Skúmsstaðir

Mangabær

Byggingarár: 1899

Timburhús á einni hæð, bárujárnsklætt, á hlöðnum kjallara.

EIGENDUR
1899 Jóhann Gíslason
1905 Jóhann Guðmundsson
1908 Kristmundur Jónsson
1915 Magnús Árnason
1938 Kristinn Vilmundarson
1945 Guðrún Guðjónsdóttir

 

Í árslok 1899 er virt nýbyggt hús Jóhanns Gíslasonar (1862–1946) formanns á Skúmsstöðum. Því er lýst þannig:

9 al langt 6 al breitt einlyft með járnþaki, veggir og gaflar pappaklæddir, við suðurenda hússins er skúr 2 ½ og 1 ½ al, með jarnþaki. Inni er húsinu skift í 2 herbergi. Baðstofu og eldhús – með eldavél og leirrörum kjallari er undir húsinu og steinlímdur grunnur.1

Jóhann var fæddur á Eyrarbakka en kona hans Ingibjörg Rögnvaldsdóttir (1865-1946) var ofan af Skeiðum. Þau bjuggu í húsinu með sinn stóra barnahóp í fáein ár. Húsið gekk síðan kaupum og sölum.

Skúmsstaðahverfið
Handlituð ljósmynd af Mangabæ og næsta nágrenni. Frá vinstri: Sér í Hólmsbæ, Mangabær, Skúmsstaðir 5, Brenna og Norðurkot.
Ljósmyndari Sigurður Kristjánsson. Einkasafn MKH.

Húsið hefur verið bárujárnsklætt síðar, að minnsta kosti fyrir 1916 þegar úttekt Brunabótafélagsins er gerð. Þá er líka búið að byggja skúr meðfram langhlið hússins að vestanverðu.2

Einn eigandi hússins, Magnús Árnason (1877–1960), hefur þó sett sérstakt mark sitt á húsið því þegar hann flytur í húsið þá er farið að kenna það við hann og kalla það Mangabæ og hélst það heiti á húsinu eftir að hann flutti burt úr því.

Skúmsstaðir - Mangabær
Nærmynd af Mangabæ og Skúmsstöðum 5 sem sýnir vel hversu lítið húsið var.
Ljósmyndari Dagbjartur Guðmundsson.
Ljósmyndasafn Íslands í Þjóðminjasafni.

Þegar byggt var við húsið árið 1950 kemur fram að þá þegar var búið að lengja það úr 5,8 m í 8,15 m, en ekki er vitað hvenær sú stækkun var gerð. Enginn kjallari var undir þessari viðbót við húsið. Hin nýja viðbygging var skúr með inngangi, salerni og geymslu og var byggð úr holsteini, múruð að innan og járnklædd að utan. Samhliða er þak hússins allt endurbætt og sett á það asbestþak yfir tjörupappa.3

Húsið var rifið um 1982.

ILB


  1. ÞÍ Endurskoðun REV. B. III. 32 a 1900.
  2. ÞÍ Brunabótafélag Íslands 2012 Eyrarbakkaumboð, BA-0004, 1916-1920.
  3. ÞÍ Brunabótafélag Íslands 2012 Eyrarbakkaumboð, BA-oo48, 1933-1959.