Sjónarhóll

Húsið að Eyrargötu 46 á Eyrarbakka hefur borið nokkur nöfn í gegnum tíðina, en lengst hefur það þó gengið undir nafninu Sjónarhóll, það nafn kemur fyrst fram í manntali árið 1904. Önnur nöfn sem fram koma í opinberum gögnum eru Garðbær, Kirkjustræti 6 og Eyrargata 46.

Á þeirri rúmu öld, sem húsið Sjónarhóll hefur staðið á Eyrarbakka, hefur það tekið umtalsverðum breytingum. Til hagræðis er hægt að skipta sögu þess í fimm tímabil eftir gerð og ytra útliti:

Fyrsta gerð:

Árið 1887 byggði Þórdís Símonardóttir ljósmóðir sér einlyft timburhús með liggjandi klæðningu og bárujárnsþaki á steinhlöðnum kjallara í Skúmsstaðalandi. Klæðningin kom fram á vesturgafli við síðustu viðgerð hússins og var látin halda sér. Gengið var inn í húsið að norðanverðu.

Gluggaskipan var þannig að einn sex rúðu gluggi var á götuhlið, tveir sex rúðu gluggar á vesturgafli og lítill gluggi í risi og á austurgafli voru tveir þriggja rúðu gluggar og lítill risgluggi.

Húsið er fyrst virt í mati til húsaskatts árið 1887 á 1.000, samkvæmt lista frá 3. apríl 1888 en engin lýsing á húsinu fylgir.

Auk þess að nýta húsið til íbúðar var Þórdís Símonardóttir með kennslu í karlmannafatasaumi og rak þar saumaverkstæði. Þórdís bjó stutt í húsinu og seldi það Jóni Jónssyni bakara árið 1889.

Lýsing hússins byggir á ljósmyndum Sigfúsar Eymundssonar af húsinu.

Önnur gerð:

Helga Sigurðardóttir húsfreyja í Árbæ í Holtum missti mann sinn árið 1896 og flutti þá til Eyrarbakka og keypti Sjónarhól af Jóni bakara. Hún bjó í húsinu ásamt dóttur sinni.

Strax árið 1896 lét Helga breyta húsinu. Þak var hækkað og sett á það mansard-lag með bogalagi og gluggaskipan breytt. Á þessum árum voru byggð nokkur hús með mandsard-lagi á Eyrarbakka og svipar þeim mjög saman, t.d. eru Sjónarhóll og Tún jafn stór hús.

Þrír sex-rúðu gluggar voru settir á framhliðina (suðurhliðina). Á vesturgafl var settur einn sex-rúðu gluggi í risi og annar á austurgaflinn.

Lýsingin byggir m.a. á mynd af Vestur-Bakkanum, sem Agnes Lunn tók um eða upp úr aldamótunum 1900, og á því sem kom í ljós við endurbætur hússins.

Þriðja gerð:

Árið 1897 bætti Helga Sigurðardóttir um betur og lét byggja skúr eftir langhlið hússins að norðanverðu. Vegna skorts á myndefni verður ekkert sagt um gluggaskipan á honum.

Samkvæmt lýsingu á húsinu í manntali 1910 eru 4 herbergi í því þá. Í brunavirðingu Eiríks Gíslasonar árið 1916 er húsinu lýst svo:

A: 5,8×4,5 vegghæð 2,7 ris 2. Brotið þak járnklætt. Niðri 2 herbergi og gangur. Uppi þiljað 2 herbergi. 2 ofnar 25 kr 1.40. Borðaklætt allt utan. 104 tenm (virt á) 2.100.

B: Skúr við norðurhl. 5,8 x 2,3 hæð 2,5. Þiljað innan eldh og gang. Járnþak á rimlum. Borðaklæðning á veggjum. 1 eldavél 50. 33 tenm (virt á) 400.

Heildarvirðing 2.500.

Húsið er fyrst nefnt Sjónarhóll í manntali 1904.

Sigurður Ísleifsson trésmiður keypti húsið af Helgu árið 1907, en hún var föðursystir hans. Hann hafði áður leigt húsið í eitt eða tvö ár. Á þeim árum sem Sigurður átti húsið gekk það líka undir nafninu Settuhús, eftir Sesselju Magnúsdóttur, konu Sigurðar.

