Þórsmörk

Trésmiðjan

Byggingarár: 1922 – 1932 – 1950 

Steinsteypt hús með háu risi, trésmiðja steinsteypt með háu risi og braggalaga timburgeymsla.

EIGENDUR:
1922 Símon Símonarson
1925 Bergsteinn Sveinsson
1935 Bergsteinn Sveinsson, Guðmundur Einarsson, Guðmundur H. Eiríksson, Vigfús Jónsson
1968 Hraðfrystistöð Eyrarbakka

 

Árið 1919 fluttu hjónin Símon Símonarson (1890–1960) og Ingibjörg Gissurardóttir (1888–1977) utan úr Ölfusi til Eyrarbakka.1 Þau bjuggu fyrst í Sandgerði, síðan í Kirkjubæ og Brennu. Árið 1921 hófu þau smíði á húsi vestast í þorpinu sem fékk nafnið Þórshöfn og fluttu þar inn á árinu 1922 ásamt tveimur börnum sínum, Gissuri (1920–2008) og Ingunni (1921–2001), og vinnukonunni Ingibjörgu Ágústu Gissurardóttur (1906–1981).2

Húsinu er lýst þannig í brunavirðingarbók í desember 1921:

Íbúðarhús í smíðum. L. 7 m. Br. 6,3 m. H. 5,5 m. Útveggir úr steinsteypu og asfaltpappa. Þak klætt járni. Tala glugga 7. Yfir kjallara er loptið þiljað innan til íbúðar og er því skipt í 2 herbergi og eldhús. 3

Í október árið eftir er smíði hússins lokið og það virt að nýju og þá undir heitinu Þórshöfn. Stærðir eru þær sömu og áður en lýsing orðuð með öðrum hætti:

Uppi þiljað og skipt í 2 herbergi, undir er kjallari steinsteyptur. Þak klætt járni. 4

Þann 23. desember 1921 ritar Eiríkur Gíslason (1869–1942) brunavirðingarmaður í minnisbók sína svohljóðandi lýsingu á húsinu:

Íbúðarhús 7 × 6,3 v.h. 2,5 ris 3. Niðri geimsla uppi skipt í 2 herbergi og eldhús. Steinsteypuveggir. Járnþak. 5

Kjallarinn sem nefndur er í brunavirðingarbókunum er í raun jarðhæðin, en hún var niðurgrafin um 60 sm. Hæðin var óinnréttuð og því nefnd geymsla. Á rishæðinni var íbúðin.

Árið 1925 flytja Símon og Ingibjörg frá Eyrarbakka til Reykjavíkur. Það ár kaupir Bergsteinn Sveinsson (1879–1962), múrari og athafnamaður, á Eyrarbakka húsið og flytur þangað og býr í húsinu, eða hafði þar a.m.k. heimilisfesti, allt til ársins 1935.

Grein úr Tímanum
Greinarhluti eftir Þórð Jónsson sem birtist í Tímanum 23. janúar 1940.

Á árinu 1930 stofnaði Bergsteinn í samvinnu við Vigfús Jónsson (1903–1989), síðar oddvita Eyrarbakkahrepps, hlutafélag um rekstur trésmíðaverkstæðis á Eyrarbakka. Síðar komu inn í félagið trésmiðameistararnir Guðmundur H. Eiríksson (1899–1984) í Merkigarði og Guðmundur M. Einarsson (1908–1989) í Ásheimum og gerðust þar hluthafar til jafns við þá Bergstein og Vigfús. Trésmiðjan var sett upp á neðri hæðinni í Þórshöfn sem var þó ekki nema um 44 m2.

Trésmiðja Eyrarbakka h/f var rekin allt til ársins 1952 og var blómatími hennar og vöxtur fram á fimmta ártuginn eða þar til Kaupfélag Árnesinga hóf rekstur á sínu eigin trésmíðaverkstæði á Selfossi. Trésmiðjan á Eyrarbakka hafði allt frá stofnun sinnt miklum verkefnum fyrir KÁ ekki síst fyrir þá sök að kaupfélagið flutti inn mikið af timbri og skipaði því upp á Eyrarbakka. Timburlager kaupfélagsins var í gömlu Vesturbúðinni á næstu lóð við Þórshöfn og því hæg heimatökin að nálgast efnivið til smíðaverkefna í trésmiðjunni.

Í upphafi byggðu þeir Bergsteinn og Vigfús upp vélakost trésmiðjunnar með dönskum trésmíðavélum sem þeir keyptu með fyrirgreiðslu frá Landsbankanum og innflytjenda vélanna, Ludvig Storr í Reykjavík. Það var ekki einfalt mál að koma vélunum fyrir í þessu takmarkaða húsnæði en tókst þó.

Fyrstu verkefni trésmiðjunnar í desember 1930 voru smíði á 10 setbekkjum í samkomuhúsið Fjölni og smíði fjögurra glugga fyrir Vinnuhælið á Litla-Hrauni. Ein af vélunum sem keypt var í upphafi var svokölluð skaftavél. Í þeirri vél voru framleidd hrífusköft í miklu magni og voru heyhrífur smíðaðar í trésmiðjunni og seldar til bænda á Suðurlandi og víðar.

