Eyri

Húsið er aldursfriðað samkvæmt lögum um menningarminjar.

Eyri hefur heitið svo frá upphafi og ekki gengið undir öðrum heitum, það vitað sé, nema Eyrargata 39 A.

Eyri er eitt smáhýsanna í þyrpingu Austurbakkans. Húsið er eitt af þeim upprunalegustu á Eyrarbakka. Það er lítið bárujárnsklætt timburhús á hlöðnum kjallara. Húsið er ein hæð og ris, en vestan við það er viðbygging með skúrþaki og er gólfið neðar þar en í sjálfu húsinu. Húsið var byggt árið 1907 og er því lýst svo í virðingargjörð til húsaskatts: „Stærð 7×9 al með skúr við vesturenda [7×3½ alin], alt járnvarið. Undir loftinu eru 3 herbergi og forstofa, með eldavjel og ganga járnrör frá henni í skorstein, sem gengur uppúr mæni hússins. Kjallari er undir öllu húsinu 3ja álna hár. Loftið er innrjettað, hæð undir mænir er 3½ al, sama hæð undir loftinu. Á öllu húsinu eru 6 gluggar og 5 hurðir.” Ekki er miklu við þessa lýsingu að bæta nema nú er komið salerni á hæðinni og loftinu er skipt upp í tvö herbergi. Að öðru leyti er húsið óbreytt að innan frá fyrstu tíð. Gildir það bæði um herbergisskipan og innanstokksmuni. Eldhús er upphaflegt, þar var lengi aðeins krani en hefur verið settur vaskur fyrir nokkrum árum. Húsgögn virðast öll sem óaðskiljanlegur hluti af byggingunni. Þetta gefur Eyri algera sérstöðu meðal eldri húsa á Eyrarbakka. Húsið stendur vel og er órjúfanlegur hluti af húsaröðinni á Austurbakkanum. Gerð þess hefur verið flokkuð sem dansk-íslensk gerð yngri.

Eyri er eitt húsanna sem Sigurður Gíslason smíðaði á Austurbakkanum. Í bókinni Kristinn Vigfússon staðarsmiður eftir Guðmund Kristinsson er eftirfarandi lýsing á smíði hússins:

  • Ég vann oft hjá honum [Sigurði Gíslasyni] á haustin og fram á vertíð t.d. árið, sem ég var fermdur, við húsið Eyri, sem hann flutti í fyrir jól. Var ég í því dögum saman að hefla 5/8 tommu borð og plægja á þau nót og tappa og gera úr þeim panel og var oft mjög lerkaður á morgnana. Hann byrjaði á því að hlaða úr grjóti rétt manngengan kjallara og var fljótur að því. Síðan smurði hann steypu í grjótið og smíðaði húsið svo í hefðbundnum timburhúsastíl. Gengið var inn í gaflinn inn í eldhús og síðan hring um herbergin, því gangur var enginn. Oftast voru tvær stofur á móti suðri, og uppi á lofti fengust tvö lítil herbergi. Niður í kjallarann var gengið úr eldhúsinu undir stiganum, sem lá upp á loftið. Grindin var öll tegld saman með töppum og klædd utan með tommuborðum, pappa og járni en að innan með panel. Einangrun var engin í grindinni nema stundum heyruddi. Gólfborð voru ferniseruð en veggir og loft máluð. Gluggar voru tvísettir með 6 rúðum og krosspósti og 12 tommu rúðum. Rammarnir voru falsaðir og strikaðir, áður en þeir voru settir í gluggakistuna.

Aðeins einu virðist skeika í þessari lýsingu Kristins því að sex rúðu gluggar hafa líklega aldrei verið á Eyri.

Eyri hefur um áratugi verið nýtt sem sumarhús. Bárujárn á þaki var endurnýjað og skorsteinn lagfærður um 1987. Grind, klæðning og gluggar voru endurnýjaðir um 1994. Gluggagerð var ekki færð til frumgerðar. Enn má sjá upprunalegan glugga á loftinu yfir skúrbyggingunni að vestanverðu.

Húsið og varðveisla þess eru einstæð á landsvísu. Eyri er á lista Harðar Ágústssonar, sérfræðings í íslenskri byggingarsögu, yfir varðveisluverð hús sem bæri að friða. Viðgerð hússins var styrkt af Húsafriðunarsjóði 1986.

LÁ/ILB

 

 

Heimildir:
Guðmundur Kristinsson. Kristinn Vigfússon staðarsmiður. Selfossi 1987.
Þjóðskjalasafn Íslands. Skjalasafn endurskoðunarinnar 1908. Árnessýsla. Húsaskattur.
Hörður Ágústsson. Íslensk byggingararfleifð II. Reykjavík 2000.
Guðmundur Magnússon samtal ágúst 2006.

 

Nokkrar myndir innan úr Eyri. Myndirnar voru teknar þegar húsið var opið á Vori í Árborg 2004.