Ömmubærinn
Byggingarár: 1928
Timburbær með risi á steinsteyptum kjallara.
EIGENDUR
1928 Þórarinn Jónsson
1934 Rannveig Sigurðardóttir
1950 Kolfinna Þórarinsdóttir
1966 Dánarbú Kolfinnu Þórarinsdóttur
1976 Bjarnfinnur Ragnar Jónsson
Meðal margra bæja og húsa í Eyvakotshverfinu um aldamótin 1900 voru tveir sambyggðir torfbæir kenndir við Vegamót en stundum bara nefndir Eyvakot með númeri. Austari bærinn var í tveimur hlutum, baðstofa með einu herbergi og eldhús, en vestari bærinn skiptist í íbúðarbæ, bæjardyr og eldhús. Árið 1916 er sagt að öll hús þess bæjar séu gömul og léleg.1 Ekki verður séð að þessir torfbæir hafi verið taldir virðingabærir til húsaskatts.
Báðir voru bæirnir rifnir sumarið 1928 og byggt nýtt hús á grundvelli þeirra en þó líklega frekar þess austara. Þórarinn Jónsson (1853–1934) þurrabúðarmaður sem búið hafði í vestari bænum um langt árabil stóð að byggingu nýja hússins ásamt konu sinni Rannveigu Sigurðardóttur (1859–1950). Þau hjón voru bæði Skaftfellingar. Þórarinn var sjóróðramaður og stundaði heyvinnu.2
Eiríkur Gíslason trésmiður gerði úttekt á nýbyggðu húsinu og lýsir því þannig:
Timburbær 5,7 × 3,8 veggh. 2 ris 1,5 undir steinsteyptur kjallari með skúr 1,8 × 1,2 hæð 1,9 skipt í baðstofu og eldhús 1 eldavjel gluggar 4 járnklætt með pappa undir þiljað og málað.3
Þórarinn naut hússins ekki lengi en kona hans bjó þar áfram, uns hún flutti til dóttir sinnar Kolfinnu í Bakaríið. Rannveig fór heim í bæinn sinn yfir daginn eins lengi og hún gat. Meðal ættmenna hennar fékk bærinn þá heitið Ömmubær og breiddist það heiti út.

Ljósmyndari Sigurður Pálsson. Einkasafn ILB/MKH.
Um tíma var húsið nýtt fyrir smíðakennslu í Barnaskólanum á Eyrarbakka.

Ljósmyndari Kristinn Guðmundsson. Ljósmyndasafn Íslands í Þjóðminjasafni.
Bjarnfinnur Ragnar Jónsson, skipstjóri og útgerðarmaður, keypti húsið og nýtti sem veiðarfærageymslu þegar hann var með Skúla fógeta. Hann gaf Eyrarbakkahreppi húsið til niðurrifs þegar það var hætt að gagnast honum. Þá hafði stórt hús, sem síðar varð heilsugæslustöð Eyrarbakka, verið byggt aftan við það þannig að bærinn var orðinn fyrir.4 Húsið var rifið haustið 1983.

Ljósmyndari Inga Lára Baldvinsdóttir. Einkasafn ILB/MKH.
ILB
- ÞÍ Brunabótafélag Íslands 2012 Eyrarbakkaumboð BA-0004. 1916-1920.
- Hólmfríður Gísladóttir og Eggert Thorberg Kjartansson. Manntal á Íslandi 1910. 3, Árnessýsla. (Reykjavík: Ættfræðifélagið, 1997).
- Eiríkur Gíslason. Virðingarbók fasteigna á Eyrarbakka. Ljósrit í fórum höfunda.
- Bjarnfinnur Ragnar Jónsson, samtal 30. október 2023.