Byggingarár: 1900
Bárujárnsklætt timburhús með brotnu mansard-þaki.
EIGANDI
1920 Jón Jónsson
Hjónin Jón Jónsson (1866–1950) og Guðbjörg Gísladóttir (1856–1946) eru fyrst skráð fyrir búi í Steinskoti aldamótaárið 1900. Þau voru stjúpsystkini, Guðbjörg var dóttir Gísla Gíslasonar (1830–1891), bónda í Steinskoti og Jón sonur Þórnýjar Guðmundsdóttur (1835–1910) konu Gísla. Þau Jón og Guðbjörg höfðu því verið búsett í Steinskoti í nokkurn tíma áður en þau tóku þar við búskapnum. Þau létu byggja timburhús árið 1900, það fyrsta á þeim bæjarhól. Engin lýsing er til af því nýbyggðu því að íbúðarhús á ábúðarjörðum voru undanþegin húsaskatti. Húsinu er lýst þannig í fasteignamati 1916–18:
Íbúðarhús úr timbri járnvarið 5.5 × 4.4 m, 1 hæð og kjallari, brotið þak, 1 íbúð, 2 herbergi, byggt 1900. Útieldhús.1
Þegar Eiríkur Gíslason lýsir húsinu við brunamatsgerð árið 1916 nefnir hann að aðeins þak og framhlið séu járnklædd til fulls, að grjótveggir séu á húsinu að hálfu á tvo kanta og að vesturgaflinn sé pappaklæddur.2 Samkvæmt þessu hefur húsið verið byggt inn í tóft af síðasta torfbænum, sem þarna hefur staðið áður, að norðan- og vestanverðu. Með brotnu þaki er átt við að húsið hafi verið með mansardþaki. Hér er komið enn eitt aldamótahúsið með slíku þaklagi á Bakkanum.

Ljósmyndari Agnes Lunn. Byggðasafn Árnesinga.
Húsið var rifið árið 1924 og nýtt hús var risið á sama stað í nóvember sama ár.3 Guðmundur Jónsson, sonur þeirra Jóns og Guðbjargar er skráður fyrir búinu í sóknarmannatali árið eftir. Þeir feðgar hefja báðir búskapinn með því að reisa sér nýtt hús, hvor á sínum tíma.
ILB
- ÞÍ. Fasteignamat 1916–1918. Árnessýsla III, bls. 106. Þar er byggingarár hússins tilgreint.
- Eiríkur Gíslason. Brunabótamat á Eyrarbakka 1916–1929. Ljósrit í fórum höfunda.
- Eiríkur Gíslason. Brunabótamat á Eyrarbakka 1916–1929. Ljósrit í fórum höfunda.