Verslun Guðl. Pálssonar

Guðlaugur Pálsson kaupmaður keypti húsið árið 1919 af Sigurði Ísleifssyni og breytti því í verslun.

Á framhlið hússins voru settir tveir verslunargluggar og dyr milli þeirra

Stærð hússins var óbreytt, en samkvæmt brunavirðingu var skúrinn þá aðeins 1 herbergi.

 

Fjórða gerð:

Árið 1925 lætur Guðlaugur Pálsson stækka skúrinn norðan úr húsinu og byggir ofan á hann. Sigmundur Stefánsson trésmiður mun hafa annast verkið.

Lýsing í brunavirðingu frá árinu 1926 hljóðar svo:

Hús 5,8 x 7,5 hæð 4,3. Skúrinn steyptur upp og stækkaður. Þakið jafnt húsþaki sem eitt hús.

Skúrinn náði nú ekki upp að neðri brún þaks heldur upp á mæni. Þetta mun aðallega hafa verið gert til þess að fá aukið geymslupláss fyrir verslunina.

Fyrst eftir að Guðlaugur hóf verslunarrekstur í húsinu leigði hann efri hæðina út og bjó þar ekkja ásamt uppkomnum dætrum sínum.

Fimmta gerð:

Árið 1949 var byggt aftan við og ofan á húsið af Guðmundi Eiríkssyni trésmíðameistara. Var þetta gert til þess að fá fullgilda íbúð á efri hæð. Eiríkur Guðmundsson, sonur Guðmundar, teiknaði viðbygginguna.

Efri hæð var byggð þannig:

Timburgrind, bárujárnsklædd. Einangrað með vikurplötum í grind, en vikursteypa hefur verið sett þar fyrir utan og lá hún að timbur- eða bárujárnsklæðningu. Allir útveggir eru múrhúðaðir að innan og sums staðar er múrhúðin dregin upp á hænsnanet. Ofan á hæðina var sett ris með valmaþaki og var risið hæst 1,9 m.

Um eða rétt eftir 1960 var húsið múrhúðað að utan og munu Kristján Hreinsson og Ingvar Halldórsson í Hliði hafa unnið við það, en þeir múrhúðuðu flest hús sem forsköluð voru á Eyrarbakka á þeim tíma.

Árið 1984 var húsið klætt utan með litaðri álklæðningu og einangrað með einangrunarplasti. Það verk vann Stefán S. Stefánsson trésmíðameistari og vinnuflokkur hans.

Sjötta gerð:

Húsið hefur verið fært í það horf sem það var í um 1919, þegar Guðlaugur Pálsson hóf þar verslunarrekstur. Húsið var bárujárnsklætt og sett á það mansard-þak og einnar hæðar skúr að aftan. Búðarinnrétting er fengin að láni hjá Byggðasafni Árnesinga að hluta en annað endurgert eftir ljósmyndum.

Gert var við húsið í samræmi við grundvallarreglur um viðgerðir á friðuðum og varðveisluverðum húsum. Reynt var að halda í sem mest af gömlu efni, útfærslum og vinnuaðferðum og gerðar voru eins litlar breytingar og unnt var.

Jón Karl Ragnarsson trésmíðameistari sá um allar viðgerðir og endurbætur utan húss, ásamt Guðmundi Magnússyni trésmið. Jón Karl sá einnig um allt timburverk innan húss. Jon Norsteien arkitekt var ráðgjafi við endurbyggingu hússins.

© ILB/LÁ

Heimildir:

Eiríkur Gíslason: Brunavirðingar á Eyrarbakka frá 1916.

Þjóðskjalasafn Íslands. Skjalasafn endurskoðunarinnar 1888–1898. Árnessýsla. Húsaskattur.

Ljósmyndir frá Þjóðminjasafni úr safni Sigfúsar Eymundssonar og Haraldar Blöndal, frá Minjasafninu á Akureyri úr fórum Jórunnar Oddsdóttur, úr safni Ingu Láru og Magnúsar Karels.

Sóknarmanntöl og manntal 1901.