Bakaríið

Ljósmyndari: Magnús Karel Hannesson 2018.Bakaríið stendur við stíg sem seinna fékk nafn af því, Bakarísstígur, og er með húsnúmerið Bakarísstígur 2. Áður og fyrr meir var það nefnt Brauðgerðarhús og dæmi eru um að það hafi verið talið meðal húsa við Búðarstíg í gömlum manntölum.

Húsið var flutt tilhöggið til Eyrarbakka, eins og sagt er í samtíma sendibréfi, af Lefoliiverslun. Það er því að stofni til svonefnt katalóghús, en undir því heiti gengu hús sem voru flutt tilsniðin til landsins og sett saman hér. Mörg katalóghús voru flutt frá Noregi undir lok 19. aldar og í byrjun 20. aldar og var þeim ætluð ýmis hlutverk. Þessu var frá upphafi ætlað að hýsa bakarí Lefoliiverslunar.

Ljósmyndari:

Húsið er hið eina sem eftir stendur af atvinnuhúsnæði frá tíma dönsku verslunarinnar og hefur sérstakt varðveislugildi af þeim sökum. Það er auk þess að stofni til eitt af elstu húsunum á Eyrarbakka. Húsið hefur í grundvallaratriðum haldið formi sínu en nokkrum sinnum verið stækkað.

Upphaflega var það einlyft timburhús með láréttri klæðningu og litlu inngöngubíslagi á suðurhlið. Einn níu rúðu gluggi með gluggahlerum var á suðurhliðinni, en þrír sex rúðu gluggar til vesturs. Tvennar dyr voru á bíslaginu til sinn hvorrar áttar. Húsið hýsti í fyrstu aðeins bakaríið sem var með múrsteinshlöðnum ofni og steingólfi. En árið 1900 var byggður svonefndur „viðauki” við húsið eins og segir í húsaskattsgögnum „6 al [álnir eða 3,8 m] á lengd 12 al [álnir eða 7,6 m] á breidd einlyft allt járnvarið alinnrjettaðar í 2 stofur málaðar báðar án hitavjelar önnur stofan svefnstofa Bakarans með inngangi frá aðalhúsinu.”

Eftir það leið nokkur tími án þess að umtalsverðar breytingar væru gerðar á húsinu. Samkvæmt virðingargjörð frá árinu 1912 er það þá allt orðið bárujárnsklætt. Þegar leið fram á 20. öldina var bíslagið stækkað til vestur til að fá þar aðstöðu fyrir sölubúð frá bakaríinu. Bílskúr var byggður norðan við húsið á árunum 1946–47 og stóð hann þétt við húsið sjálft. Seinna var gluggagerð hússins breytt og settir í það heilir gluggar með litlum opnanlegum fögum.baka

Húsið var komið í nokkra niðurníðslu og hætt að þjóna sem brauðgerðarhús en nýtt sem geymsluhúsnæði þegar Kristinn Harðarson og Drífa Valdimarsdóttir keyptu það og gerðu upp með myndarlegum hætti. Viðgerð þeirra á húsinu var ein sú fyrsta þar sem lögð var áhersla á endurnýtingu á öllu nýtanlegu efni við enduruppbygginguna. Húsið var klætt að nýju með láréttri klæðningu, gluggaskipan og gluggagerð færð til eldra horfs. Bílskúrinn var rifinn en við norðurhlið hússins byggður skúr með einu herbergi, baði og þvottahúsi. Þau Kristinn og Drífa gerðu húsið upp að innan, tóku niður bakaraofninn en endurhlóðu framhlið hans samkvæmt teikningu Hjörleifs Stefánssonar. Eldhús var sett upp þar sem ofninn hafði staðið. Jafnframt var gengið frá lóð umhverfis bakaríið. Aldrei var lokið til fulls ytri frágangi á köntum og við þak. Viðgerð hússins er því enn ekki að fullu lokið. Viðgerð Bakarísins var styrkt af Húsafriðunarsjóði 1990 og 1992.

Í bakaríinu var mest bakað af rúgbrauði framan af en einnig önnur brauð og kökur. Miklir annatímar voru á vertíðinni því þeir voru margir sjómennirnir á Eyrarbakka, Stokkseyri, Þorlákshöfn og Selvogi sem keyptu allt sitt brauð frá bakaríi Lefoliis. Gátu selst allt að 1.000 rúgbrauð á dag við upphaf vertíðar. Til að létta afgreiðslu í Vesturbúðinni á annatímum eins og við upphaf vertíðar og í kauptíð voru notaðir ávísunarpeningar úr látúni, svokallaðir rúgbrauðspeningar. Fengu menn þá í búðinni og tóku út á þá brauð í bakaríinu.

bakari3Fyrsti bakarinn við bakaríið var Niels Christensen Bach og starfaði hann þar frá upphafi og til 1909 en fór tvívegis utan á tímabilinu. Þá leystu hann af danskir bakarar. Í fyrra sinnið Oluv Hansen en hið síðara Martein Nielsen, er síðar starfaði í Reykjavík. Fljótlega eftir að Bach hóf störf var ráðinn honum til aðstoðar Jón Jónsson sem fékk viðurnefnið bakari. Lars Lauritz Andersen Larsen var ráðinn bakari þegar Bach hætti og starfaði til ársins 1915. Vegna hækkandi kostnaðar var honum þá sagt upp og Jón látinn annast reksturinn enda hafði hann þá áratuga reynslu. Honum til aðstoðar var ráðinn nemi, Gísli Ólafsson síðar bakarameistari í Reykjavík. Eftir að Kaupfélagið Hekla varð gjaldþrota hóf Lars Andersen bakstur að nýju í bakaríinu og rak þar bakarí um árabil og seinna tók sonur hans Lárus við rekstrinum. Bakaríið var rekið fram undir 1960 þegar Lárus flutti starfsemi sína í kjallarann á húsinu Skjaldbreið.

Við endurbyggingu hússins í kringum 1990 var haldið einum vegg úr ofni bakarísins. Þá var ekki lengur upprunalegur bakaraofn í húsinu. Nákvæmar teikningar eru til af gamla ofninum. Þær eru áritaðar af Bald byggingarmeistara, en hann byggði Alþingishúsið, Hegningahúsið við Skólavörðustíg, auk fjölda timburhúsa og hann teiknaði þá álmu sem síðust var byggð við Vesturbúðina, Krambúðina.

© ILB/LÁ

Heimildir:
Kaflar úr bréfum frá síra Páli Sigurðssyni í Gaulverjabæ til Þorsteins Jónssonar læknis í Vestmannaeyjum. Óðinn ágúst 1912.
Þjóðskjalasafn Íslands. Skjalasafn endurskoðunarinnar 1888–1898. Árnessýsla. Húsaskattur.
Sendibréf frá Gísla Ólafssyni bakara 21.12.1991.
Samtal við Kristin Harðarson 19. júlí 2006.