Vinaminni

Byggingarár: 1905

Timburhús á kjallara, portbyggt með risþaki.

EIGENDUR
1905 Vilhjálmur Ásgrímsson
1921 Sigurður Gíslason
1948 Ólöf A. Gunnarsdóttir

 

Eitt af nýjum húsum sem virt eru til húsaskatts árið 1905 var Vinaminni íbúðarhús Vilhjálms Ásgrímssonar (1879–1966). Vilhjálmur flutti á Eyrarbakka úr Ölfusi, en hafði alist upp í Grímsnesi og Grafningi áður. Hann var giftur Gíslínu Erlendsdóttur (1880–1964) sem var uppvaxin á Eyrarbakka. Vilhjálmur var einn af 22 alsystkinum. Í manntalinu 1910 er atvinna margra Bakkamanna skráð með orðunum „rær og slær“. Það átti við um Vilhjálm sem reri frá Eyrarbakka og Þorlákshöfn en var í kaupamennsku á sumrin og þótti afburða sláttumaður.1

Lýsing matsmannanna Guðmundar Ísleifssonar og Sigurðar Ísleifssonar er þannig:

Stærð 7 alnir byggt af timbri. Pappa og alklætt járni að utan. Herbergja skipan eru, Baðstofa, Eldhús og gangur til dira, alt málað Með steinlímdum kjallara. Eldavjel 1 og gengur leirpípa frá henni uppúr húsinu, á öllu húsinu eru 3 gluggar. 5 hurðir. Við norðurhlið hússins er skúr 7 álna langur 4 álna breiður, allur járnvarinn.2

Húsið hefur í raun ekki verið fullbyggt þó að það væri virt til húsaskatts því að ári síðar 1906 er ný lýsing á húsinu sem hljómar svo:

Íbúðarhús Vilhjálms Ásgrímssonar var umbætt þannig: Ofaná húsið var sett reist þak og port og er nú notað til íbúðar, áður var flatt þak, á loftið voru sett tvö fög af gluggum sinn á hvern gafl, við norðurhlið hússins var settur skúr 7×4 alnir ný eldavjel var sett á húsið og 2 gluggafög á suður hlið í staðinn fyrir 1 og fleiri smábreytingar til bóta. Viðbótin er metin á kr. 450 áður var matið á húsinu kr 800 [=] 1.250 kr.3

Fjölskylda Vilhjálms bjó í húsinu til 1921 þegar hún flutti til Reykjavíkur.

Sigurður Gíslason (1868–1954) smiður og formaður bjó þar lengi með seinni konu sinni Sigþrúði Sveinsdóttur (1861–1953). Þegar þau fluttu til Hafnarfjarðar eignaðist Ólöf A. Gunnarsdóttir (1868–1970) húsið. Hún gekk undir heitinu Óla í Simbakoti því hún hafði búið þar áður. Ólöf var gerð að heiðursborgara Eyrarbakkahrepps þegar hún var 100 ára árið 1968.

Húsið var rifið í maí og júní 1969.4

Vinaminni
Vinaminni árið 1967.
Ljósmyndari Ásta Halldórsdóttir. Einkasafn Ástu Halldórsdóttur.

 


  1. Vilhjálmur Ásgrímsson sjötugur. Alþýðublaðið 13.3.1949, s. 5.
  2. ÞÍ Hin umboðslega endurskoðun 6. Manntalsreikningar 1906.
  3. ÞÍ Hin umboðslega endurskoðun 9. Manntalsreikningar 1907.
  4. Þórarinn Theódór Ólafsson, samtal 19.10.2023.