Timburgeymsluhús

Byggingarár: 1922

Timburhús með járnklæddu þaki.

EIGANDI
1922  Sigurjón Pétur Jónsson

 

Sigurjón Pétur Jónsson (1880–1951) var fæddur og uppalinn á Eyrarbakka, sonur Jóns Stefánssonar á Skúmsstöðum og Sigríðar Vigfúsdóttur konu hans. Sigurjón hneigðist snemma til sjómennsku og bjó um tíma í Noregi og stundaði siglingar. Hann tók skipstjórnarpróf í Stafangri eftir að hafa verið í siglingum þaðan og víðar. Hann var síðar skipstjóri á flóabátnum Ingólfi og síðan á Suðurlandinu meðan því var haldið úti.1

Sigurjón bjó í Reykjavík með konu sinni norskrar ættar, Karen Jónsson (1885–1929), og syni þeirra John Jónsson (1907–1962).

Árið 1922 hóf Sigurjón rekstur timburverslunar á Eyrarbakka og lét reisa stórt timburgeymsluhús á Háeyrarlóð rétt austan við Stíghús I. Það er virt til brunabóta 15. desember 1922:

Timburhús, lengd 19 m, breidd 7,6 m og hæð 5,6 m. Kr. 5.500.2

Húsið er virt aftur 26. apríl 1926 vegna viðbótar en eina breytingin frá fyrri virðingu er að hæð er þá sögð 7,6 m.3

Timburgeymsluhúsið nýbyggt. Sigurjón timburkaupmaður er dökkklæddi maðurinn hægra megin við miðju myndar. Timburfarmur nýlega kominn til verslunarinnar. Á myndinni sést að upphaflega hefur þakið ekki verið járnklætt. Hús í Eyvakotshverfi og Stíghús II til hægri. Vakin er athygli á fuglahúsi ofan á snúrustaur frá Læknishúsinu yst til hægri.
Ljósmyndari Haraldur Blöndal. Ljósmyndasafn Íslands í Þjóðminjasafni.

Samkvæmt auglýsingu frá timburversluninni, sem birtist í upphafi árs 1926, var ekki aðeins selt timbur í versluninni heldur einnig margvíslegar byggingarvörur og má því til sanns vegar færa að Timburverslun Sigurjóns P. Jónssonar á Eyrarbakka hafi verið fyrsta sérhæfða byggingarvöruverslunin á Suðurlandi.4

Auglýsing timburverslunarinnar frá janúar 1926.
Árbók Héraðssambandsins Skarphéðins. http://www.timarit.is.

Það þótti fréttnæmt í júní árið 1928, að þá var nýkomið timburskip til Eyrarbakka til Sigurjóns P. Jónssonar kaupmanns, eins og segir í Morgunblaðinu.5

Í gögnum með fasteignamati árið 1930 lýsir Sigurjón sjálfur húsinu með þessum hætti:

Timburgeimsluhús, lengd 19 m, 7½ m, veh. að sperrutá 5¼ m. Alt úr timbri, sterk grind en Ragborð í klæðningum, listar á samsetningu borða. Járn á þaki, góður vatnshalli. Gott fyrir timburgeimslu.6

Eftir að kona hans deyr árið 1929 flyst Sigurjón til Eyrarbakka ásamt með syni sínum.7 Árið 1936 kvæntist hann Guðrúnu Ingibjörgu Oddsdóttur (1899–1999) frá Bráðræði á Eyrarbakka og bjó þar með henni til dánardags 1951.

Timburgeymsluhús Sigurjóns P. Jónssonar var rifið niður sumarið 1932.8 Ekki er vitað hvort timburverslunin var rekin til þess tíma eða rekstrinum hætt fyrr. Á árunum eftir 1920 var Eyrarbakki að missa stöðu sína sem aðalverslunarstaður Suðurlands og síðar skall á heimskreppan um 1930. Það hefur því ekki verið álitlegt að hefja verslunarrekstur á þessum tíma á staðnum og umbreytingar í þjóðfélaginu orðið til þess að Sigurjón hætti rekstri timburverslunarinnar.

Timburrögunarmenn að störfum við sjógarð-inn hjá timburgeymsluhúsinu.
Ljósmyndari Haraldur Blöndal. Ljósmyndasafn Íslands í Þjóðminjasafni.

Í upphafi árs 1938 stóð Sigurjón fyrir sjómannanámskeiði á Eyrarbakka fyrir þá sjómenn sem gengist höfðu undir fiskimannapróf.9 Eftir að frystihúsið tók til starfa 1944 afgreiddi Sigurjón meðal annars í fiskbúð Hraðfrystistöðvar Eyrarbakka h/f.10

MKH


  1. Sigurður Guðjónsson. „Nokkur orð um m/b Hjálparann“. Sjómannablaðið Víkingur, febrúar 1980, bls. 58.
  2. ÞÍ. Brunabótafélag Íslands 2012 Eyrarbakkaumboð, BA-0045, 1920–1929, bls. 111.
  3. Sama, bls. 161.
  4. Árbók Héraðssambandsins Skarphéðins, janúar 1926, bls. 22.
  5. „Dagbók“. Morgunblaðið, 14. júní 1928, bls. 4.
  6. ÞÍ. Fasteignamatið 1916-1942 1000-2. BAY/0000002 [1932 – BAy-2: Eyrarbakkahreppur], nr. 176.
  7. ÞÍ. Stokkseyri í Flóa / Eyrarbakki – prestakall 0000 BC/9-1-1. Sóknarmannatal 1917–1931, án bls.
  8. ÞÍ. Brunabótafélag Íslands 2012 Eyrarbakkaumboð, BA-0045, 1920–1929, bls. 161.
  9. „Sjómannanámskeið“. Alþýðublaðið, 31. janúar 1938, bls. 2.
  10. Bjarnfinnur Ragnar Jónsson, samtal 2023.