Stíghús 2

Eiríkshús – Þórdísarhús

Byggingarár: 1892

Timburhús með brotnu mansardþaki og skúr meðfram annarri langhlið.

EIGENDUR
1892 Eiríkur Guðjónsson
1894 Bergsteinn Jónsson
1894 Þórdís Símonardóttir
1919 Guðmundur Halldórsson
1956 Teitur Sveinsson
1978 Eyrarbakkahreppur

 

Eiríkur Guðjónsson (1864–1943) skósmiður byggði sér hús í landi Háeyrar árið 1892. Undir lok sama árs kvæntist hann Vilborgu Sigurðardóttur (1862–1950), en hún hafði áður verið bústýra hans. Eiríkur var úr Villingaholtshreppi en Vilborg kom á Bakkann austan úr Rangárvallasýslu.
Í virðingu til húsaskatts sem skrifuð er í árslok 1892 er húsinu lýst þannig:

8 ál á lengd; 7 ál á vídd. Skúr við aðra hlið hússins, 8 ál á lengd, 3 ½ al á vídd. Í húsinu eru 4 herbergi nl. 1 stofa, 1 verkstæði, 1 eldhús, 1 forstofa. Uppi á lofti innrjettað íbúðarverelsi með 1um ofni. Undir húsinu er kjallari úr steinlímdu grjóti. Reykháfur hlaðinn úr tígulsteini steinlímdur. Þak hússins klætt járni, veggir og stafnar klæddir borðum.1

Nokkur hús með mansard þaklagi voru byggð á Eyrarbakka á árunum á milli 1889–1902. Þau eru flest minni en slík hús annars staðar. Mansardþakið á Stíghúsi var með broti á þaki og með mjórri gafli og því minna um sig en önnur hús með mansardþaki á Bakkanum. Miðað við ljósmyndir hefur skúrinn verið lengdur á einhverju stigi.

Stíghús um 1905. Við austurhlið skúrsins hefur verið kamar. Eyvakotsbæir til vinstri. Myndhluti.
Ljósmyndari Magnús Gíslason. Ljósmyndasafn Íslands í Þjóðminjasafni.

Þau Eiríkur og Vilborg bjuggu stutt í húsinu og fluttu til Reykjavíkur þar sem hann stundaði skósmíðar en hélt fyrri háttum og fór til sjós á vertíð eins og verið hafði á Eyrarbakka. Meðan Eiríkur bjó í húsinu var það við hann kennt. Seinna bjó þar lengi Þórdís Símonardóttir ljósmóðir og var það þá kennt við hana. Bæði Þórdís og næsti eigandi leigðu út frá sér, hjónum með tvö börn, og var húsið þó ekki stórt.

Lengsta búsetu í húsinu hafði Guðmundur Halldórsson (1887–1963) sem flutti til Eyrarbakka með móður sinni Margréti Daníelsdóttur (1856–1932) og systur, Maríu (1892–1979), austan úr Landeyjum. Guðmundur var úrsmiður og var kallaður Gvendur Úri. Úrsmíðastofa hans var í litlu herbergi við innganginn í húsið. Eftir að Guðmundur eignaðist bíl stundaði hann einnig bifreiðaakstur gegn greiðslu.

Hann byggði tvöfaldan bílskúr norðar í lóðinni. Líkt og víðar á Bakkanum var stundaður búskapur af heimilisfólkinu í Stíghúsi og þar var seld mjólk í tíð Guðmundar og Maríu.

Stíghús sumarið 1977. Ljósmyndari Gunnar Elísson. Ljósmyndasafn Reykjavíkur.

Eyrarbakkahreppur keypti Stíghús 2 árið 1978 þar sem það var talið hindra eðlilega umferð um götuna og var það rifið sama ár.2

ILB


  1. ÞÍ. Endurskoðun REV. B. III. 25. a.
  2. HérÁrn. 1998/16 Eyrarbakkahreppur. Fundargerðarbók hreppsnefndar 1974-1982.