Slökkváhaldaskúr

Byggingarár: 1914

Járnvarinn skúr með steyptu gólfi, sambyggður öðru húsi.

EIGANDI
1914  Eyrarbakkahreppur

 

Árið 1907 voru samþykkt á Alþingi lög um brunamál þar sem kveðið var á um, að á öllum verslunarstöðum með fleiri en 300 íbúa skyldi „jafnan vera til að minnsta kosti ein slökkvidæla að stærð og gjörð eptir því sem stjórnarráðið tekur gilt, ásamt tilheyrandi nauðsynlegum slöngum og brunastútum“. Hver sveitarsjóður átti að bera kostnað af dælunni og sjá um að geyma dæluna á þeim stað þar sem auðvelt væri að nálgast hana þegar eldsvoða bæri að höndum. Jafnframt var skylt að stofna slökkvilið með öllum verkfærum körlum á aldrinum 20 til 60 ára búandi á viðkomandi verslunarstað. Lögin tóku þegar gildi.1

Hreppsnefnd Eyrarbakkahrepps sinnti lítt um þessar skyldur sínar fyrr en Stjórnarráð Íslands krafðist þess að úr yrði bætt.2

Á hreppsnefndarfundi 22. nóvember árið 1913 er eftirfarandi samþykkt og bókað:

Útaf vantandi húsnæði fyrir slökkvidælu hreppsins, var það samþykkt, að byggja skúr eða skýli fyrir áhöldin, svo framarlega sem ekki fæst viðunandi húsnæði fyrir þau á annan hátt. Oddvita falið að reyna með húsnæði á annan hátt, ef kostur er, svo og að útvega lóð undir skýli, ef byggt verður.3

Á sama fundi var kosinn slökkviliðsstjóri herra járnsmiður Einar Jónsson á Bergi.

Handslökkvidælan sem geymd var í Slökkviáhaldaskúrnum á Háeyri. Nú í Sjóminjasafninu á Eyrarbakka.
Ljósmyndari Magnús Karel Hannesson. Einkasafn ILB/MKH.

Í reikningi yfir tekjur og gjöld Eyrarbakkahrepps fardagaárið 1913–1914 er þetta tilgreint:

Slökkviáhöld 1.549/- + Hús fyrir 203/90.4

Af þessu má draga þá ályktun að Slökkviáhaldaskúrinn hafi verið byggður veturinn 1913–14. Hann var reistur sem viðbygging við Austurbúðina og stóð þar stakur áfram eftir að það hús var tekið niður árið 1926. Skúrinn gegndi hlutverki sínu þar til Brunaskúrinn var byggður árið 1933.

Árið 1916 virti Eiríkur Gíslason, trésmiður á Gunnarshólma, skúrinn til brunavirðingar og lýsir honum svo:

Skúr 4,4 × 2,5 hæð 1,8. Rimlar undir járni á þaki og veggjum. Steinsteypt gólf.5

Engin ljósmynd er til af Slökkviáhaldaskúrnum eða þeirri hlið Austurbúðarinnar sem hann stóð við.

Tilgátuteikning af Slökkviáhaldaskúrnum þar sem hann stóð við norðausturhorn Austurbúðarinnar. MKH

MKH

Textinn í pdf-skjali.


  1. Lög um brunamál nr. 85/1907. Stjórnartíðindi fyrir Ísland A. (Kaupmannahöfn: 1907), bls. 496–512.
  2. Inga Lára Baldvinsdóttir. Margur í sandinn hér markaði slóð. (Eyrarbakki: Eyrarbakkahreppur, 1998), bls. 94.
  3. HérÁrn. 1987/2 Eyrarbakkahreppur. Fundargerðabók Hreppsnefndar 1897-1920, bls. 426.
  4. Sama, bls. 449.
  5. Eiríkur Gíslason. Brunabótamat á Eyrarbakka 1916–1929. Ljósrit í fórum höfunda.