Frambæjarhús

Frambæjarhús er aldursfriðað samkvæmt lögum um menningarminjar.

Húsið er bárujárnsklætt timburhús ein hæð og ris með kartöflukjallara. Stór viðbygging með skúrþaki er norðan við húsið og skagar hún vestur fyrir húsið sjálft. Gluggar eru stórir og nýlegir. Engin lýsing fylgir á húsinu þegar það er tekið á skrá til húsaskatts. Eiríkur Gíslason smiður lýsir því svo til brunavirðingar 1916:

  • Timburhús 7 x 4,6. Vegghæð 2,4 ris 2. Járnklætt nema vesturgafl með asfaltpappa. Borðakl. á parti. Þiljað niðri í 3 herb. og eldhús. Uppi geimsla óþiljuð. Leirrör. Með skúr 7 x 2. hæð 2. Þiljaður innan fyrir eldhús.

Lengi hafa verið uppi hugmyndir byggðar á munnlegum heimildum um að húsið væri mjög gamalt. Jón Sveinbjörnsson í Frambæ á Litlu-Háeyri byggði pakkhús eða geymsluhús fyrir hús sitt. Í bókinni Kristinn Vigfússon staðarsmiður eftir Guðmund Kristinsson segir að Frambæjarhús hafi verið byggt sem pakkhús árið 1870 og úr strandeik, en að því hafi fljótlega verið breytt í íbúðarhús. Samkvæmt húsaskattsgögnum mun Jón Sveinbjörnsson hafa átt hús sem virt er til húsaskatts 1886 en það var rifið vorið 1895 og í stað þess byggði Sveinbjörn Sveinbjörnsson nýtt hús sama ár. Það er Frambæjarhús.

Samkvæmt ljósmynd af húsinu fyrir 1930 hefur það verið með þremur 6 rúðu gluggum á framhlið og einum á vesturhlið og þar hafa líka verið dyr.

Húsinu var mikið breytt upp úr 1940. Húsið var forskalað á sjötta áratugnum en núverandi eigandi reif forskalninguna af og endurklæddi húsið uppúr 1990. Jafnhliða var skúr norðan við húsið stækkaður til vesturs.

Húsið er flokkað undir dansk-íslenska gerð eldri. Frambæjarhús er á lista Harðar Ágústssonar, sérfræðings í íslenskri byggingarsögu, yfir varðveisluverð hús sem bæri að friða. Viðgerð hússins var styrkt af Húsafriðunarsjóði 1992.

ILB/LÁ

 

 

 

 

Heimildir:

Þjóðskjalasafn Íslands. Skjalasafn endurskoðunarinnar 1890–95. Árnessýsla. Húsaskattur.
Eiríkur Gíslason. Virðingabók fasteigna á Eyrarbakka.
Guðmundur Kristinsson. Kristinn Vigfússon staðarsmiður. Selfossi 1987.
Hörður Ágústsson. Íslensk byggingararfleifð II. Reykjavík 2000.
Guðmundur Magnússon samtal ágúst 2006.