Höfn (eldri)

Byggingarár: 1921

Tvílyft timburhús.

EIGENDUR
1921 Gísli Jónsson
1923 Kaupfélagið Hekla

 

Húsið var upphaflega byggt í Þorlákshöfn af Gísla Jónssyni (1879–1924) tómthúsmanni. Hann tók það síðan niður, flutti á Eyrarbakka og endurreisti þar. Húsið fékk nafnið Höfn eftir Þorlákshöfn þar sem Gísli var fæddur og uppalinn. Gísli bjó með konu sinni Ólöfu Stefánsdóttur (1880–1957) og börnum um skamma hríð á Eyrarbakka. Þau fluttu til Reykjavíkur 1923.

Höfn fyrir miðri mynd. Til vinstri er Steinsbær. Hægra megin sést gaflinn á Pálsbænum og síðan Prestshús og Mið-Einarshöfn. Myndhluti.
Ljósmyndari Guðmundur Sigurðsson. Einkasafn ILB/MKH.

Húsinu var lýst svo við brunabótamat nýbyggðu:

Timburhús 6,7 m á lengd, 6 m á breidd, 5,3 m á hæð með skúr 6,7 m á lengd, 3,1 á breidd og 2,5 á hæð. Klætt undir járn með borðum og asfaltpappa. Þiljað innan niðri skipt í 3 herbergi og eldhús. Uppi eru 2 herbergi. Í skúrnum er inngangur og geymsla. Undir húsinu kjallari hlaðinn úr grjóti.1

Höfn til hægri á myndinni aftan við Nýhöfn. Steinsbær til vinstri.
Ljósmyndari Sigurður Kristjánsson. Einkasafn Jóns Sigurðssonar.

Kaupfélagið Hekla eignaðist húsið eftir að Gísli hafði sett það að veði fyrir skuldum sínum. Þegar Kaupfélagið Hekla ákvað að stofna útibú á Selfossi var húsið tekið niður öðru sinni sumarið 1925 og flutt á Selfoss þar sem Sigurður Ísleifsson endurreisti það. Verslun var í húsinu í skamma hríð undir merkjum Kaupfélagsins Heklu.2 Húsið átti sér síðan fjölþætt líf á Selfossi en það er önnur saga. Af því tók Kaupfélagið Höfn nafn sitt.

ILB


  1. Þí. Brunabótafélag Íslands 2012 Eyrarbakkaumboð, BA-0045, 1920-1929, bls. 71.
  2. Guðmundur Kristinsson. Saga Selfoss I. (Selfoss: Selfossbær, 1991), bls. 281.