Sandgerði

Byggingarár: 1891

Timburhús, ein burst með skúrbyggingu á annarri langhlið og með hálfum grjótvegg á hinni langhliðinni.

EIGENDUR:
1891 Guðmundur Guðmundsson
1920 Guðmundur Ísleifsson

 

Húsið var reist árið 1891 fyrir Guðmund Guðmundsson (1850–1930) verslunarmann við Lefoliiverslun og meðhjálpara við Eyrarbakkakirkju og konu hans Katrínu Hannesdóttur (1853-1919). Þau bjuggu í húsinu þar til að Katrín lést og Guðmundur síðan skamma hríð eftir það.

Því er lýst svo við virðingargjörð nýbyggðu:

Íbúðarhús Guðmundar Guðmundssonar á Sandgerði stendur á Háeyrarlóð á Eyrarbakka. Hús þetta er á lengd: 10 ál., á breidd 6 1/2 al., byggt af timbri með grjótveggjum að hálfu leyti, með járnþaki. Allt innrjettað undir loptinu, og uppi á loptinu að nokkru leyti.1

Í virðingarbók Brunabótafélagsins árið 1918 hljómar lýsingin þannig:

Íbúðarhús með litlum inngangsskúr, og með kjallara undir, klætt undir járn á þaki, og veggjum með kantsettum borðum. Að innan þiljað, skipt niðri í 2 herbergi og eldhús. Uppi óinnrjettuð geymsla. Gamalt og ljélegt.2

Guðmundur Ísleifsson á Háeyri eignast húsið árið 1920. Hjónin Símon Símonarson og Ingibjörg Gissurardóttir, síðar í Þórshöfn, bjuggu í húsinu fyrst eftir að þau fluttu á Eyrarbakka. Húsið var rifið sumarið 1922. Húsið Ásaberg var byggt á sama stað í kjölfarið.

ILB

Húsið Sandgerði á Eyrarbakka
Sandgerði um aldamótin 1904. Vestari Vegamótabær til vinstri og Björgvin til hægri. Katrín Hannesdóttir stendur við útidyrnar.
Ljósmynd Magnús Gíslason. Ljósmyndasafn Íslands í Þjóðminjasafni.

  1. ÞÍ Skjalasafn endurskoðunarinnar. Manntalsbókarreikningar 1891.
  2. ÞÍ Brunabótafélag Íslands 2012 Eyrarbakkaumboð, BA-0004, 1916-1920. Afrit á vef Héraðsskjalasafns Árnesinga.