Samúelshús

Grund – Skarð

Byggingarár: 1898

Timburhús á tveimur hæðum með bogaþaki og skúrbyggingu með langhlið að norðan.

EIGENDUR:
1898 Samúel Jónsson
1905 Sigurður og Jóhannes Einarssynir

 

Húsið var byggt árið 1898 af Samúel Jónssyni (1864–1937) trésmið fyrir hann og fjölskyldu hans. Samúel og Margrét Jónsdóttir (1860–1932) kona hans fluttust til Eyrarbakka frá Hunkubökkum á Síðu í Skaftafellssýslu árið 1890. Samúel hafði búið á Eyrarbakka áður því hann lærði trésmíðar hjá Jóni Þórhallasyni trésmið og tók sveinspróf þar árið 1881.1 Samúel gerðist síðan sveitasmiður austur á Síðu þar til hann sneri aftur á Eyrarbakka.

Þau Margrét bjuggu í Nýjabæjarhverfinu í bæ, sem ekki var talinn virðingarbær, og er oftast bara listaður upp sem Nýibær í sóknarmanntölum, en einnig nefndur öðrum nöfnum eins og Grund, Nýborg og Hábær. Þegar frá líður eru búsettir hjá Samúel og Margréti lærlingar frá einum og upp í þrjá.

Nýbyggt hús Samúels var tekið til virðingar í árslok 1898 og lýst þannig:

Timburíbúðarhús Samúels Jónssonar trjesmiðs 11 al. Langt. 7 al. breitt 2 tasíur á hæð. Með bogaþaki alt járnvarið. Við norðurhliðvegg hússins er skúr 11 al. Langur 4 ½ al breiður, innrjettaður fyrir Eldhús, Búr og geymsluklefa. Inni í húsinu eru 3 herbergi, Verkstæði, stofa og forstofa. Uppi á lofti er Baðstofan og svefnherbergi 2, alinnrjettuð og máluð. Húsið stendur á Stóruháeyrarlóð. Kr. 2.700. 2

Eftir að húsið brennur í janúar árið 1916 lýsir annar eigandi þess, Sigurður Einarsson, húsinu við yfirheyrslur fyrir lögreglurétti Árnessýslu á þennan hátt:

Stærð hússins segir yfirheyrður að verið hafi nál. 10 al. lengd, 7 al. breitt, aðalhúsið, tvílyft, auk skúrbyggingar, er var jafn löng húsinu, 10 aln. og nál. 4 al. á breidd, 4 ½ al. á hæð. og þannig lægri en húsið sjálft sem var nál. 3 aln. undir loft, hvor lyfting, uppi og niðri að meðtöldu búri og 3 á efri hæð, auk risins á skúrbyggingunni. Undir húsinu var smákjallari. Telur hann húsið hafa verið í sæmilegu standi. 3

Þegar sóknarmanntal er tekið 1898 er húsið nefnt Grund, en síðan Skarð árin 1899 og 1900.4 Samúel bjó stutt í húsinu því hann fluttist til Reykjavíkur árið 1901. Ekki var farið að kenna húsið við fyrsta eiganda þess fyrr en árið 1905 þegar heitið Samúelshús kemur fram. Samúel leigði húsið út og seldi það síðar bræðrunum Sigurði Einarssyni símstöðvarstjóra á Stokkseyri og bróður hans Jóhannesi bónda á Einarsstöðum í Grímsnesi. Þeir leigðu húsið einnig út. Þar bjuggu prentararnir Jón Helgason (1877–1961) og Karl H. Bjarnason (1875–1957) þegar þeir störfuðu í Prentsmiðju Suðurlands, og Kjartan Guðmundsson (1885–1950) ljósmyndari bjó þar einnig um tíma. Þegar Gísli Pétursson læknir flutti til Eyrarbakka 1914 bjó hann þar fyrst einn en síðar með fjölskyldu sinni.

Tilgátuteikning af Samúelshúsi. Horft frá vestri. MKH

Húsið brann til kaldra kola í ársbyrjun 1916. Brunanum er lýst þannig:

Læknishúsið, Gísla Péturssonar, brann til ösku kvöldið 26. janúar 1916. Haldið var að eldurinn hafi kviknað frá ljósi í stúlknaherbergi. Fólkið komst út án slysa, en læknirinn og faðir hans brenndust þó lítið eitt á höfði. Eigi varð öðru bjargað en fötum úr rúmum tveimur, stólum nokkrum og einhverju af skjölum læknisins. Allt annað brann er inni var, þar á m. áhöld og meðul, er var óvátryggt, og tjón læknisins talið um 6000 kr. 5

Eiríkur Gíslason, trésmiður á Gunnarshólma, var einn af þeim fyrstu til að koma á brunastaðinn. Hann byrjaði á því að kanna hvort allir heimilismenn væru komnir út úr húsinu og fékk þær upplýsingar að svo væri. Menn hófu síðan tilraunir til þess að bjarga einhverju úr brennandi húsinu en varð lítið ágengt.

Lögregluréttur Árnessýslu var haldinn á Eyrarbakka strax næsta dag til þess að rannsaka brunann. Voru heimilismenn og aðrir viðstaddir yfirheyrðir af settum sýslumanni, Eiríki Einarssyni. Ekki komst rétturinn að því með óyggjandi hætti hver voru upptök eldsins.

Eiríkur Gíslason greindi frá því við yfirheyrslur að hann hafi annast viðgerðir á Samúelshúsi og eldfærum þess eftir eldsuppkomu í desember árið fyrr. Hann taldi ofna, reykháf og eldavél í forsvaranlegu standi eftir viðgerðina og fannst ólíklegt að eldsuppkoman hafi í þetta seinna skipti stafað af eldfærum hússins. Hann áleit að eldurinn hafi komið upp í svefnherberginu í skúrbyggingunni þar sem enginn ofn var eða ofnpípa.6 

MKH

Afstaða Samúelshúss til næstu húsa
Samúelshús og húsin í næsta nágrenni.
Tilgátuteikning MKH

  1. Óðinn 24. árg. 10.-12. tbl. 1928, s. 97. Morgunblaðið 16.11.1937, s. 6.
  2. ÞÍ Skjalasafn endurskoðunarinnar. Manntalsbókarreikningar 1898. Skrá um húsaskatt.
  3. Endurrit úr dómabók Árnessýslu í fórum Vikars Péturssonar.
  4. ÞÍ. Stokkseyri í Flóa / Eyrarbakki – prestakall 0000 BA/4-1-1
  5. Vigfús Guðmundsson. (1949). Saga Eyrarbakka. 2 (1), bls. 213. Reykjavík: Víkingsútgáfan.
  6. Endurrit úr dómabók Árnessýslu í fórum Vikars Péturssonar.