Góðtemplarahúsið

Byggingarár: 1887

Einlyft timburhús með bárujárnsþaki.

EIGANDI
1887 Stúkan Eyrarrós

 

Góðtemplarahreyfingin, sem starfaði á landsgrundvelli, stofnaði stúkuna Eyrarrós á Eyrarbakka árið 1886.

Ári síðar eða haustið 1887 byggðu stúkumenn fundahús í Háeyrarlandi rétt vestan við þar sem húsið Reginn reis síðar.
Guðmundur kaupmaður Ísleifsson hafði gefið lóð undir húsið og grjót í grunninn ásamt því að útvega timbur til húsbyggingarinnar á þriðjungsafslætti. Guðmundur var félagi í stúkunni og hlaut lof fyrir. „Sjaldgæfur fjelagsbróðir það! – enda færri sem geta fetað í hans fótspor, þótt þeir vildu. “1

Fyrir smíðinni stóð Jóhann Fr. Jónsson snikkari og vandaði hann bygginguna eftir því sem kostur var. Meðlimir gáfu margt handtakið.2 Húsið var vígt seint í nóvember 1887. Lýsing á húsinu er svohljóðandi:

Húsið er 12 al. langt, 10 al. breitt, 5¾ al. undir þakskegg, 6¾ al. undir hvelfing, með 3 stórum bogagluggum á hvorri hlið. Á vesturgafli þess er hvelft anddyri, 4 al. á hvern veg með bogaglugga yfir dyrum og 2 alþiljuðum skápum 4 al. undir þakskegg. Húsið er alþiljað með járnþaki og 2 járnbitum, dyrum á báðum göflum, og gangrið út frá anddyrinu. Í því er hitavjel, sæti fyrir ca. 150 manns, 4 púlt og 2 borð.3

Vorið 1888 var Eyrarrósin fjölmennasta stúka á landinu með 130 meðlimi.4

Eftir að Bræðrafélagið og stúkan Eyrarrós höfðu sameinast árið 1899 varð þörfin fyrir byggingu nýs og stærra samkomuhúss brýn. Góðtemplarahúsið var rifið haustið 1899.5 Nýtt hús templara, Fjölnir, var reist í kjölfarið.

ILB

Tilgátuteikning af Góðtemplarahúsinu á Stóru-Háeyri. Horft frá norð-austri. MKH

  1. Íslenzki Good-Templar, I. árg., nr. 11, ágúst 1887, s. 85-86.
  2. HérÁrn 2008/66-1 Guðmundur Guðmundsson. Bók merkt I.O.G.T.
  3. Íslenzki Good-Templar, II. árg. nr. 1-2, október-nóvember 1887, s. 13.
  4. Íslenzki Good-Templar, II. árg., nr. 8, maí 1888, s. 63.
  5. ÞÍ Endurskoðun REV. B. III. 32 a 1900.