Ingólfur – veitingahús

Vertshús

Byggingarár: 1883

Timburhús, hæð og ris, með standandi klæðningu, pappa á þaki, miðjukvisti og listum á hornum.

EIGENDUR
1883  Bárður Nikulásson
1884  Jørgen Adolph Jacobsen

 

Hús í eigu Bárðar Nikulássonar (1850–1925) var tekið til virðingar til húsaskatts í ársbyrjun 1884 og var þá lýst þannig:

Íveruhús smíðað af Bárði Nikulássyni stendur á Eyrarbakkalóð. 12 álnir á lengd 8½ alin á vídd með óinnrjettuðum kjallara og 3ur verelsum, fordyrum Eldhúsi með eldavél, Skorsteini og með kamersi uppi á loptinu lítill kvistur 2 herbergi þiljuð 1 óþiljað virt á 3.500 krónur.1

Jóhann Fr. Jónsson mun hafa byggt húsið.

Bárður Nikulásson hafði verið búsettur á Eyrarbakka frá 1873 en fluttist ásamt konu sinni Hallfríði Oddsdóttur (1832–1918) til Washington-eyju í Mighicanvatni árið 1887. Þau höfðu flutt til Eyrarbakka úr Rangárvallasýslu, en Bárður komið þangað úr Skaftafellssýslu. Nafn Bárðar lifir enn á Eyrarbakka í örnefninu Bárðarbrú, heiti vegar sem lá á milli Hússins og Eyrarbakkakirkju upp mýrina í átt að Flóagafls- og Kaldaðarneshverfi. Bárður var verkstjóri við lagningu hennar og er hún þess vegna við hann kennd. Allir skattskyldir menn í hreppnum unnu kauplaust einn dag eða fleiri við gerð vegarins. Grjóti var safnað saman að vetri og hlaðið í hrúgur yfir verstu pyttina en hurfu síðan niður í mýrina þegar ísa leysti. Brúin var byggð um 1880.2

Ári eftir að húsið er fyrst virt er kominn nýr eigandi að því J[ørgen]. A. Jacobsen (f. um 1857) og aftan við nafn hans á lista yfir skattskyld hús er innan sviga skráð (Bárðar Nikulássonar hús). Jacobsen hafði verið stýrimaður á Skildi, járnbát sem Lefolliverslun átti og mun hafa verið fyrsti bátur þeirrar gerðar í eigu verslunarinnar.3 Jørgen var nýfluttur til Eyrarbakka ásamt konu sinni Caroline Carsten Jacobsen (f. um 1852) og tveimur sonum. Þau hófu rekstur á hóteli með veitingahúsi í húsinu sem hlaut nafnið Ingólfur. Í auglýsingu er sérstaklega tiltekið að frá því sé gott útsýni:

Hotel „Ingólfur”. Undirskrifaður leyfir sjer að vekja athygli ferðamanna að hotelinu Ingólfi á Eyrarbakka. Góður beini. Vægt verð. Herbergi með húsgögnum og fríðri útsjón fæst til leigu i sumar. Eyrarbakka 11. júni 1885. J. A. Jacobsen.4

Menn á hestum framan við Veitingahúsið Ingólf árið 1886.
Ljósmyndari Sigfús Eymundsson. Ljósmyndasafn Íslands í Þjóðminjasafni.

Ljósmyndir Sigfúsar Eymundssonar af hópi manna að kneyfa drykki framan við veitingahúsið gefa því ævintýralegan blæ. En reksturinn stóð bara í þrjú ár. Húsið brann til kaldra kola í árslok 1887. Um brunann segir í blaðafregn:

Á Eyrarbakka brann hús til kaldra kola aðfaranótt hins 19. þ. m., veitingahúsið »Ingólfur«, eign J. A. Jacobsens gestgjafa. Fólk komst nauðulega úr húsinu, hálfnakið ; litlu einu af rúmfatnaði bjargað, en öðru ekki, — ekki einu sinni peningum eða verðbrjefum. Haldið að eldurinn hafi komið af sprungu í reykkáfnum eða ofnpípunum við hann neðan til í húsinu. Með miklum dugnaði tókst að verja timburhúsin í kring, með votum seglum, og var þó ekki nema 2½ fet á milli stytzt, en það var áveðurs. — Allt var vátryggt, bæði húsið og innanstokksmunir, fyrir 2 árum.5

Ekki verður séð í prestþjónustubókum hvenær eða hvert þau Jacobsen hjón fóru með sonum sínum eftir brunann. Sagt er að Jørgen hafi dáið ekki löngu síðar. Grunnurinn að húsinu gekk í endurnýjun lífdaga þegar nýtt hús, Ingólfur, reis á honum og fékk nafn af veitingahúsinu.

ILB

Veitingahúsið Ingólfur á Eyrarbakka
Heldri borgarar kneyfa ölið við Veitingahúsið Ingólf árið 1886.
Ljósmyndari Sigfús Eymundsson. Ljósmyndasafn Íslands í Þjóðminjasafni.

  1. ÞÍ. Endurskoðun REV. B. III. 10 a 1884.
  2. Guðmundur Þórarinsson. Eyrarbakkahreppur. Örnefni. Sjóminjasafnið á Eyrarbakka 1997, s. 21.
  3. Vigfús Guðmundsson. Saga Eyrarbakka. II : I, s. 211.
  4. Ísafold 17.6.1885, s. 104.
  5. Ísafold 30.11.1887, s. 218.