Kirkjuhús hefur lengst gengið undir því heiti en var framan af kennt við eiganda sinn og nefnt Guðmundarhús. Það er nefnt Breiðablik um tíma í tíð Sigurðar Guðmundssonar um 1915.
Kirkjuhús er aldursfriðað hús skv. lögum um menningarminjar.
Kirkjuhús er nú tvílyft bárujárnsklætt hús með lágu risi. Viðbygging með risi er við suðausturhorn hússins. Gluggaskipan var breytt skömmu fyrir 1988 og voru þá settir í húsið póstgluggar ýmist sex eða níurúðu. Tók sú skipan mið af notkun hússins en ekki af upprunalegu gluggaskipaninni frá 1897. Innanhússkipan hússins hefur tekið miklum breytingum til að þjóna mismunandi hlutverkum í áranna rás.
Húsið á sér tvö byggingarskeið. Upphaflega reisti Guðmundur Guðmundsson bóksali og bókari sér einlyft hús með risi og var inngangur í það frá suðurhlið. Lóðrétt klæðning, listaþil, var á veggjum og rennisúð á þaki og listar á húshornum sem málaðir voru í sama lit og listar við þak. Fjórir sexrúðu gluggar voru á suðurhliðinni og inngöngudyr á henni miðri með ytri hurðum og yfir þeim gluggi með bogadregnu tréskreyti. Jóhann Fr. Jónsson byggði húsið en hann var þá helsti smiður á Eyrarbakka. Hörður Ágústsson flokkar húsið til dansk-íslenskrar gerðar. Það var í hlutföllum og að gerð íslensk útfærsla á dönskum tilsniðnum húsum sem flutt voru til landsins, eins og til dæmis Húsinu.
Árið 1897 varð grundvallarbreyting á Kirkjuhúsi þegar það var lengt um 3,8 metra og bætt ofan á það annarri hæð og risi með bogadregnu þaki. Það verk annaðist Samúel Jónsson og svipar húsinu í þessari gerð til þeirra húsa sem hann var að byggja á þessum tíma á Eyrarbakka og víðar, eins og húsanna tveggja við Búðarstíg 10 A og B og Einarshafnar III. Húsinu er lýst svo eftir breytinguna í virðingu til húsaskatts.
- 18 al. langt (11,3 m) 9¼ al. breitt (5,8 m) alt járnvarið, 2 tasíu á hæð með vatnshallaþaki til beggja hliða undir loftinu er húsinu skift í 4 herbergi 2 stofum með 1 ”Magazin„ ofni eldhúsi með stórri eldvjel og kamesi, 6 al.(3,8 m) af lengd hússins er innrjettaðar sem sölubúð. Uppi á loftinu eru 6 herbergi innrjettuð 4 lögð með þakpappa og máluð. 1 magazinofn er uppi með sjerskildum rörum upp úr þaki, frá hinum hitavjelunum ganga rörin í reikháf af tigulsteini er nær alla leið uppúr þakinu.
Tvær inngöngudyr voru á húsinu að norðanverðu, var gluggi með tveim krossum úr sprossum yfir þeim vestari og fjórir sex rúðu gluggar á neðri hæð en sex sexrúðu gluggar á efri hæð. Í lýsingunni er að engu getið bíslags við suðurhlið hússins með stiga á milli hæða og hlýtur það því að hafa verið byggt við síðar. Inngönguskúrinn er kominn árið 1916 þegar fyrstu brunavirðingar eru gerðar yfir hús í þorpinu. Eftir stækkunina fékk húsið fjölþættara hlutverk því neðri hæðin var lögð undir atvinnustarfsemi. Sparisjóður Árnessýslu var í austurhlutanum en póstafgreiðsla og bókabúð fyrir miðju þess og íbúð á efri hæð. Einhvern tíma um 1913–16 var þaklagi hússins breytt og risið hækkað lítillega og fékk húsið við það þá lögun sem það hefur enn. Vera kann að á líkum tíma hafi viðbyggingin verið gerð að sunnanverðu. Kirkjuhús er á lista Harðar Ágústssonar, sérfræðings í íslenskri byggingarsögu, yfir varðveisluverð hús sem bæri að friða. Viðgerð Kirkjuhúss var styrkt af Húsafriðunarsjóði 1985 og 1986.
Eins og fram kemur var ýmis rekstur lengi í Kirkjuhúsi. Guðmundur Guðmundsson hafði lengi bókaverslun og mun hún fyrst hafa verið á heimili hans. Friðrik bróðir hans mun hafa annast afgreiðslu í búðinni. Eftir að húsið var stækkað var Sparisjóður Árnessýslu með afgreiðslu sína í rými í austurhluta hússins líklega frá 1897 og þar til hann varð gjaldþrota um 1925.
Sigurður Guðmundsson póstmeistari tók við bókabúðarrekstri af föður sínum og seldi pappírsvörur, ritföng og smávöru líkt og tíðkast í bókaverslunum. Hann seldi líka gler og annað það sem þurfti til gluggalagfæringa. Hann hafði líka á höndum póstafgreiðslu á Eyrarbakka og hafði aðstöðu til þess í herbergi inn af gangi í miðju húsinu.
Andrés Jónsson í Móhúsum á Stokkeyri var með verslunarrekstur (1913–1916) í vesturenda hússins þar til hann hafði byggt Búðarhamar undir verslun sína. Guðlaugur Pálsson, rak þar verslun í tvö ár (1917–1919) áður en hann keypti Sjónarhól og flutti starfsemi sína yfir götuna. Vera kann að Sigurður hafi sjálfur verslað í húsinu í stuttan tíma á milli Andrésar og Guðlaugs.
Þorkell Ólafsson verslaði síðastur í Kirkjuhúsi en hann var þar með verslun frá 1919 og allt fram til ársins 1947 og hafði alla neðri hæðina til afnota. Hann nýtti sparisjóðsrýmið sem pakkhús og eftir að Þorkell hætti verslunarrekstri leigði Guðlaugur Pálsson pakkhúsrýmið í nokkur ár þar á eftir og hafði þar geymslurými fyrir sinn verslunarrekstur.
© ILB/LÁ
Heimildir:
Héraðsskjalasafn Árnesinga. Einkaskjöl Guðmundar Guðmundssonar. Æviágrip hans sjálfs.
Þjóðskjalasafn Íslands. Skjalasafn endurskoðunarinnar 1888–1898. Árnessýsla. Húsaskattur.
Páll Sigurðsson samtal í júlí 2006.
Stefanía Magnúsdóttir samtal í júlí 2006.