Akur

Litli-Akur
Gamli-Akur

Byggingarár: 1900

Timburhús með járnklæddu þaki og pappaklæddum veggjum sambyggt við bæjardyr og eldhús úr grjóti og torfi.

EIGENDUR
1900 Magnús Ingvarsson
1915 Kristinn Hróbjartsson
1924 Bjarni Eggertsson
1952 Gestur Sigfússon

 

Eitt þeirra húsa sem risu á Eyrarbakka árið 1900 var Akur. Því er lýst þannig nýbyggðu:

Timburíbúðahús Magnúsar Ingvarssonar á Akri er 9 al langt. 6 al breitt með járnþaki einlyft veggir pappaklæddir. Inni er húsið ósundurskift Baðstofa ómáluð með engri hitavjel. Uppi á lofti er að nokkri leiti innrjettað geymsluloft við vesturgafl hússins er skúr með sperrum og lofti og timburþaki 4 × 6 al. með 2 skilrúmum, loks er skúr við innganginn 2 ½ × 2 með trjeþaki. Kjallari 4 × 4 alnir. Húsið með skúrum metið á kr. 1300.1

Eigandi hússins, Magnús Ingvarsson (1840–1920), var Eyrbekkingur. Hann hafði lengi verið vinnumaður hjá Þorleifi ríka Kolbeinssyni og varð seinna formaður á skipi.2 Sama ár og húsið var byggt giftist hann Guðrúnu Björnsdóttur (1863–1939) sem hafði flutt ásamt syni sínum úr Rangárvallasýslu á Eyrarbakka.3

Húsin á myndinni eru talin frá vinstri: Tjörn, þakið á Hvoli, lága húsið Hausthús, þá Akur eldri, útihús frá Akri, Þorvaldseyri og Suðurgata. Myndin er tekin um 1920. Myndhluti.
Ljósmyndari Haraldur Blöndal. Ljósmyndasafn Íslands í Þjóðminjasafni.

Samkvæmt úttekt fyrir brunavirðingu frá 1916 hafa ekki verið gerðar miklar endurbætur á húsinu í áranna rás. Húsið var enn aðeins pappaklætt á veggjum. Eiríkur Gíslason rissar alltaf upp grunnfleti húsa og afstöðu þeirra til næstu húsa við hverja virðingu. Á teikningunni af Akri kemur fram að sambyggðar timburhúsinu eru bæjardyr og eldhús og eru tveir útveggja þeirra úr grjóti og torfi. Handan þeirra veggja eru kofar frá Litlu Háeyri. Akur hefur því verið torfhús að hluta.4

Guðrún Björnsdóttir flutti til Reykjavíkur árið 1924, ásamt syni sínum Kristni Hróbjartssyni. Þau settust að í Sogamýri og bjuggu í Akri við Laugarnesveg og fluttu því húsheitið með sér. Við andlát Kristins er hann kenndur við Akur á Eyrarbakka í dánartilkynningu og hafði þó búið í Reykjavík í yfir 40 ár þegar hann lést.5

Við fasteignamat árið 1930 kemur fram að húsið hefur fengið nýtt hlutverk með nýjum eiganda: „Akur (áður íbúðarhús, nú heyhlaða og fj. geymsla.)“ Síðar í lýsingunni kemur fram að húsið hefur verið „endurbyggt 1928, þá breytt úr íbúð í núverandi ásigkomulag.“6 Þessi breyting er táknræn fyrir þá breytingu sem varð á Eyrarbakka eftir að verslun lagðist þar af og landbúnaður varð í raun helsta atvinna íbúanna. Bjarni Eggertsson á Tjörn var þá orðinn eigandi hússins og hefur væntanlega eignast það eftir að Kristinn flyst af Eyrarbakka. Áratug síðar er húsið enn uppistandandi með sömu nýtingu.

Eftir daga Bjarna Eggertssonar eignaðist Gestur Sigfússon í Frambæjarhúsi Gamla-Akur og nýtti við búskap sinn.

Gamli-Akur árið 1978, þremur árum áður en hann var rifinn. Suðurgata til hægri og þar yfir sést þakið á Strönd og útihús sem var verið að rífa þetta sumar.
Ljósmyndari Magnús Karel Hannesson. Einkasafn ILB/MKH.

Gamli-Akur var rifinn árið 1981.7 Emil Ragnarsson kom að því að rífa húsið og minnist þess „að grindin í húsinu var meira eins og í íbúðarhúsi en hlöðu og í grindinni voru gamlir gluggar, sem sáust ekki að utan og voru sumir þeirra meira að segja með rúðum“.8

ILB


  1. ÞÍ. Endurskoðun REV. B. III. 33 a.
  2. Guðmundur Kristinsson. Kristinn Vigfússon staðarsmiður. (Selfoss: Árnesútgáfan 1987), bls. 24.
  3. Hólmfríður Gísladóttir og Eggert Thorberg Kjartansson. Manntal á Íslandi 1910. 3, Árnessýsla. (Reykjavík: Ættfræðifélagið, 1997), bls. 90.
  4. Eiríkur Gíslason. Brunabótamat á Eyrarbakka 1916–1929. Ljósrit í fórum höfunda.
  5. Morgunblaðið 16. desember 1965, bls. 22.
  6. ÞÍ. Fasteignamat 1930, nr. 107.
  7. Ólafur Nilsson, samtal 29. nóvember 2023.
  8. Emil Ragnarsson, samtal 29. nóvember 2023.