Byggingarár: 1887 / 1891
Járnvarið timburhús með risi og steinsteyptum kjallara.
EIGENDUR
1887 Ólafur Gíslason
1891 Ólafur Gíslason
1898 Guðbjörg Sigurðardóttir
1902 Ingimundur Sveinsson
1904 Tómas Vigfússon
1909 Peter Nielsen
1911 Guðmundur Guðmundsson
1916 Diðrik Diðriksson
1942 Guðlaugur A. Þórarinsson
1949 Guðmundur Kr. Þórarinsson
1957 Róbert Sigurjónsson
1958 Benedikt Bjarnason
1967 Þorbjörg Katarínusdóttir
Húsið er reist árið 1891 og er það ártal byggt á því að þá er greiddur af því húsa-skattur í fyrsta sinn. Það er byggt af Ólafi Gíslasyni (1859–1898), formanni og utan- og innanbúðarmanni hjá Lefoliiverslun. Ólafur sá um að vigta upp kornvöru á kornlofti Vesturbúðarinnar sem var á lofti vestasta vöruhússins, Fönix.
Ólafur hafði áður átt torfbæ á sama stað sem var fyrst virtur til húsaskatts árið 1887. Bærinn var virtur á 500 kr. en húsið á 950 kr., en engin lýsing fylgir af bænum þegar hann er tekinn til virðingar.1 Líklegt er að húsið hafi verið byggt upp úr bænum. Ólafur var Bakkamaður.

Ljósmyndari Sigfús Eymundsson. Ljósmyndasafn Íslands í Þjóðminjasafni.
Við andlát Ólafs, sem dó úr blóðeitrun árið 1898, eignaðist kona hans Guðbjörg Sigurðardóttir (1851–1920) húsið, en hún var ættuð úr Vestmannaeyjum. Guðbjörg giftist aftur árið 1901 Ingimundi Sveinssyni ljósmyndara og sönglistamanni, bróður Jóhannesar Sveinssonar Kjarval. Ingimundur er síðan skráður eigandi hússins árin 1902–03 enda þótt hann hafi eignast það við hjúskap.2 Þau hjón munu hafa selt Götuhús og keypt sér hús við Skólavörðustíg í Reykjavík. Um Ingimund skrifaði Gunnar M. Magnúss þátt sem birtist í bókinni Ingimundur fiðla og fleira fólk og segir þar nokkuð af þeim húsakaupum og eftirmálum þeirra.3
Tómas Vigfússon formaður keypti húsið af þeim árið 1904 og átti hann það til 1911. Þá eignaðist húsið Guðmundur Guðmundsson bókari og bóksali. Guðmundur hafði áður byggt og búið í Kirkjuhúsi en flutti tímabundið til Reykjavíkur eftir að hann missti konu sína. Þegar Guðmundur hafði kvænst öðru sinni flutti hann aftur á Eyrarbakka. Handrit með æfiminningum Guðmundar var gefið út í litlu hefti af afkomenda hans og þar segir svo:
Haustið 1911 keypti ég af Pétri Nielsen húsið Götuhús á Eyrarbakka og hef í hyggju að láta gera við það að vori komanda og flytja svo í það […] Um miðjan júní 1912 fluttum við Snjólaug með Ástmund son okkar frá Hraungerði að Götuhúsum, þegar búið var að gera við húsið, og var það að viðgerðinni lokinni virt til brunabóta fyrir 2.400 krónur.4
Guðmundur hefur látið gera miklar endurbætur á húsinu. Það hafði fram að því verið virt á 950 krónur og hafði matið haldist óbreytt frá því húsið var byggt.

Ljósmyndari Agnes Lunn. Einkasafn ILB/MKH.
Þegar fasteignamati er komið á árið 1918 eru gerðar virðingar á öllum húsum og þá segir svo um Götuhús:
Íbúðarhús úr timbri, járnvarið 6.3 × 4.7 m, vegghæð 2.7 m, 1 hæð og kjallari (steinsteyptur), ris, 1 íbúð, 7 herbergi, byggt 1893 og 1912. Skúrar eru við húsið. Heyhlaða, fjós og hesthús með steinsteyptum veggjum og járnþaki.5

Ljósmyndari óþekktur. Safn Brunabótafélags Íslands í Þjóðskjalasafni.
Þegar Guðlaugur Agnar Þórarinsson (1915–1975) eignast húsið er sagt að annar skúrinn við húsið sé forstofa en hinn eldhús og þvottahús. Í framhaldi er Guðmundur Þórarinsson (1913–1975) kennari og örnefnasafnari og bróðir Guðlaugs skráður fyrir húsinu.

Ljósmyndari Sigurður Pálsson. Einkasafn ILB/MKH.
Húsið var stækkað í áföngum á sjötta áratugnum, byggt við það til austurs og því breytt í grundvallaratriðum. Meðal annars var sett á nýja húsið hallandi þak í átt að tísku þess tíma.
Ekkert er nú eftir af upphaflegu Götuhúsum, en nafnið lifir áfram á öðru húsi, sem stendur á sama stað, eins og aldahefð er fyrir á Eyrarbakka.
ILB
- ÞÍ Endurskoðun REV. B. III. 15 a.
- ÞÍ Endurskoðun REV. B. III. 34a.
- Gunnar M. Magnúss. Ingimundur fiðla og fleira fólk : heimildarþættir um menn og örlög. (Reykjavík: Vaka, 1982).
- Guðmundur Guðmundsson. Æfiágrip og ferðadagbók Guðmundar Guðmundssonar bóksala á Eyrarbakka. Viggó Ásgeirsson annaðist útgáfuna og ritaði formála. (Reykjavík: Viggó Ásgeirsson, 1996).
- ÞÍ. Fasteignamat 1916–1918. Árnessýsla III, bls. 136.