Beitningaskúr

Beitningaskúrinn er einnar hæðar portbyggt timburhús með risi. Það er með dyrum og fjórum sex rúðu gluggum á suðurgafli, tvöfaldri hurð og timburklæðningu á vesturhlið og einum glugga á norðurstafni. Neðri hæð er skipt í tvo hluta með skilrúmi en efri hæð er geymsluloft.

Húsið stendur ofan við svonefnda Heklubryggju eða Austurbryggju. Þar var áður löng röð aðgerða- og beitningaskúra, sem nú er orðin næsta skörðótt. Gengu þessi hús undir samheitinu Byrgin og byggðust upp á meðan vélbátaútgerð var með mestum blóma á Eyrarbakka á þriðja áratug 20. aldar. Upphaflega var beitningaskúrinn sambyggður öðru fiskhúsi og mynduðu þau saman tveggja bursta samstæðu. Hin burstin var rifin fyrir rúmum 20 árum og hefur húsið staðið stakt síðan.

Þegar Eiríkur Gíslason virðir húsið nýbyggt í árslok 1925 lýsir hann því svo:

  • Portbyggt 5,4 x 10 m. Veggh. 3, rish 2,3. 5 gluggar. Járn á rimlum nema á framhlið trje. Tjörupappi undir járni á þaki og göflum fyrir ofan lopt. Stendur á sama hliðarvegg og hús Vilbergs Jóhannssonar. Steypt gólf. Innan á það niðri slegið borðum. Geimslulopt uppi.

Húsið var fyrst nýtt sem geymsla og saltfiskhús og voru aðgerðarstíur framan við það, en í lokin var það notað sem beitningaskúr. Bjarni Jóhannsson gaf Sjóminjasafninu á Eyrarbakka húsið og fól því varðveislu þess.

Eftir að Sjóminjasafnið eignaðist húsið fór fram viðgerð á því á árunum 1992 og 1993. Bárujárn var endurnýjað og grind löguð. Við viðgerðina kom í ljós sérstæð klæðning innan við bárujárnið á vesturhliðinni. Bátur hefur verið tekinn og flattur út og myndar klæðningu hússins.

Að höfðu samráði við Hjörleif Stefánsson arkitekt Húsafriðunarnefndar var ákveðið að láta þessa klæðningu halda sér, gera við hana, en klæða hana ekki að nýju með bárujárni. Lagt var rafmagn í húsið. Jón Karl Ragnarsson hafði umsjón með viðgerð hússins. Húsið er eina húsið á Eyrarbakka sem hefur orðið fyrir stöðugum spjöllum skemmdarvarga. Rúður hússins hafa verið brotnar svo oft að gefist var upp á að hafa gler í þeim og eru gluggar hússins nú byrgðir með plötum.

 

Beitningaskúrinn er á lista Harðar Ágústssonar, sérfræðings í íslenskri byggingarsögu, yfir friðuð timburhús. Húsið hefur ekki verið friðað með formlegum hætti en litið er svo á að vegna þess að það er í eigu safns hafi varðveisla þess verið tryggð til frambúðar.

Viðgerð hússins var styrkt af Húsafriðunarsjóði 1992 og 1994.

ILB

Heimildir:
Hörður Ágústsson. Íslensk byggingararfleifð II. Reykjavík 2000.
Ársskýrslur Sjóminjasafnsins á Eyrarbakka 1992 og 1993.
Eiríkur Gíslason. Virðingarbók fasteigna á Eyrarbakka.