Hólmsbær

Byggingarár: 1878

Timburhús á einni hæð með risi.

EIGENDUR
1879 Jón Þórhallason
1889 Guðjón Ólafsson
1918 Margrét Teitsdóttir

 

Rétt eftir að byrjað var að virða hús til húsaskatts er árið 1879 virtur bær þeirra Jóns Þórhallasonar (1835–1923) trésmiðs og konu hans Þórunnar Gísladóttur (1840–1908). Honum er lýst þannig:

Torfbær, 12 al á lengd, 6 al á breidd með lopti, óþiljað niðri.

Bærinn er virtur á 900 kr.1 Átta árum síðar er Jón skráður fyrir húsi sem virt er á 1.200 kr. Leiða má líkur að því að Jón hafi bætt bæinn, þiljað hann niðri og í því liggi hækkun á matinu. Jón og Þórunn fluttu vestur um haf með börn sín árið 1887.

Jón Þórhallason var einn helsti smiður á Suðurlandi á sinni tíð. Af því sem hann smíðaði þekkjum við samt aðeins tvær kirkjur Oddakirkju sem reist var árið 1884 og Stokkseyrarkirkju sem byggð var 1887–88 og enn stendur.2

Hólmsbær um 1920. Húsið sneri gafli í átt að sjó. Á myndinni sjást vel stéttar við húsið.
Ljósmyndari Sigþór Guðjónsson. Sjóminjasafnið á Eyrarbakka.

Guðjón Ólafsson (1853–1918) verslunarmaður hjá Einari Jónssyni keypti húsið við brottför Jóns og er skráður eigandi þess frá 1889. Kona hans var Margrét Teitsdóttir (1860–1933) og áttu þau tíu börn.

Margrét Teitsdóttir að spinna á rokk heima í Hólmsbæ.
Ljósmyndari Sigþór Guðjónsson. Sjóminjasafnið á Eyrarbakka.

Bænum er lýst svo við brunavirðingu árið 1916:

Íbúðarhús klætt undir járni með kantsettum borðum; að innan niðri þiljað og sumpart málað, skipt í 1 herbergi, eldhús og gang. Uppi allt þiljað til íbúðar. Skipt í 2 herbergi.- Útveggir úr járni og steini. B. Skúr rimlar undir járni á þaki. Á veggjum kantsett borð að innan. Sumpart þiljaður fyrir eldhús og inngang í húsið og geymslu. C. Skúr til geymslu á sama hátt og B. D. Eldhús partur á sperrum gamalt mjög.3

Guðjón varð síðar bókhaldari við Lefoliiverslun og sparisjóðsstjóri við Sparisjóð Árnesinga. Orð fór af því að Guðjón væri hagyrðingur. Sögufélag Árnesinga gaf út árið 2009 handrit eftir hann sem nefnist Vökulok og var með sagnaþáttum og sögulegum fróðleik.

Hólmsbær stóð austan við Hreggvið. Bærinn var rifinn árið 1926.

ILB


  1. ÞÍ Skjalasafn endurskoðunarinnar. Manntalsbókarreikningar 1880. Skrá yfir húsaskatt á Eyrarbakka.
  2. Lilja Árnadóttir. Eyrarbakki : Húsakönnun. Reykjavík 1989, s. 11.
  3. ÞÍ Brunabótafélag Íslands 2012 Eyrarbakkaumboð, BA-0004, 1916-1920, s. 42.