Byggingarár: 1891
Timburhús, ein burst með skúrbyggingu á annarri langhlið og með hálfum grjótvegg á hinni langhliðinni.
EIGANDI
1898 Oddur Oddsson
Húsið var byggt af Oddi Oddssyni (1867–1938) gullsmið og leturgrafara fyrir fjölskyldu hans og konu hans Helgu Magnúsdóttur (1867–1949) þegar þau fluttu til Eyrarbakka austan úr Fljótshlíð.
Það var tekið til virðingar í árslok 1898.
Timburíbúðarhús Odds Oddssonar á Oddsstöðum (áður á Sámsstöðum) 9 al langt 7 al breitt. Járnvarið þak og suður hlið. Með skúrum á 2 kanta. Með járnþaki. Alt annað trjeklætt með listum. Húsið er portbyggt. Inn undir lofti eru 2 stofur og forstofa uppi á lofti er Baðstofan og Eldhús með stórri eldavél. Húsið stendur á Stóruháeyrarlóð. Kr. 1.758.1
Húsið stóð þar sem seinna reis húsið Merkisteinn og var svæðið nefnt á Flötunum.

Herbergjaskipan hússins var með eftirfarandi hætti: Niðri var gangur eftir endilöngu húsinu norðanverðu með inngöngudyrum á vesturgafli. Sunnan við ganginn voru þrjú herbergi, vestast svefnherbergi, í miðið einnig svefnherbergi og austast smíða-stofa. Úr smíðastofunni var innangengt í skúr við austurgaflinn sem var notaður sem geymsluhús. Úr þeim skúr var innangengt í annan skúr við norðurhlið hússins. Þar var bás fyrir eina kú. Í vesturhluta skúrsins var geymt hey. Í risinu var geymsluherbergi að vestanverðu og eldhús til austurs.2
Nóttina milli 10. og 11. janúar 1899 brann húsið ásamt skúrunum til kaldra kola. Um kvöldið hafði heimilisfólkið gengið til náða um kl. 10. Auk hjónanna Odds og Helgu voru það fjögur börn þeirra frá tveggja ára aldri til átta ára, vinnukona og bróðir Helgu sem var þar næturgestur þessa nótt. Veður var kalt og hvasst af norðaustan með lágum skafrenningi. Nokkru fyrir miðnætti eða upp úr kl. 11 vaknaði Oddur við það að yngsta barnið, sem svaf hjá þeim hjónum í miðherberginu, fór að hljóða. Hann klæddi sig í snatri og lauk upp hurðinni fram á ganginn sem þá var að fyllast af reykjarsvælu. Hann hljóp að vestursvefnherberginu og kallaði til fólksins þar, vinnukonunnar, næturgestsins og hinna barnanna þriggja, að þau skyldu klæða sig. Hann opnaði síðan útidyrnar og mætti þar þá Gísla Þorgrími Gíslasyni (1876–1947), vinnumanni í Steinskoti, sem hafði séð að kviknað var í húsinu þegar hann var á heimleið að Steinskoti eftir að hafa vakað yfir veiku hrossi í Mundakoti. Tókst þeim að bjarga börnunum vöfðum í yfirsængur út úr húsinu ásamt öðru heimilisfólki. Aðeins náðist að bjarga litlu af fötum og litlum skáp út úr húsinu áður en það varð alelda.3
Engin ljósmynd er til af húsinu.
ILB / MKH
- ÞÍ Skjalasafn endurskoðunarinnar. Manntalsbókarreikningar 1898.
- ÞÍ. Sýslumaðurinn í Árnessýslu 0000 GA/10-1-1, s. 151.
- Sama, s. 152–153.