Ísaksbær og Guðmundarhús.
Teikning Jón Helgason – myndhluti. Ljósmyndari Janos Malincsak. Einkasafn ILB/MKH.

Mat á húsinu til skatts helst óbreytt frá því það er byggt til ársins 1917. Á mynd sem Jón Helgason biskup teiknaði af Garðbæjarhverfinu eftir ljósmynd Oline Lefolii, og ársett er 1891, má sjá að húsið hefur upphaflega verið með grjótveggjum á langhliðunum. Breyting hefur síðar verið gerð á húsinu og hliðarnar klæddar bárujárni, en ekki verður sagt hvenær það hefur verið gert, líklega um aldamótin 1900.

Húsinu er hins vegar lýst svo við brunavirðingu árið 1916:

Íbúðarhús úr timbri með kjallara undir hlöðnum úr grjóti og steinlímdum sem notaður er fyrir beykisverkstæði, en eldfærislaus. Undir járni er húsið klætt með rimlum á þaki en kantsettum borðum á veggjum. Að innan er allt þiljað og málað, skipt í tvö herbergi, eldhús og gang. Uppi á loftinu óinnréttað notað til geymslu.3

Ingvar hafði lært beykisiðn í Þýskalandi og starfaði sem beykir við Lefoliiverslun. Beykirinn hafði aðstöðu í kjallara Aðalverslunarhúss Vesturbúðarinnar og þar smíðaði Ingvar laxatunnur, þvottabala og smjörkvartil.4 Hann annaðist móttöku á öllum laxi er sendur var til útflutnings frá versluninni og gætti þess að hann skemmdist ekki á meðan beðið var eftir að hægt væri að senda hann úr landi með síðasta haustskipi í lok ágúst.5 Beykisverkstæðið heima fyrir hefur Ingvar væntanlega notað til framleiðslu á timburílátum fyrir einstaklinga.

Húsið stóð á milli Ísaksbæjar og Fjölnis og var rifið haustið 1926 til að rýma fyrir nýju húsi sem byggt var á sama stað fyrir sömu eigendur. Það er Garðbær, sem í seinni tíð er gjarnan kenndur við Olgu Ingimarsdóttur og kallaður Olguhús.

ILB


  1. Guðni Jónsson. Stokkseyringa saga. (Reykjavík: Stokkseyringafélagið í Reykjavík, 1960), bls. 270.
  2. ÞÍ. Endurskoðunarskjöl. Manntalsreikningar. Árnessýsla. 1889, 1891 og 1892.
  3. ÞÍ. Brunabótafélag Íslands 2012 Eyrarbakkaumboð, BA-0004, 1916-1920, bls 48.
  4. Jón Pálsson. Austantórur II. (Reykjavík: Víkingsútgáfan, 1945), bls. 39.
  5. Lbs 926 NF. Jón Pálsson. Mannlýsingar, bls. 110.