Aukinn vélakostur kallaði á stærra húsnæði en hæðina í Þórsmörk. Félagið réðist þá í það að reisa viðbyggingu austan við Þórsmörk strax á árinu 1931 og var lokið við að steypa upp gafla og veggi viðbyggingarinnar í október það ár. Gólfflötur nýja hússins var niðurgrafinn um 60 sm eins og í Þórsmörk. Þetta var talinn galli á byggingunni þar sem vatnselgur á vetrum vildi leita inn í verkstæðið.6

Trésmiðjan Eyrarbakka
Trésmiðja Eyrarbakka. Upprunalega Þórshafnarhúsið að baki framhúsinu. Ljósmynd úr fórum Sigurðar Pálssonar.

Viðbyggingin er að öllum líkindum tekin í notkun á árinu 1932. Í brunavirðingarbók er viðbyggingunni lýst þannig í desember það ár:

Trjesmiðja Eyrarbakka. Steinsteypuhús. L. 11,3 m. B. 7,2 m. H. 6 m. Tala glugga 16. Útveggir úr steinsteypu. Þak klætt járni.7

Trésmiðjan með kvistinum
Trésmiðjan eftir að kvisturinn var settur á húsið.
Afrit af mynd í Sögu Eyrarbakka.

Á þetta hús var fljótlega settur kvistur eftir endilöngum austurhluta þaksins með nær samfelldum gluggum. Með því fékkst góð birta inn í þakrýmið og þar var unnið að samsetningu á hurðum og gluggum.

Árið 1938 var svo komið að rafveitan á Eyrarbakka gat hvorki tryggt nægjanlegt rafmagn til þess að drífa vélar trésmiðjunnar né selt það á viðunandi verði. Því gripu eigendur til þess að koma upp eigin rafstöð sem komið var fyrir í litlum skúr sunnan við Þórshöfn, sambyggðum trésmiðjunni. Þar var settur niður 20 hestafla díselmótor með 10 Kw rafali og var einkarafstöð trésmiðjunnar rekin allt þar til Sogsrafmagnið kom til Eyrarbakka 1947.8

Árið 1950 var timburgeymsla byggð sunnan við trésmiðjuna. Í brunavirðingu frá því ári er viðbyggingunni lýst svo:

Geymsluhús með steyptum göflum og annari hlið steyptri í 3,3 m hæð og hinni 1 metra hæð. Braggalag. Járnþak. Járnbogar og trélangbönd halda uppi járninu. Byggt upp við trésmiðjuna. Dyr og gluggar á milliveggnum. L. 30,0 m. B. 10,6 m. H. 6,25 m. Notað til geymslu og lítilsháttar til smíða. Eldstæði engin og engin upphitun. Engin ljós. Kapall frá Trésmiðjunni. Slökkvitæki eru sett upp af sendimanni 2 pyrene og 1 stórt rautt nafnlaust fyrir alla Trésmiðjuna.9

Bragginn var keyptur í Mosfellssveit og fluttur til Eyrarbakka.

Reikningar og umslag merkt Trésmiðju Eyrarbakka. Úr fórum Vigfúsar Jónssonar á Héraðsskjalasafni Árnesinga.
Ljósmynd Inga Lára Baldvinsdóttir.

Rekstur trésmiðjunnar fjaraði smátt og smátt út. Aðstæður hjá eigendum höfðu breyst og þeir horfið til annarra verkefna. Starfsemin var orðin lítil en haldið gangandi öðru hvoru til ársins 1952, en þá var rekstri trésmiðjunnar hætt.

Um 1960 var Frystihúsið farið að nota stóru timburgeymsluna sem skreiðar- og veiðarfærageymslu og árið 1968 keypti Hraðfrystistöð Eyrarbakka h/f eignir Trésmiðju Eyrarbakka h/f og átti allt húsnæðið eftir það.10

Í október 1975 urðu Þórshöfn og viðbyggingarnar eldi að bráð. Í eldsvoðanum brunnu veiðarfæri hraðfrystistöðvarinnar sem þar voru geymd og lítil trilla. Milljónatjón varð í þessum eldsvoða en eldsupptök voru ókunn.11

MKH

Riss af Þórshöfn og Trésmiðju Eyrarbakka. Horft í suður yfir byggingarnar. MKH

  1. Alþýðublaðið 58. árg. 254. tbl. Minning Ingibjörg Gissurardóttir, s. 10.
  2. Sóknarmannatal 1917–1931. ÞÍ. Stokkseyri í Flóa/Eyrarbakki – prestakall 0000 BC/9-1
  3. Þí Brunabótafélag Íslands 2012 Eyrarbakkaumboð, BA-0045, 1920-1929, s. 85. Afrit á vef Héraðsskjalasafns Árnesinga.
  4. Sama, s. 99.
  5. Bókin er varðveitt í Byggðasafni Árnesinga.
  6. HérÁrn. Vigfús Jónsson 1989/17 A/2-4.
  7. ÞÍ Brunabótafélag Íslands 2012 Eyrarbakkaumboð, BA-0005, 1929-1933, s. 48. Afrit á vef Héraðsskjalasafns Árnesinga.
  8. HérÁrn. Vigfús Jónsson 1989/17 A/2-4.
  9. ÞÍ Brunabótafélag Íslands 2012 Eyrarbakkaumboð, BA-0048, 1933-1959, s. 93. Afrit á vef Héraðsskjalasafns Árnesinga.
  10. HérÁrn. Vigfús Jónsson 1989/17 A/2-4.
  11. Eyrarbakki : Milljónatjón í eldsvoða. Morgunblaðið 235. tbl., 62. árg., s. 41.