Húsið er aldursfriðað samkvæmt lögum um menningarminjar.
Einarshöfn er upphaflega byggt sem parhús og er því tvískipt. Það er stórt bárujárnsklætt timburhús á tveimur hæðum með lágu bogadregnu þaki og stendur á hlöðnum steinkjallara. Skúrar hafa verið byggðir við húsið að norðanverðu; smáskúr með þaki sem hallar frá húsinu að vestanverðu en nokkuð stór viðbygging að austanverðu með hallandi þaki sem hallar til vesturs. Á framhlið hússins eru dyr fyrir miðju en fjórir krosspóstsgluggar á hvorri hæð tveir sitt hvoru megin. Gluggarnir eru með tvískiptum neðri rúðum þannig að þeir eru með sex rúðum og eru með upprunalegu lagi. Húsaskipan að innan er að miklu leyti óbreytt.
Lýsing tengd virðingu til húsaskatts árið 1899 hljóðar svo:
- Timburhús Jóns Vilhjálmssonar skósmiðs og Guðna Jónssonar (báðir á Einarshöfn) er 15 al. langt, 8½ al breitt tvílyft með bogaþaki járnklæddu, suðurvegg og austurgafli, vesturgafli niður að miðju. allt annað klætt þakpappa. við norðurvegg er geymsluskúr 7. al langur 4. al breiður með járnþaki járnklæddum öðrum gafli, annað klætt þakpappa. Inni undir lofti er húsinu skift í 2 parta með þverskilrúmi og gangi. Í vesturenda er skósmíðaverkstæði og eldhús, með eldavjel og leirrörum. Uppi á lofti í vesturenda eru 3 herbergi þaraf 1 málað. Í austurenda niðri eru 2 herbergi stofa og eldhús með eldavjel og reikháfur af tígulsteini. uppi á lofti eru 3 herbergi alinnrjettuð ómáluð, undir húsinu eru kjallarar 2 og steinlímdur grunnur.
Á gömlum ljósmyndum má sjá að til að jafna hlutföllin í húsinu hefur verið málaður gluggi á járnið yfir útidyrunum og hefur sá gervigluggi skipt um lit þegar aðrir gluggar voru málaðir.
Húsið er byggt á starsfárum Samúels Jónssonar á Eyrarbakka og gefur form þess sterklega til kynna að hann hafi verið smiður þess, sbr. Búðarstíg 10 A og 10 B en vitað er að hann byggði þau hús. Húsið var upphaflega byggt fyrir tvær fjölskyldur og hefur allar götur síðan verið tvískipt. Jón Vilhjálmsson var með skósmíðaverkstæði í húsinu. Sigurjón Ólafsson myndhöggvari ólst upp í vestari hluta þess. Húsið hefur verið nýtt sem sumarbústaður lengst af síðan 1960. Viðamikil viðgerð var gerð á húsinu á árunum 1997-2000. Jon Nordsteien var ráðgefandi arkitekt við viðgerð hússins. Ólafur Sigurjónsson og þeir Forsætisbræður önnuðust hana. Klæðning var endurnýjuð og gluggar færðir til upprunalegs horfs.
Húsið er nauðsynlegur hlekkur húsakeðjunnar í Einarshöfn og ef rétt reynist að það sé smíðað af Samúel Jónssyni þá er það eitt fárra húsa hans sem varðveist hafa.
Einarshöfn III er á lista Harðar Ágústssonar, sérfræðings í íslenskri byggingarsögu, yfir varðveisluverð hús sem bæri að friða. Viðgerð hússins var styrkt af Húsafriðunarsjóði 1997, 1998, 1999 og 2000.
LÁ/ILB
Heimildir:
Þjóðskjalasafn Íslands. Skjalasafn endurskoðunarinnar 1899. Árnessýsla. Húsaskattur.
Hörður Ágústsson. Íslensk byggingararfleifð II. Reykjavík 2000.
Heimildir frá Jóni Nordsteien.