Húsið er aldursfriðað samkvæmt lögum um menningarminjar.
Rafstöðin er steinsteypt hús, sambyggt Óðinshúsi, ein hæð með lágu risþaki. Á götuhlið þess er breið og há bílskúrshurð. Vinstra megin við hana eru dyr en hægra megin nýr, hár og mjór gluggi. Ekki eru aðrir gluggar eða gáttir á húsinu í dag. Að innan skiptist húsið í litla forstofu og sal sem klæddur er panelklæðningu í loftinu. Ýmsar minjar um fyrri notkun hússins eins og köttur á járnbita, til að lyfta þungum hlutum og hillur fyrir slökkvislöngur minna á fyrri hlutverk hússins. Smá geymsluloft er yfir forstofu og farið inná það um lúgu upp við loftið í salnum. Inn af salnum er smáherbergi í eystra horni og hefur verið komið þar fyrir salerni.
Eiríkur Gíslason trésmiður lýsir húsinu svo í byggingu:
- 8,6 x veggh. 4 ris 1,5. Steinsteypt klætt með járni neðan á sperrum.
Síðar á sama ári segir hann í nýrri virðingu:
- sama lýsing nema ekki klætt neðan á sperrur inni og timburskilrúmuð forstofa.
Enda þótt Rafstöðin sé eitt fárra húsa á Eyrarbakka sem fullkominn byggingarreikningur er til fyrir er þar að engu getið hver teiknaði húsið. Þar kemur fram að flest allir smiðir og múrarar í þorpinu komu að byggingu þess, eins og Elías Hjörleifsson, Gunnar Jónsson, Júlíus Ingvarsson, Kristinn Gunnarsson, Sigmundur B. Stefánsson, Sigurður Gíslason og Sigurður Ísleifsson, auk Nikulásar Friðrikssonar úr Vestmannaeyjum.
Húsið var upphaflega byggt til að hýsa rafstöð til ljósa fyrir Eyrarbakka. Stöðvarstjóri var Sveinn Guðmundsson járnsmiður. Reksturinn stóð ekki undir lántökum. Bankinn eignaðist rafstöðina og rak í nokkur ár en seldi síðan Kristni Jónassyni rafvirkjameistara, sem starfað hafði um hríð við reksturinn.
Þegar Sogsrafmagn var leitt á Eyrarbakka árið 1947 missti rafstöðin hlutverk sitt. Húsið stóð autt um hríð en eftir að Eyrbekkingar eignuðust sinn fyrsta slökkvibíl árið 1957 fékk það nýtt hlutverk og varð að slökkvistöð. Þá voru gerðar breytingar á húsinu. Stór útihurð með bogalínu að ofan og glugga ofan hurðar, smíðuð af Hafliða Hjartarsyni smið í Reykjavík, vék fyrir nýrri og breiðari hurð. Gluggaskipan var einnig breytt bæði á norður- og suðurhlið. Á báðum hliðum hafa verið tveir misstórir krosspóstsgluggar með niðurskiptum rúðum. Fyrri gluggaskipan sést vel vegna þess að steypt hefur verið upp í gluggatóftirnar og sér móta fyrir steypuborðunum.
Enn var hurð stækkuð og aukin að neðan og sagað úr gólfi þegar hærri slökkvibíll var keyptur til slökkviliðsins árið 1983. Sjöfn Har myndlistarkona hafði vinnustofu í húsinu um hríð á árunum 2003–2005. Núverandi eigandi Sverrir Geirmundsson nýtir húsið líka sem vinnustofu.
Í framhaldi af byggingu hússins var byggð járnsmiðja við vesturgafl þess, en hún var rifin fyrir nokkrum árum ásamt seinni tíma skúr við enda smiðjunnar, og opnað fyrir akstursleið til sjávar.
© ILB
Heimildir:
Eiríkur Gíslason. Virðingarbók fasteigna á Eyrarbakka.
HérÁrn. Byggingarreikningur rafstöðvarinnar.