Jóhannshús

Byggingarár: 1883

Timburhús á tveimur hæðum með miðjukvisti og skúrbyggingu með annarri langhlið.

EIGENDUR:
1883 Jóhann Fr. Jónsson
1890 Ingunn Einarsdóttir

 

Jóhann Friðrik Jónsson (1866–1890) snikkari flutti frá Hvítárholti í Hrunamannahreppi á Eyrarbakka árið 1880 með konu sinni Ingunni Einarsdóttur (1850–1937).1

Hann byggði hús fyrir fjölskyldu sína árið 1883. Það var virt þannig nýbyggt:

Íbúðar hús Snikkara Jóhanns Fr. Jónssonar á Eyrarbakka stendur á sömu lóð (Stóru Háeyrarlóð), 15 álna lángt, 10 álna vítt, með kjallara, 3 ur herbergjum undir lofti Eldhúsi með eldavjél, Skorsteini og matarkammessu, og forstofu, uppá loptinu er kvistur í gégnum húsið og 4ur herbergi þar af 2 innrjéttuð, húsið er ekki gjört að fullu. Virt á 4.900 krónur. 2

Húsið var ákaflega vandað að gerð, eins og hátt matsverð þess vitnar um. Stóð á steinhlöðnum kjallara við sjógarðshliðið hjá Hliði. Húsið var með miðjukvisti með skreyti á vindskeiðum. Það var með liggjandi klæðningu og tréskífuklætt á þaki og efst á gafli. Bjórar yfir gluggum. Skúr var við gafl hússins að norðanverðu. Það var af svokallaðri dansk íslenskri gerð yngri.

Jóhannshús á Eyrarbakka
Ferðamannalest framan við Jóhannshús. Bændur sem komu í kaupstað á Eyrarbakka riðu neðan sjógarðs þar til þeir komu að sjógarðshliði austan við Gónhól. Þar var farið inn á stíginn sem lá í gegnum byggðina og haldið að verslunarhúsunum. Hlaðið framan við Jóhannshús hefur því verið fjölfarið á kauptíðunum meðan sunnlenskir bændur komu enn í kaupstað á Bakkanum.
Ljósmynd Sigfús Eymundsson. Ljósmyndasafn Íslands í Þjóðminjasafni.

Jóhann gegndi lykilhlutverki í uppbyggingu á Eyrarbakka þann áratug sem hann var þar búsettur. Meðal húsa sem hann byggði voru veitingahúsið Ingólfur, Guðmundarhús og hann teiknaði frumdrög að Eyrarbakkakirkju.

Jóhann lést árið 1890 og eignaðist ekkja hans þá húsið. Hún bjó um skamma hríð áfram í húsinu en giftist aftur og flutti upp í Grímsnes. Eftir það var húsið leigt út. Það brann til ösku þann 29. ágúst 1895. Voru strax uppi grunsemdir að um íkveikju hefði verið að ræða. Einn leigjenda í húsinu þegar það brann var Þorsteinn Eiríksson (1872–1953) ljósmyndari sem dvaldi þar sumarið 1895 og vann við myndatökur. Áratugum síðar játaði Þorsteinn á sig glæpinn. Hann hafði kveikt í fyrir áeggjan eiginmanns Ingunnar og verið heitið greiðslu fyrir enda húsið vel tryggt. Þorsteinn flýði land og flutti til Skotlands.3

Í Dómabók Árnessýslu frá 1895 segir m.a.:

Í gær var vitnið optast nær í húsinu og kveikti ljós í kvistherberginu kl. 9 í gærkveldi. Var það vaxkerti, sem hann setti á borð, sem stóð upp við þilið. Með því að hann hafði engan stjaka, þá festi hann kertið á þann hátt, að hann bræddi undir það. Kertið stóð á miðju borði og ekki nærri þilinu. Sat vitnið við ljós þetta til kl. 10. Þá tók hann kertið og bar það niður stigann og slökkti á því í eldhúsinu. Eptir að hann hafði slökkt ljósið missti hann niður lykla og kveikti því á einni eldspítu til þess að lýsa að lyklunum, sem hann fann strax. Slökkti hann þá á eldspítunni með því að stíga ofan á hana og þorir hann að fullyrða, að bruninn hafi ekki getað orsakast af þeirri spítu.4

Seinna reis Garðbær, sem Guðmundur Sigmundsson byggði, á kjallara Jóhannshúss.

ILB

Jóhann og Ingunn við Jóhannshús
Jóhann á hesti og Ingunn í dyrum Jóhannshúss.
Ljósmynd Sigfús Eymundsson. Ljósmyndasafn Íslands í Þjóðminjasafni.

  1. Prestsþjónustubók 1880: ÞÍ. Stokkseyri í Flóa / Eyrarbakki – prestakall 0000 BA/3-1-1, s. 260 og Sóknarmannatal 1880: ÞÍ. Stokkseyri í Flóa / Eyrarbakki – prestakall 0000 BC/2-1-1, s. 114.
  2. ÞÍ. Skjalasafn endurskoðunarinnar. Manntalsbókarreikningar 1884.
  3. Minnisblað í bréfi frá Ingólfi Einarssyni dags. 20. nóv. 1994 í fórum höfunda.
  4. ÞÍ Sýslumaðurinn í Árnessýslu 0000 GA/9-3-1. Dómabók 1894–1896, s.162.