Ingólfur

Ingólfur 2020. Ljósm.: Magnús Karel.

Ingólfur er lítið bárujárnsklætt timburhús, ein hæð og ris með viðbyggingu við vesturhlið og er hún með skúrþaki. Hlaðinn kjallari er undir húsinu. Gengið er inn í húsið á vesturhlið viðbyggingar. Á suðurhlið eru þrír sex rúðu gluggar á gafli og einn á skúr. Tveir sexrúðu gluggar og einn þriggja rúðu gluggi eru á austurhlið og þar er steyptur inngangur í kjallara. Á norður hlið eru tveir sex rúðu gluggar og einn heill nýlegur gluggi á skúr. Á hæðinni eru þrjú herbergi, eldhús og salerni en í risi eru tvö herbergi.

Húsið er byggt á kjallara veitingahússins Ingólfs og dregur nafn sitt af því. Veitingahúsið var reist árið 1879 en brann til kaldra kola árið 1887. Veitingahúsið var portbyggt timburhús með kvisti á suðurhlið og er útlit þess þekkt af ljósmyndum Sigfúsar Eymundssonar. Þorkell Hreinsson fyrsti eigandi Ingólfs var smiður og fullvíst má telja að hann hafi sjálfur byggt húsið. Húsinu er svo lýst nýbyggðu í virðingargjörð til húsaskatts:

„Húsið er á lengd: 12 ál, á breidd: 8 ál, byggt af timbri með járnþaki, og járni á austurhlið hússins, að nokkru innrjettað.”

Samkvæmt þessu er skúrbyggingin nokkru yngri en húsið sjálft en er með vissu komin fyrir 1917. Upphaflega var gengið inn í húsið um tröppur að austanverðu en þeim inngangi var lokað um 1960 og hafði þá lengi verið annar inngangur í húsið á skúrnum. Húsið var forskalað á sjötta áratugnum. Forskalingin var rifin af húsinu um 1990 og gluggaskipan færð til eldra horfs.

Símstöð fyrir Eyrarbakka var rekin í húsinu í tvo áratugi frá 1918 til 1938. Oddur Oddson gullsmiður var með verkstæði í skúrbyggingunni á sama tímabili.

Heimildir:
Þjóðskjalasafn Íslands. Skjalasafn endurskoðunarinnar 1891. Árnessýsla. Húsaskattur.