Zephyr

Byggingarár: 1891

Timburhús með járnþaki.

EIGENDUR
1891 Guðmundur Höskuldsson
1913 Bjarni Vigfússon

 

Guðmundur Höskuldsson (1862–1949) bókbindari og sjómaður byggði húsið Zephyr sumarið 1891 í Skúmstaðalandi og bjó þar með konu sinni Guðrúnu Einarsdóttur (1860–1939) og börnum þeirra. Þau Guðmundur höfðu flust til Eyrarbakka úr Rangárvallasýslu og áður búið í Eyvakoti.

Húsinu Zephyr er lýst svo þegar það var nýbyggt í virðingargjörð:

Íbúðarhús Guðmundar Höskuldssonar, er stendur á Skúmstaðalóð á Eyrarbakka. Hús þetta er á lengd 8 ál., á breidd 6 ál., byggt af timbri með járnþaki að öllu leyti, innrjettað undir lopti, en uppi á loptinu er óinnrjettað.1

Húsheitið Zephyr merkir hægur vindur eða eitthvað fíngert eins og garn eða efni. Eitt af dönsku kaupskipunum sem sigldu til Eyrarbakka bar þetta nafn.

Tilgátuteikning af Zephyr. Horft frá suðri. MKH

Guðmundur og Þórunn fluttu með börn sín til Reykjavíkur árið 1913.

Staðsetning Zephyrs samkvæmt kenningu Sigurðar Andersen frá árinu 1971. Sett inn á kortagrunn frá 1931 eftir mælingum Jóns J. Víðis af Eyrarbakka árið 1930.
Einkasafn MKH.

Zephyr stóð rétt við Nepju bæ Lofts Arasonar, þar sem Inghóll reis síðar. Bærinn Nepja hefur ekki verið nógu hátt metinn til að verða skattskyldur. Jón Pálsson bankaritari segir af þessum bæ.

Bær einn á Eyrarbakka sneri framþili til vesturs, og var hann hærri en aðrir bæir þar í kring; þótti þar næðingasamt, ef veður stóðu úr vesturátt og því var bærinn nefndur Nepja. Jafnvel þótt nafnið væri eigi óviðeigandi, þótti það ekki nógu dýrlegt, og fóru menn því að hugsa upp annað nafn veglegra. Nú bar svo til, að einhver málaspekingur gat á það bent, að nafið Zephyr þýddi: hægan vestanblæ, og væri það bæði veglegt og viðeigandi nafn handa Nepju gömlu. Var hún síðan nefnd þessu nafnið eftir skútunni þrímöstruðu, en í daglegu tali og í framburð varð nafnið, Seffír, og mun það hafa haldizt á bæ þessum síðan.2

Hér er eitthvað málum blandið því að þessi húsheiti eru í notkun samhliða í manntölum bæði árið 1901 og 1910. Bæirnir stóðu rétt hvor við annan í Skúmsstaðalandi og er bær Lofts risinn árið 1893.3 Þetta er enn frekar staðfest þegar Guðmundur veðsetur húsið árið 1896 og það er nefnt Zephyr í veðsetningarbókum.4

Nýr eigandi hússins, Bjarni Vigfússon smiður, gefur því nýtt heiti og kennir það við sjálfan sig og nefnir Bjarnastaði. Eiríkur Gíslason gefur þessa lýsingu á húsinu:

Timburhús 5 × 3,7 veggh. 2,6, ris 2, járnklætt allt, rimlaþak, lár kjallari. Niðri 1 herb. og eldhús. Skúr við austurhlið 2 × 5, hæð 2, þiljaður og klæddur með veggfóðri. Geymsluskúr [við vesturhlið] 2 × 1,6 hæð 2 járn á rimlum.5

Eftir að Bjarni og kona hans, Sigríður Höskuldsdóttir, fluttu úr húsinu árið 1926 bjó systir Sigríðar, Ragnhildur, þar í um það bil tvö ár. Húsið hefur væntanlega verið rifið í framhaldinu.

Engin ljósmynd er þekkt af húsinu.

ILB


  1. ÞÍ Skjalasafn endurskoðunarinnar. Manntalsbókarreikningar 1891.
  2. Jón Pálsson.(1946). Austantórur II, s. 49. Reykjavík: Víkingsútgáfan.
  3. Sóknarmanntal Stokkseyrarsóknar 1888–1892.
  4. Sýslumaðurinn í Árnessýslu. Afsals- og veðmálabækur. Bók 1: 1893–1903.
  5. Eiríkur Gíslason. Brunabótamat á Eyrarbakka 1916–1929. Ljósrit í fórum höfunda.