Brenna I

Húsið er aldursfriðað samkvæmt lögum um menningarminjar.

Brenna tók nafn af samnefndum bæ sem stóð á sama stað. Upphaflegt heiti má rekja aftur til 1853 þegar Jón Hjaltalín, síðar landlæknir, var með tilraunir á Eyrarbakka til joðframleiðslu úr þangi og fékk kofa norðan við Skúmstaði til að vinna í. Þar reis síðar bærinn Brenna.

Húsið er bárujárnsklætt timburhús með risi og stendur á hlöðnum kjallara. Skúrbygging er við norðurhlið, sem er að stofni til jafngömul húsinu, en hefur verið minni. Að vestan er nýrri viðbygging, sem tengist næsta húsi. Á hæðinni eru þrjú herbergi, eldhús og bað og í risi eru tvö herbergi. Húsið hlaut gagngera viðgerð á árunum 1884–89. Skipt var um glugga á húsinu og taka þeir mið af síðari tíma gluggastærð bæði á suður og norðurhlið. Settar voru nýjar dyr á suðurhlið. Húsið var byggt 1907 og er lýst svo í virðingargjörð til húsaskatts:

  • Stærð 10 x 10 álnir. Allt járnvarið að utan. Skúr með norðurhlið 8 x 4 álnir allur járnvarinn. Undir loftinu eru 4 herbergi, hæð undir loft 4 al. Eldavjel sem járnrör ganga úr í skorstein. Loftið er brúkað fyrir geymslu. Undir öllu húsinu er kjallari 3ja álna hár. Á öllu húsinu eru 7 gluggar og 6 hurðir.

Ekki er getið um gluggagerðina en krosspóstsgluggar voru í húsinu og leiða má líkur að því að þrír slíkir hafi verið á suðurhlið hússins, en á austurhlið var 6 rúðu gluggi uppi, eins og algengt var á Bakkanum, auk eins krosspóstsglugga við hlið útihurðar en þá var gengið inn í húsið að austanverðu. Áður stóð á sama stað bær með sama nafni og þar bjó síðast Ásbjörn Ásbjörnsson faðir Jóns þess sem byggði húsið. Húsið var lengt til vesturs líklega á fimmta áratugnum og byggt upp að næsta húsi Brennu II.

Húsið er flokkað undir dansk-íslenska gerð eldri. Brenna er á lista Harðar Ágústssonar, sérfræðings í íslenskri byggingarsögu, yfir varðveisluverð hús sem bæri að friða. Viðgerð hússins var styrkt af Húsafriðunarsjóði 1988.

LÁ/ILB

 

 

Heimildir:
Hörður Ágústsson. Íslensk byggingararfleifð II. Reykjavík 2000.
Þjóðskjalasafn Íslands. Skjalasafn endurskoðunarinnar 1907. Árnessýsla. Húsaskattur.
Sigurður Andersen. Viðbætur við Örnefni á Eyrarbakka í Eyrarbakkahreppur. Örnefni. Sjóminjasafnið á Eyrarbakka 1997.